RIFF efnir til opins fundar um kynjakvóta

Félagar í WIFT, félags kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi.
Félagar í WIFT, félags kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi.

RIFF stendur fyrir opnum málfundi í Tjarnarbíói fimmtudaginn 20. ágúst næstkomandi kl. 17 þar sem talsmenn ólíkra skoðana koma saman og ræða hvort setja skuli kynjakvóta á úthlutanir Kvikmyndasjóðs.

Fundurinn verður byggður upp á stuttum erindum frá sex aðilum sem verður fylgt eftir með pallborði þar sem þau sitja fyrir svörum.

Eftirtaldir munu flytja erindi:

  • Baltasar Kormákur kvikmyndaleikstjóri og framleiðandi
  • Benedikt Erlingsson kvikmyndaleikstjóri
  • Dögg Mósesdóttir kvikmyndaleikstjóri og formaður félags kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi
  • Guðný Guðjónsdóttir gjaldkeri SÍK – Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðanda
  • Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra
  • Þór Tjörvi Þórsson framleiðslustjóri KMÍ – Kvikmyndamiðstöðvar

Í fréttatilkynningu frá RIFF segir:

Málefni þess kynjahalla sem fyrirfinnst í íslenskri kvikmyndagerð hafa verið í umræðunni síðustu ár. WIFT, Konur í kvikmyndum og sjónvarpi, hafa verið ötular að halda málinu í umræðunni og ýtt á eftir að kannanir séu framkvæmdar og þrýst á stjórnvöld að leiðrétta hallann.

Í viðtali við Fréttablaðið 24. júlí síðastliðinn tók leikstjórinn Baltasar Kormákur upp umræðuna. Þar kemur fram að hann telur að það þurfi að setja kynjakvóta á úthlutanir úr kvikmyndasjóði til að hleypa konum inn í kvikmyndagerð. Hann telur bestu leiðina til þess vera þá að framlög til kvikmyndasjóðs verði aukin á hverju ári í fimm ár. Þannig yrði búin til kvennasjóður. Í viðtalinu var haft eftir Baltasar:

„Ef fyrirtækin vita að það er hægt að sækja í þennan sérstaka kvennasjóð verður farið í það að finna þetta efni eftir konur, þróa það og vinna. Það er ekkert sem segir að konur séu síðri leikstjórar en karlmenn. Það eru engin rök sem halda í því. Það er hins vegar margt í kerfinu sem hefur haldið þeim frá þessum leikstjórastól,“

Í kjölfarið var haft eftir Illuga Gunnarssyni, menntamálaráðherra sem fer með málefni kvikmyndasjóðs, að hann teldi hugmyndir Baltasar framkvæmanlegar. Hann sagði meðal annars:

„Baltasar er að leggja til tímabundinn kynjakvóta og horfa til þeirrar aukningar sem væri möguleg á sjóðinn. Þetta er hugmynd sem ég er tilbúinn að skoða alvarlega,“. Hann sagði einnig að „Það eitt og sér að bæta við fjármagni er ekki nóg. Það skiptir máli að fyrirtækin sem starfa í greininni nýti sér þá fjármuni og ýti áfram konum, opni fyrir þær tækifærin. Það er ekki bara ríkið sem getur gert það, en við getum sannarlega hvatt til þess.“

Fjöldi fólks hefur blandað sér í umræðuna á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum og greinilegt að skoðanir eru skiptar og um mikið hitamál að ræða. RIFF kvikmyndahátíð vill með málfundinum skapa vettvang til að ræða hugmyndina um kynjakvóta á opnum fundi þar sem allir geta komið sínum skoðunum á framfæri.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR