Kvikmyndafræðideild Háskóla Íslands mun halda fyrirlestrarröð í vetur undir heitinu „Íslensk kvikmyndaklassík“, þar sem mikilvægum brautryðjendum íslenskrar kvikmyndagerðar og athyglisverðum samtímaleikstjórum er boðið í heimsókn til að ræða um tilurð, framleiðslu og viðtökur tiltekinnar myndar eftir sig. Kvikmyndaskáldið Ágúst Guðmundsson ríður á vaðið fimmtudaginn 21. september kl. 12 í Veröld (húsi stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur), stofu 108 og mun hann ræða um kvikmynd sína Land og syni frá 1980. Fyrirlestrarnir verða haldnir einu sinni í mánuði og eru öllum opnir.
Gert er ráð fyrir að sjálft erindið sé kannski rúmur hálftími upp í þrjú korter en að því búnu verður opnað fyrir umræður.
Síðar í haust er von á Guðnýju Halldórsdóttur, sem mun ræða um kvikmyndaaðlaganir sínar á skáldverkum föður síns, Kristnihald undir jökli (1989) og Ungfrúin góða og húsið (1999). Þriðji gestur kvikmyndafræðinnar, ef vonir standast, verður svo Nanna Kristín Magnúsdóttir, en hún hefur vakið mikla athygli fyrir stuttmynd sína Ungar, sem frumsýnd var í fyrra og sópað hefur til sín hverjum verðlaunum á fætur öðrum, bæði hérlendis og erlendis. Næstkomandi vor koma svo Kristín Jóhannesdóttir og Friðrik Þór Friðriksson í heimsókn, og fleiri.
Í tilkynningu frá Kvikmyndafræðideildinni segir:
Valið á Ágústi Guðmundssyni og mynd hans, Landi og sonum, þarf svo ekki að koma á óvart. Við erum hér að tala um eina helstu lykilmynd íslenskrar kvikmyndasögu, frábært verk sem hefur elst afskaplega vel, og það þrátt fyrir þær gríðarlega erfiðu aðstæður sem kvikmyndagerðarfólk átti við að etja á fyrstu árum „kvikmyndavorsins“ svokallaða, og jafnvel gott betur lengur en það. Myndin tekur á umfjöllunarefni sem var eitt hið miðlægasta í íslenskum bókmenntum og svo kvikmyndum nær alla síðustu öld; umskiptunum sem áttu sér stað þegar búferlaflutningarnir úr sveit í borg breyttu ásýnd þjóðarinnar og lifnaðarháttum með róttækum og óafturkræfum hætti. Rof átti sér stað sem þurfti að vinna úr, og Land og synir er eitt af meistaraverkunum sem það gera. Þar að auki er leit hérlendis að leikstjórum sem hafa átt sér jafn merkan feril og Ágúst Guðmundsson. Óhræddur lagði hann til atlögu við sagnaarfinn með Útlaganum (1981), en hún er enn þann dag í dag eina kvikmyndin sem með beinum hætti lagar Íslendingasögu að hvíta tjaldinu. Eins og Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, prófessor í íslensku, hefur bent á, hefur Útlaginn haft mótandi áhrif á skilning okkar í dag á sögunni um Gísla Súrsson. Vart þarf að minnast á stöðu Með allt á hreinu (1982) í íslenskri menningu, og áfram hélt Ágúst að senda frá sér merkar kvikmyndir, Dansinn (1998) og Mávahlátur (2001) eru aðeins tvö dæmi.
