Gróðagreddan lætur aldrei að sér hæða, vinnubrögð við heyvinnu í SVARI VIÐ BRÉFI HELGU gagnrýnd

Jóhannes Geir Gíslason, fyrrum bóndi í Skáleyjum á Breiðafirði, skrifar í Bændablaðið um þau vinnubrögð við heyskap sem sýnd eru í kvikmyndinni Svar við bréfi Helgu eftir Ásu Helgu Hjörleifsdóttur.

Jóhannes Geir skrifar:

Hin hugljúfa ástarsaga Bergsveins Birgissonar um ástir þeirra Bjarna og Helgu hefur verið mynduð og var sýnd í sjónvarpinu um sl. jól og aftur um hvítasunnu.

Óleyfilegar ástir hafa víst alltaf verið til og verða sjálfsagt áfram. Ástarleiki og hvílubrögð þarf ekki að kenna, kunnáttan er víst meðfædd. En vinnubrögð og störf liðins tíma þarf að kenna og þjálfa í nokkur ár áður en farið er að mynda þau, svo þau verði ekki tóm lygi og háðung eins og þessi mynd sýnir.

Allt sem myndað hefur verið síðustu áratugina og sýnt, er sömu lögmálum háð. Fólk nútímans kann víst vel að munda myndavélar en aflögð vinnubrögð, sem fyrri kynslóðir lifðu af, miður.

Mynd mín af fólki í heyvinnu er skýr. Lagna sláttumenn, röskar rakstrarkonur, skarpa heybandsmenn var sjón að sjá, að störfum.

Það væri maklegt verkefni þeirra sem vilja, að mynd hins liðna lifi, að koma upp vinnuflokki sem kynni þess störf og geyma síðan störfin á myndbandi. En til þess að myndin verði sönn þarf margra sumra þjálfun fólksins.

Marga eymdarútgáfuna hefur maður séð af þessum störfum á skjánum, í seinni tíð, bæði íslenskar og erlendar myndir. Allt á sömu bókina lært. Klaufskan í öndvegi.

Það var í sjálfu sér rétt að sýna störf þeirra Bjarna og Helgu, en með öllu óréttlætanlegt að ljúga þessari klaufsku upp á þau. Það er fölsun, sakhæft athæfi.

Myndin sú arna er aðeins of snemma á ferðinni, við sem kunnum þetta og lifðum af því erum ekki öll dauð og ráðum því við háðungina. Myndin „Saga Borgarættarinnar”“varð til snemma á sl. öld, kannski um 1930. Sú mynd er að vísu vond, myndtæknin ekki orðin þroskuð en hún sýnir alvöru störf. Vant fólk var að verki. Hafi nú höfundum myndarinnar „Svar við bréfi Helgu“ gengið það til að hæðast að störfum genginna kynslóða, hefur þeim mistekist illa. Háðungin er þeirra sjálfra.

En þeim er það vorkunn. Það var gróðafíknin sem réð ferð en ekki heimildin.

Myndgerðarmenn eru svo fáfróðir að þeir halda að svona hafi verið unnið. Þeim er vorkunn. Þeir eru verkfæri auðvalds og ágóðahyggju, auk þess sjáanlega mútuþegar tóbakssölu.

Gróðagreddan lætur aldrei að sér hæða

Lítum nú á nokkur atriði myndarinnar:

Bjarni að slá. Hann vingsar orfinu nokkurn veginn skaplega. En ljárinn kemst aldrei út úr ljáfarinu. Það er líkast því að hann stingist alltaf á kaf í jörðina. Ekkert er látið sjást hvað undan eða af ljánum kemur (kannski var það skynsamlegt).

Fólk í heyþurrkun. Völlurinn líkastur því að hann hafi verið reyttur fremur en sleginn. Enginn flekkur, bara einhver heytæting út um allt. Konur að rifja troða ofan í heyið hver hjá annarri. Halda að vísu skammlaust á hrífunum allar nema ein.

Hún mundar hrífuna eins og kláru. (Þannig vinnubrögð sjást að vísu í Reykjavík nú til dags. Eða hvað? Er það kannski liðin tíð?) Er það ætlun myngerðarmanna að hefja þessa klaufsku til vegs? Nei. Bjálfaháttur og fáfræði nútímans er ráðandi.

Klæðnaður og búnaður fólksins. Hann er nútímans. Konur komu að vísu frá heimilisstörfum út að rifja eins og þær stóðu í pilsi eða kjól enværu þær síðhærðar fléttuðu þær hár sitt eða bundu. Kynþokkafullt flaksandi síðhár er nútimans. Það hefði talist subbuskapur, óhentugt við útistörf. Við engjaheyskap hefði engin gengið þannig til verks. Á tíma myndarinnar gengu konurnar að útiheyskap í galla- eða vaðmálsbuxum og heftu hár sitt. Ekki berhausaðar, en gjarnan með skuplu eða húfu.

Rakað upp. Það verk var alls staðar unnið ef hætta var á vætu en hefur önnur nöfn í öðrum landshlutum. Að „raka upp“ er nafnið sem ég þekki. Heyið var saxað upp úr flekkjunum í föng að kvöldi eða ef útlit var fyrir vætu. Breitt aftur að morgni eða næsta þurrki. Við breiðinguna voru ekki notuð verkfæri, aðeins hendurnar. Ég held að í myndinni hafi fólkið átt að vera að raka upp í einni senunni en reyndar var það óljóst hvern fjandann það var að vöðlast. Látum þar útrætt um þessi ömurlegu vinnubrögð.

Það væri vissulega ómaksins vert að festa á filmu störf genginna kynslóða. Það var oft sjón að sjá röska sláttumenn eða heybandsmenn að verki. Eða vasklegar konur á hrífunni. En til þarf nokkurra sumra þjálfun að koma slíku liði upp. Umhverfið á Ströndum nýtur sín vel, það er plús.

Það er bein vanvirða við þessar ágætu sögupersónur Bjarna og Helgu að vera að ljúga því upp að þau og þeirra samtíð hafi verið þvílíkir skussar til starfa.

Myndgerðarmenn! Þið sem eruð snillingar á myndavélina. Hættið að nota hana til að ljúga klaufsku upp á ágæta feður okkar og mæður.

Ég get enn skammast, þó orðinn sé ófær til verka.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR