Ráðagerðir Magnúsar Geirs Þórðarsonar útvarpsstjóra benda til þess að markmiðið sé að horfast í augu við veruleikann og freista þess að stilla upp nýju Ríkisútvarpi sem endurnýjar samband sitt við almenning gegnum sterka innlenda dagskrá um leið og það tekst á við fjölmiðlaumhverfi sem er að ganga í gegnum stórstígar breytingar.
Naglasúpuaðferðin
Magnús Geir talar afar hvetjandi og á jákvæðum nótum um verkefnin framundan eins og honum er tamt. Staðreyndin er þó sú að RÚV hefur verið skorið niður um sirka fjórðung frá hruni, þangað inn vantar því vel á annan milljarð króna. Það er hinsvegar pólitískur ómöguleiki, svo gripið sé til nýyrða, að búast við því að fyrirtækinu verði bættur sá skaði á næstunni. Enda virðist Magnús Geir gera sér þá stöðu ljósa hér þar sem hann segir:
„Starfsemin hefur dregist mikið saman á liðnum árum og það hefur verið tálgað utan af henni. En nú er kominn tími til þess að horfa heildstætt á þetta, stokka spilin upp á nýtt til þess að einfalda ferla og tryggja að fjármunir nýtist betur og beint í dagskrána, meira fari í innihald og minna í umbúðir, því Ríkisútvarpið á auðvitað fyrst og fremst að vera stofnun sem skapar mikið og gott innihald.“
Og áfram segir hann á sama stað:
„Það er alveg ljóst að það hefur verið gengið harkalega fram gegn Ríkisútvarpinu og of langt í niðurskurði. Það er algerlega ljóst að ekki má ganga lengra. Slíkt myndi lama starfsemina. En ég tel að við getum gert heilmikið og gott dagskrárefni úr því sem við höfum í dag.“
Eða; „hafa skal það sem hendi er næst, hugsa ekki um það sem ekki fæst“, eins og hinn ráðsnjalli bjartsýnismaður í ævintýrinu um Naglasúpuna hafði gjarnan á orði. (Og vissulega tókst honum að búa til dýrindis súpu að lokum þó ekki væri útlit fyrir það í upphafi).
Semsagt, gott og vel, næsta skref; hvað eigum við að gera með þann pening sem við höfum? Í lok janúar, þegar tilkynnt hafði verið um ráðningu Magnúsar, gaf hann ákveðnar vísbendingar um það:
„Segja má að það þurfi að kjarna hvað við gerum, einbeita okkur að aðalatriðunum og þá kannski gera færri hluti en gera þá betur. Og við hljótum að horfa til þess sem er séríslenskt; menning og umfjöllun um dægurmál og fréttir líðandi stundar sem eiga sérstakt erindi við Íslendinga, frekar en aðra.“
Boðskipti og boðaföll
Magnús Geir er hér að tala um mjög afgerandi forgangsröðun og skarpa fækkun dagskrárliða. Því verður varla tekið hljóðalaust af einstökum hópum áhorfenda sem mun finnast að sér vegið, en spili Magnús þetta vel mun hann komast gegnum boðaföllin.
Sjálfsagt metur hann þetta sem óumflýjanlegt. Umráðafé hefur dregist verulega saman og þar liggur hinn stóri vandi. Magnús bregst við með því að tala um að gera minna en gera það betur. Breytingarnar sem hann þarf að gera verða viðkvæmt ferli og áhættusamt. Magnús hefur það með sér í væntanlegri glímu að vera sterkur í boð- og samskiptum og kunna vel þá list að ramma hlutina í jákvæðu ljósi. Hann mun þarfnast þessara eiginleika sinna í baráttunni framundan.
[quote align=“right“ color=“#999999″]Strategía Magnúsar varðandi „færri hluti en gera þá betur“ virðist sú að gera stöðu RÚV sterkari gagnvart almenningi með góðu efni sem veki athygli og skapi ánægju. Þaðan sé svo hægt að sækja fram, sækja meira fé til frekari dagskrárgerðar. Þetta verður vandrötuð leið en vissulega þess virði að fara.[/quote]Strategía Magnúsar varðandi „færri hluti en gera þá betur“ virðist sú að gera stöðu RÚV sterkari gagnvart almenningi með góðu efni sem veki athygli og skapi ánægju. Þaðan sé svo hægt að sækja fram, sækja meira fé til frekari dagskrárgerðar. Þetta verður vandrötuð leið en vissulega þess virði að fara. Slíkt efni yrði annaðhvort að vera á sviði fréttaskýringa- og/eða heimildaþátta sem vektu mikla athygli eða leikinna þáttaraða sem næðu sterku taki á þjóðinni með inntaki sínu. Helst hvorutveggja og velgengnin þyrfti að standa í nokkur ár hið minnsta.Í þessu samhengi má einnig skoða áherslur hans á að ná til nýrra kynslóða og að regluleg endurnýjun verði í hópi áhorfenda og hlustenda, sem og hugmyndir hans um aukið samtal við þjóðina um hlutverk og erindi RÚV.
Þetta er ágætis byrjun hjá nýjum útvarpsstjóra og fróðlegt að sjá hvernig úr spilast. Honum fylgja allar góðar óskir.