Ýmislegt liggur fyrirlestraröðinni til grundvallar. Hugmyndin er í senn sú að fyrirlestrarnir verði gagnlegir áhugafólki um íslenska kvikmyndasögu og að skref verði stigið til að brúa bilið sem hefur e.t.v. myndast milli akademíska heimsins og kvikmyndagerðar á Íslandi eins og henni vindur (eða vatt) fram í „rauntíma“. Með þessum hætti myndi mikilvæg þekkingarmiðlun eiga sér stað frá starfandi kvikmyndagerðarfólki yfir til háskólasamfélagsins. Þótt yfirskriftin sé „kvikmyndaklassík“ – sem er sannarlega réttnefni þar sem gestir kvikmyndafræðinnar þetta árið eiga nær allir það sameiginlegt að hafa gert verk sem klassísk eru orðin í íslenskri kvikmyndasögu, og sumir fleiri en eitt – er staðreyndin sú að þeir eru líka allir starfandi og í fullu fjöri, með spennandi verkefni í gangi og eiga vafalaust enn eftir að leggja heilmikið til okkar sameiginlegu kvikmyndamenningar.
Þá hefur kvikmyndafræði Háskóla Íslands undan farin ár sinnt íslenskri kvikmyndagerð og kvikmyndasögu í auknum mæli, bæði í formi námskeiða og sýningarhalds. Fyrir nokkrum árum var námskeið haldið um Friðrik Þór Friðriksson, höfundarverk hans og stöðu í íslenskri kvikmyndasögu. Farið var kerfisbundið yfir verk hans og þau sett í samhengi, innlent sem og erlent. Þá var námskeið um íslenska kvikmyndahöfunda kennt fyrir skemmstu sem gekk afar vel. Það var Gunnar Tómas Kristófersson, doktorsnemi, sem kenndi það. Í námskeiðinu tók hann fyrir Ágúst Guðmundsson, Dag Kára og Baltasar Kormák og skoðaði út frá höfundarhugtakinu, eins og það hefur þróast og mótast frá því að hugmyndasmiðir frönsku nýbylgjunnar komu því upphaflega á kortið. Svo ekki sé minnst á námskeiðið um Baltasar Kormák, „Frá 101 til Hollywood“, sem Kjartan Már Ómarsson kenndi í fyrra. Fleiri mætti tína til en ekki skiptir minna máli að við Háskóla Íslands eru um þessar mundir upprennandi fræðimenn á sviðinu að skrifa doktorsritgerðir um íslenska kvikmyndamenningu. Að vissu leyti byggir þetta allt á starfi sem kvikmyndafræðingurinn Björn Ægir Norðfjörð og Guðni Elísson, prófessor í almennri bókmenntafræði, hafa unnið á fyrri árum, bæði við að koma kvikmyndafræðinni á laggirnar við HÍ og í margþættri fræðastarfsemi og útgáfum.
Stefnan í kvikmyndafræðinni er að skipuleggja fyrirlestraraðir á borð við þessa með reglubundnum hætti, jafnvel á hverju ári. En það yrði þá gert með varíasjónum. Næst væri til dæmis afar skemmtilegt að vera með fyrirlestraröð á borð við „Íslensku nýbylgjuna“, fá yngri leikstjóra til að koma í heimsókn og ræða um stöðuna í íslenskri kvikmyndagerð um þessar mundir (eins og Nanna er reyndar dæmi um í þessari fyrstu röð sem nú er verið að gangsetja). Velta upp spurningum um það hvernig kvikmyndalandslagið þessa stundina blasir við þeim sem ólust upp við verk frumherja á borð við Ágúst, Guðnýju, Kristínu og Friðrik. Það eru gríðarlega áhugaverðir hlutir að gerast í íslenskri kvikmyndagerð um þessar mundir. Ný kynslóð leikstjóra hefur verið að hasla sér völl á umliðnum árum. Hin nýfrumsýnda kvikmynd Hafsteins Gunnars, Undir trénu, er framúrskarandi dæmi um það. En einnig mætti nefna grasrótarleikstjóra á borð við Sigurð Anton Friðþjófsson (Webcam, 2015; Snjór og Salóme, 2017). Þá gæti líka verið fróðlegt að fá aðra en leikstjóra í heimsókn, ræða til dæmis við tökufólk, propsara, klippara o.s.frv. Eitt árið mætti taka fyrir tiltekna mynd og fá ólíkt fólk sem kom að gerð sömu myndar til að ræða hana frá ólíkum sjónarhornum.