Önnur bíómynd Maríu Sólrúnar Sigurðardóttur, Adam, verður frumsýnd á Berlinale hátíðinni sem fram fer 15.-25. febrúar. María Sólrún, sem búsett er í Berlín, hefur verið handritaráðgjafi Kvikmyndamiðstöðvar Íslands síðan 2006 en einnig starfað sem handritshöfundur í Þýskalandi.
Fyrsta bíómynd hennar, Jargo, var einnig sýnd á Berlinale 2004.
Morgunblaðið ræðir við hana vegna frumsýningarinnar:
„Myndin okkar er sýnd undir flokki sem kallast „Generations“ þar sem umfjöllunarefnið eða þemað er ungt fólk. Í myndinni okkar er aðalpersónan tvítugur heyrnarlaus strákur, Adam, en hann þarf að takast á við það vandamál að mamma hans er komin með elliglöp vegna þess að hún hefur starfað sem teknótónlistarkona og er búin að drekka of mikið og dópa um ævina, og afleiðingarnar eru þessi glöp. Þegar hún áttar sig á hver örlög hennar gætu orðið vegna þessa, þá biður hún son sinn um að drepa sig, frekar en láta loka sig inni á stofnun. Adam þarf að ákveða hvort hann eigi að standa við þetta loforð, getur hann það og vill hann það?“ segir María Sólrún og bætir við að hún sæki í eigin reynslu að hluta til, því móðir hennar fékk elliglöp fyrir aldur fram.
Sjá nánar hér: Tekst á við fyllibyttuna og dópistann