spot_img

Önnur syrpa af “Ligeglad” í undirbúningi

Vignir Rafn, Anna Svava og Arnór Pálmi. (Mynd: Hari/Fréttatíminn)

Anna Svava Knútsdóttir, Arnór Pálmi Arnarson og Vignir Rafn Valþórsson vinna nú að handriti annarrar syrpu af þáttaröðinni Ligeglad. Áætlað er að tökur fari fram á næsta ári og er stefnan tekin á suður Evrópu. Fréttatíminn ræddi við Önnu Svövu.

Þar kemur þetta meðal annars fram:

Anna Svava leggur nú drög að annarri þáttaröð Ligeglad ásamt félögum sínum. Hún er á kafi í handritsskrifum ásamt þeim Vigni Rafni Valþórssyni leikara og Arnóri Pálma Arnarsyni sem er leikstjóri þáttanna. Síðar í ferlinu bætist svo leikarinn Helgi Björnsson í hópinn en þau Anna Svava og Vignir Rafn fóru á kostum í fyrstu þáttaröðinni sem sýnd var á RÚV fyrr á þessu ári. Í þáttunum sagði af ævintýralegu ferðalagi uppistandarans Önnu Svövu um Danmörku ásamt Helga Björns og Vigni Rafni.

„Beinagrindin að þáttunum er alveg tilbúin. Hún var tilbúin fyrir mánuði síðan en við erum samt búin að breyta henni síðan þá. Sumir þættir eru alla vega langt komnir enda unnum við að þessu í sumar og erum á fullu núna. Suma daga er ég rosa ánægð og allt gengur sjúklega vel og aðra ekki. Þá gerist ekki neitt,“ segir Anna Svava þegar hún er spurð um handritsvinnuna.

Hún vill ekki mikið láta uppi þegar hún er spurð um hvað muni gerast í næstu þáttaröð annað en að sögusviðið verður annað en Danmörk. „Þetta verður bara á svipuðum nótum og í fyrstu þáttaröðinni. Við ætlum ekkert að reyna að gera eitthvað „meira“ en þá. En ég get alla vega sagt að við verðum ekki á sama stað. Það var svolítið kalt í vinnunni síðast, við vorum öll í ullarfötum þá. Þannig að við verðum á hlýrri stað.“

Aðdáendur þáttanna þurfa ekki að bíða lengi eftir annarri þáttaröðinni því handritið verður klárað í lok þessa árs og tökur verða á næsta ári. RÚV ræður því svo hvenær þeir verða sýndir.

Sjá nánar hér: Stefna suður á bóginn í næstu þáttaröð Ligeglad | Fréttatíminn

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR