spot_img

Chaplin og Molina í mynd Katrínar Ólafsdóttur “The Wind Blew On”

Rammi úr The Wind Blew On.

Spænsku leikkonurnar Geraldine Chaplin og Angela Molina munu koma fram í kvikmynd Katrínar Ólafsdóttur, The Wind Blew On, sem í fyrra hlaut Eurimages Lab verðlaunin í Haugasundi. Guðrún Edda Þórhannesdóttir framleiðandi er einnig komin að verkefninu, sem verið hefur í tökum í um sex ár.

Hin rúmenska Elina Löwensohm (Basquiat, Simple Men) og bandaríski tónlistarmaðurinn Josh T. Pearson (Lift to Experience) leika einnig í myndinni, en með aðalhlutverkið fer sonur leikstjórans, Flóki. Hann leikur ungan dreng (innblásinn af Litla prinsinum) sem ferðast um ókunn lönd og hittir fólk sem hjálpar honum að verða að manni.

Katrín Ólafsdóttir.

“Þessi heimsslita spagettívestri er myndlíking um glatað sakleysi og paradísarmissi,” segir leikstjórinn við vef Norræna sjóðsins. “Ferðin er torsótt þar sem hún er farin í þeirri vitneskju að við erum alltaf fær um að særa þá sem við elskum mest, að hið illa vokir yfir gjörðum okkar og er alltaf nálægt. Dauðinn verður til gegnum óttann sem þetta skapar. Hvernig getum við tekist á við þessi ósköp? Gegnum trú, tækni, gegnum sjálfa ástina? Með ferðalagi þessa drengs freista ég þess að skoða hvernig við mannfólkið bregðumst við þessum spurningum.”

Katrín hefur unnið að myndinni undanfarin sex ár og þegar tekið upp nokkra hluta hennar, bæði á Íslandi og í Almeríu á Spáni. Frumsýning er fyrirhuguð 2018. Jóhann Jóhannsson tónskáld hefur umsjón með músik og tökumenn eru Arnar Þórisson og Mauro Herce.

Sjá nánar hér: Icelandic Eurimages Lab winner attracts top talents

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR