Hildur Guðnadóttir tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir tónlistina í JOKER

(Mynd: RÚV/samsett mynd)

Hildur Guðnadóttir tónskáld er tilnefnd til Óskarsverðlauna í ár fyrir tónlistina í Joker eftir Todd Philips. Þetta var tilkynnt fyrr í dag.

Þetta kemur fram á vef RÚV og þar segir ennfremur:

Einnig eru tilnefndir Alexander Desplat fyrir tónlistina í Little Women, Randy Newman fyrir tónlistina í Marriage Story, Thomas Newman fyrir tónlistina í 1917 og John Williams fyrir tónlistina í Star Wars: The Rise of Skywalker.

Hildur er annar Íslendingurinn til að hljóta tilnefningu til Óskarsverðlauna í flokkinum. Jóhann Jóhanns­son var til­nefndur fyrir The Theory of E­veryt­hing árið 2015 og Si­cario árið 2016. Hildur er eins og gefur að líta eina konan sem tilnefnd er í ár fyrir frumsamda kvikmyndatónlist. Hún er sjötta konan til að fá tilnefningu í flokkinum í sögu verðlaunanna.

Sigurganga Hildar hefur vakið mikla athygli, hér heima sem og erlendis. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir tónlist sína í Joker, kvikmynd Todd Philips með Joaquin Phoenix í aðalhlutverki. Þar má nefna Golden Globe verðlaunin og nú síðast Critic’s Choice verðlaunin.

Joker fær flestar tilnefningar til Óskarsverðlauna í ár, alls ellefu, þar á meðal sem besta kvikmyndin, Joaquin Phoenix fyrir leik í aðalhlutverki og Todd Philips fyrir leikstjórn.

Óskarsverðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn 9. febrúar. Sýnt verður frá hátíðinni á RÚV í beinni útsendingu.

Sjá nánar hér: Hildur tilnefnd til Óskarsverðlauna

Sjá má allar Óskarstilnefningar hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR