Un Certain Regard verðlaunin til kvikmyndar Gríms Hákonarsonar, Hrútar, eru mikill merkisviðburður. Cannes er drottning kvikmyndahátíða heimsins, hátíð hátíðanna og þetta er í fyrsta sinn sem íslensk bíómynd vinnur þar til verðlauna. Grími Hákonarsyni leikstjóra og handritshöfundi myndarinnar, Grímari Jónssyni framleiðanda og þeirra fólki er hér með óskað hjartanlega til hamingju.
Það hefur verið sérlega ánægjulegt að fylgjast með viðbrögðum við myndinni gegnum alþjóðlega kvikmyndamiðla og fulltrúa hennar í Cannes. Allt frá því hún var frumsýnd á hátíðinni á föstudag fyrir rúmri viku hafa jákvæðir straumar verið áberandi í garð hennar; það hófst strax örfáum klukkustundum eftir frumsýninguna með umsögn Variety og hélt svo áfram síðar þann sama dag og næstu daga með dómum allra stærstu fagmiðlanna (Screen, Cineuropa, The Hollywood Reporter) og ýmissa fleirri, sem allir voru á svipuðum nótum.
Samhliða hafa reglulegar fréttir borist af góðu gengi í sölumálum myndarinnar, en hún hefur nú verið seld til um tuttugu landa. Öruggt má teljast að mun fleiri lönd bætist í þann hóp á næstunni. Þá bíður myndarinar þátttaka í fjölmörgum alþjóðlegum hátíðum víða um heim á næstu mánuðum.
Þrátt fyrir að óvarlegt sé að tengja alla þessa miklu athygli við niðurstöðu sérlundaðra dómnefnda, sem gjarnan fara sínar eigin leiðir þar sem margt blandast inní, leyfði ég mér samt að gefa í skyn hér á Klapptré í gær að myndin væri kannski á leið í verðlaunasæti. Það lá eitthvað í loftinu.
Það er freistandi að missa sig í hástemmdar yfirlýsingar en betra að láta bara verkin tala – og alveg sérstaklega í þessu tilfelli. Íslenskt kvikmyndagerðarfólk vinnur almennt við þröngan ramma þar sem reynir mjög á útsjónarsemi og lausnamiðaða hugsun þegar koma á verkefnum á koppinn. Ekki bætir úr skák sá stórkostlegi niðurskurður fjárfestingar í kvikmyndagerð sem stjórnvöld hafa staðið fyrir á undanförnum árum samfara því að ekkert bólar enn á tiltekt eða uppbyggingu í þeim málum – líkt og hinn verðlaunaði leikstjóri benti á fyrir ekki svo löngu, einn fjölmargra kollega.
Vonandi verður þessi merki áfangi til þess að þau mál verði tekin föstum tökum eigi síðar en strax í gær, kvikmyndagerðarmenn eru orðnir dálítið leiðir á þessu, þeir vilja fyrst og fremst fá að vera í vinnunni.
Já og meðal annarra orða, sá myndina í lokavinnslu fyrr á árinu. Hún er æði. Almennar sýningar á henni hefjast næsta fimmtudag, allir í bíó!