RÚV og RVK Studios Baltasars Kormáks, hafa gert með sér samkomulag um þróun og undirbúning 6-8 sjónvarpsþátta og kvikmyndar sem byggjast á Sjálfstæðu fólki Halldórs Laxness. Vonast er til að tökur hefjist síðla næsta árs.
Í Kastljósi RÚV í kvöld skýrði Baltasar frá því að Ingvar E. Sigurðsson myndi fara með hlutverk Bjarts, en Ingvar hefur áður farið með hlutverkið á sviði Þjóðleikhússins.
Verkefnið verður einhver allra umfangsmesta framleiðslan í íslenskri kvikmynda- og sjónvarpssögu, en gert er ráð fyrir að kostnaður nemi um einum og hálfum milljarði króna. Tökur fara fram á Íslandi og er stefnt að því að sem flestir í tökuliði og leikarahópi verði íslenskir og gert er ráð fyrir að bæði þáttaröðin og kvikmyndin verði tekin upp á íslensku.
Baltasar leikstýrir verkinu og skrifar handritið í samstarfi við aðra handritshöfunda.
Í Kastljósi kom einnig fram að tökur á annarri syrpu af Ófærð hefjist í haust og er fyrirhugað að hefja sýningar á henni haustið 2018.
Fyrsta syrpa Ófærðar var sýnd við fádæma vinsældir 2016, sló öll áhorfsmet á Íslandi og hefur síðan verið sýnd í fleiri löndum en flestar aðrar leiknar íslenskar þáttaraðir.
„Það hefur lengi blundað í mér að gera kvikmynd eftir þessari frægustu bók okkar Íslendinga. Þessi saga harðræðis, þvermóðsku og brostinna drauma talar til allra, ekki bara okkar hér á landi. Þetta er krefjandi verkefni sem allir munu hafa skoðun á og það gerir það enn meira spennandi. Það er mjög ánægjulegt að RÚV auki enn aðkomu sína að leiknu sjónvarpsefni og stuðli þannig að því að íslensk þáttagerð færist á enn hærra plan,“
segir Baltasar Kormákur.
„RÚV hefur stóraukið þátttöku í framleiðslu og miðlun á vönduðu nýju leiknu sjónvarpsefni. Það hefur hreyft við fólki og notið hylli hér heima og erlendis. Það er okkur mikil ánægja að ráðast í þetta metnaðarfulla verkefni með Baltasar og RVK Studios. Við höfum áður átt farsælt samstarf og erum nú að undirbúa þáttaröð nr. tvö af Ófærð. Sjálfstætt fólk er eitt af höfuðbókmenntaverkum Íslendinga og hefur haft mikil áhrif á sjálfsmynd þjóðarinnar. Við höfum mikla trú á að Baltasar og aðrir frábærir listamenn geti leyst töfra sögunnar úr læðingi og blásið í hana nýju lífi nýjar kynslóðir hér heima og um heim allan. Við erum stolt af því að eiga ríkulegan þátt í að gera kvikmynd og sjónvarpsþáttaröð upp úr Sjálfstæðu fólki, við teljum það mikilvægt íslenskri menningu og nýjum kynslóðum,“
segir Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri.
Um skáldsöguna og viðtökur hennar
Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness kom út 1934-35 og er líklega sú saga sem víðast hefur borið hróður Halldórs Laxness. Hún fór sigurför um heiminn um miðbik 20. aldar, var meðal annars bók mánaðarins í stærsta bókaklúbbi Bandaríkjanna árið 1946 og seldist í hálfri milljón eintaka á aðeins tveimur vikum.
Þessi mikla velgengni Sjálfstæðs fólks um víða veröld átti eflaust stóran þátt í að Halldór var sæmdur Nóbelsverðlaununum í bókmenntum 1955 en við það tilefni var hann sagður hafa skipað sér á stall með höfuðskáldum heimsbókmenntanna á borð við Miguel de Cervantes, Émile Zola, Leo Tolstoy og Knut Hamsun. Þegar Sjálfstætt fólk var loksins endurútgefin vestra hálfri öld síðar, árið 1997, sagði gagnrýnandi Washington Post í lok lofsamlegs dóms að Sjálfstætt fólk hefði allt sem ein skáldsaga getur haft upp á að bjóða. New York Times taldi hana í hópi hundrað bestu bóka sögunnar.
Sjálfstætt fólk er saga einyrkjans Bjarts í Sumarhúsum og veitir einstæða innsýn í líf íslensku þjóðarinnar á fyrri hluta aldarinnar. Þegar sagan kom fyrst út var hún glóandi innlegg í stjórnmálabaráttu samtímans og mjög umdeild, en telst nú til mestu dýrgripa í menningarsögu Íslendinga.
Til að halda sjálfstæði sínu berst Bjartur í Sumarhúsum harðri baráttu við sjálfan sig, fjölskyldu sína, valdhafana og jafnvel höfuðskepnurnar. Í bókinni eru þessi ályktunarorð dregin af lífsstríði hans: „Sagan af Bjarti í Sumarhúsum er saga mannsins, sem sáði í akur óvinar sins alt sitt líf, dag og nótt. Slík er saga sjálfstæðasta mannsins í landinu.“
Margar tilraunir gerðar til að kvikmynda Sjálfstætt fólk
Alloft hefur komið til tals að kvikmynda Sjálfstætt fólk. Ingmar Bergman lýsti m.a. áhuga sínum á að gera kvikmynd byggða á fyrri hluta verksins í viðtali við Thor heitinn Vilhjálmsson á sjötta áratugnum, sem birtist í bók Thors Regn í rykið. Um aldamótin kom Snorri Þórisson framleiðandi á samstarfi við kollega sína Ishmail Merchant og James Ivory um gerð verksins og var Óskarsverðlaunahafinn Ruth Prawer Jhabvala ráðin til að að skrifa handritið. Þá var brasilíski leikstjórinn Hector Babenco meðal ýmissa kunnra leikstjóra sem rætt var við um að leikstýra. Ekkert varð þó úr þessum áformum.