Ólafur de Fleur Jóhannesson leikstjóri Borgríkis 2, ræðir myndina við Morgunblaðið í dag.
Þar segir meðal annars:
Spurður að því hvort myndin sé í anda bandarískra glæpa- og lögreglumynda segir Ólafur að hún sé það að einhverju leyti, e.k. bandarísk-skandinavísk-íslensk blanda. „Svo spilar líka inn í að maður er af VHS-kynslóðinni, ólst nánast upp inni í VHS-tæki og þaðan koma alls konar straumar og stefnur.“
Vill ekki að framhaldsmyndin verði síðri en sú fyrri
-Ef þú berð myndirnar tvær saman, Borgríki 1 og 2, er mikill munur á þeim? Mér skilst að þessi hafi verið mun dýrari í framleiðslu og meira í hana lagt.
„Já, fyrri myndin var gerð af hópi sem langaði að gera verk í kjölfar hrunsins. Við fórum og skutum ódýra mynd, fólk gaf vinnuna sína og fékk hlutdeild á móti og það var lítið Öskubusku-ævintýri sem gekk upp. Núna fengum við stuðning frá Kvikmyndasjóði, endurgreiðslan hjálpar líka til og svo erum við með tvö erlend dreifingarfyrirtæki sem standa þétt við bakið á okkur. Þannig að Borgríki 2 er dýpri, breiðari og stærri, eins og gengur. Er þetta ekki það sama gamla, maður vill ekki að framhaldsmyndin verði síðri en sú fyrri?“ segir Ólafur og hlær.
-Borgríki var fyrsta glæpa- og hasarmyndin þín og þú hlýtur að hafa lært mikið af því að leikstýra henni. Geturðu sagt mér í hverju það fólst og hvernig þú gast nýtt þér það við gerð framhaldsmyndarinnar?
„Ætli það sé ekki fyrst og fremst reynslan af því að vinna með karaktera. Það er sama hversu atriðin eru mörg eða stór, á endanum eru það alltaf karakterarnir sem bjóða áhorfendum inn í myndina. Það er alltaf mikilvægast að einbeita sér að vinnunni hjá leikurunum og svo þegar kemur að útfærslum, áhættuatriðum og slíku, þá leitar maður til fólks sem er sérfræðingar í því.“
-Þú leitaðir einmitt til lögreglumanna þegar þú gerðir fyrri myndina. Gerðir þú það aftur fyrir þessa?
„Já, já og svo vorum við með hauk í hverju horni við útfærslur og annað,“ segir Ólafur. Myndin sé raunsæ upp að ákveðnu marki. „Á endanum er þetta afþreying; þetta er bíó. Heimurinn á að vera í samræmi við sjálfan sig,“ segir Ólafur.