Idris Elba í næstu mynd Baltasars; tekin alfarið upp á Íslandi

Tökur á næstu mynd Baltasars Kormáks, Deeper, hefjast hér á landi í lok maí. Enski leik­ar­inn Idr­is Elba mun fara með aðal­hlut­verkið.

Morgunblaðið segir frá og í frétt mbl.is segir meðal annars:

Enski leik­ar­inn, kyn­táknið og kvik­mynda- og sjón­varpsþátta­stjarn­an Idr­is Elba mun fara með aðal­hlut­verkið í næstu kvik­mynd Baltas­ars Kor­máks, Deeper, sem tök­ur hefjast á hér á landi í lok maí á þessu ári. Þetta staðfest­ir Baltas­ar sem er stadd­ur í Los Ang­eles þegar blaðamaður nær tali af hon­um, er­indi leik­stjór­ans þar að vinna í kvik­mynda­hand­riti sem nefn­ist Arctic 30 og að funda með ráðamönn­um fyr­ir­tæk­is­ins sem fram­leiðir Deeper, MGM.

Tök­ur mynd­ar­inn­ar munu fara fram í nýju mynd­veri fram­leiðslu­fyr­ir­tæk­is Baltas­ars, RVK Studi­os, í Gufu­nesi og á hafi úti, lík­lega í Faxa­flóa, að sögn leik­stjór­ans. „Þetta verður senni­lega fyrsta stóra mynd­in sem verður tek­in öll upp á Íslandi,“ bend­ir Baltas­ar á, „stúd­íóið býður upp á þenn­an mögu­leika, að gera þetta.“

Hann seg­ir fjölda Íslend­inga munu koma að gerð mynd­ar­inn­ar og ein­hverja út­lend­inga, eins og gef­ur að skilja. „Þetta hef­ur verið draum­ur minn, að reisa þetta stúd­íó og geta komið með verk­efni til Íslands og unnið það,“ seg­ir Baltas­ar og stutt er í að sá draum­ur verði að veru­leika.

Hann er spurður að því hvort fleiri leik­ar­ar hafi verið ráðnir í kvik­mynd­ina og seg­ir hann svo ekki vera, verið sé að skoða þau mál en Elba sé í burðar­hlut­verk­inu. „Þetta er svo­lítið mikið „one man show“ en við vor­um ein­mitt að ræða um aðra leik­ara á fundi í gær hjá MGM. Það er bara ekki komið lengra en planið er að taka mynd­ina í lok maí, byrja tök­ur þá og þetta er komið á fullt, byrjað að byggja og svona.“

Lét færa tök­urn­ar

–Vild­ir þú fá Elba í hlut­verkið?

„Já, þetta var al­gjör­lega minn draum­ur að fá hann og fyrst var mér sagt að það gengi ekki, að hann væri að gera eitt­hvað annað á þess­um tíma. Þá lét ég færa tök­urn­ar og þetta gekk upp,“ svar­ar Baltas­ar. „Stúd­íóið var ein­mitt að tala um það í gær hvað það væri ánægt með að ég hefði ýtt svona á þetta, hann er svo fun­heit­ur núna, karl­inn,“ bæt­ir leik­stjór­inn við sposk­ur. Elba sé á miklu flugi þessa dag­ana. „Ég vildi fá ein­hvern með mikla per­sónutöfra því hann held­ur eig­in­lega uppi mynd­inni.“

–Ertu bú­inn að hitta Elba?

„Já, já, við erum bún­ir að hitt­ast tvisvar og þetta er bara frá­bær ná­ungi og flott­ur gaur. Þannig að þetta er bara spenn­andi.“

Flott­ur gaur

Kvik­mynd­in seg­ir af fyrr­ver­andi geim­fara sem ræður sig í hættu­legt verk­efni, að kafa niður á mesta dýpi sjáv­ar. Er Deeper lýst sem yf­ir­skil­vit­legri spennu­mynd á hinum ýmsu kvik­mynda­vefj­um og mun Elba lenda í mikl­um háska á ferð sinni í sér­hönnuðu djúp­sjáv­ar­fari, eins og nærri má geta, óvænt­ir at­b­urðir munu eiga sér stað.

Baltas­ar er spurður að því hvort hlut­verk Elba sé hetju­hlut­verk og seg­ir hann svo ekki vera. „Nei, þetta er „twisted“ gæi og þetta er mikið innra ferðalag,“ seg­ir hann og að mynd­in falli ekki í flokk svo­kallaðra „survi­val“ kvik­mynda, þ.e. kvik­mynda sem fjalla um fólk sem þarf að berj­ast fyr­ir lífi sínu and­spæn­is nátt­úr­unni. Hún sé miklu held­ur sál­ar­tryll­ir, „psycho thriller“ eins og það heit­ir á ensku.

Sjá nánar hér: Baltasar á bólakaf með Elba

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR