Tökur í kvikmyndinni Svaninum í leikstjórn Ásu Helgu Hjörleifsdóttur hafa staðið frá júlíbyrjun. Tökur hafa gengið vel að sögn aðstandenda en þær munu standa fram í ágúst. Einnig verður myndað í Grindavík.
Myndin er að mestu leyti tekin á bænum Ytra-Hvarfi í Svarfaðardal, en tökur fara einnig fram víðar í dalnum.
Þessa dagana er beðið eftir að kýr nokkur í sveitinni beri en slík sena er hluti af myndinni. Aðstandendur segja heimamenn í dalnum hafa verið afar hjálplega.
Svanurinn er framleidd af Vintage Pictures, aðal framleiðendur eru Hlín Jóhannesdóttir og Birgitta Björnsdóttir, en aðrir framleiðendur eru Guðbjörg Sigurðardóttir, Verena Gräfe-Höft (Antboy, Nothing Bad Can Happen) og Anneli Ahven (Ghost Mountaineer). Leikstjórinn, Ása Helg Hjörleifsdóttir, skrifar einnig handrit eftir bók Guðbergs Bergssonar.
Hinn þýski Martin Neumeyer er tökumaður, Drífa Freyju-Ármannsdóttir gerir leikmynd, hinn eistneski Ants Andreas tekur upp hljóð og klippingu annast Þjóðverjinn Sebastian Thumler.