Það var fínt að heyra Guðlaug Þór Þórðarson varaformann fjárlaganefndar tala um að leggja fram áætlun um uppbyggingu kvikmyndaiðnaðarins til lengri tíma og samflokksmann hans Ragnheiði Ríkharðsdóttur taka undir það í þættinum Stóru málin á Stöð 2 í gær. Hefja þarf þessa vinnu eigi síðar en strax.
Ríkisstjórnin hefur haldið því fram að fjárfestingaáætlun fyrri stjórnar standist ekki vegna þess að tekjuliðir hennar séu ekki að skila sér. Á sama tíma leggur Landsbankinn fram 10 milljarða arðgreiðslu til ríkisins, næstum sömu tölu og var ætluð til þess hluta áætlunarinnar sem kvikmyndagreinin tilheyrði, en í fjárfestingaáætluninni var gert ráð fyrir að framlög til kvikmyndagerðar kæmu af arðgreiðslum og sölu eigna.
Það er vissulega stjórnmálamanna að ákveða í hvað peningarnir fara og kvikmyndabransinn hefur nú sem fyrr fullan skilning á erfiðri stöðu ríkissjóðs. Á móti hafa forsvarsmenn greinarinnar bent á að ríkið verði af meiri tekjum en nemi niðurskurðinum, auk þess sem erlend fjárfesting minnki mjög og um 200 ársverk tapist. Það er ekki góður díll fyrir neinn. Ofan í kaupið nemur niðurskurður til kvikmyndasjóðs miklu hærri upphæðum en til sambærilegra samkeppnissjóða (sjá súlurit hér til hliðar) – svo ekki sé minnst á samanburð við aðrar listgreinar.
Það er illskiljanlegt hversvegna stjórnvöld fara fram með þessum hætti gagnvart kvikmyndagerð og algerlega óviðunandi fyrir greinina að búa við þær aðstæður að fótunum sé svo harkalega kippt undan henni með reglulegu millibili. Eðlilegt hefði verið, úr því fjárfestingaáætlun var kippt úr sambandi, að leggja þegar fram slíka uppbyggingaráætlun til lengri tíma eða að minnsta kosti hefja viðræður við greinina um slíka stefnumótun. Nú virðist hilla undir það en sjáum hvað setur.
Slík uppbyggingaráætlun ætti að byggjast á samkomulaginu frá 2006 þar sem gert var ráð fyrir að framlög til kvikmyndagerðar næmu 700 mkr. árið 2011. Sú upphæð nemur 1.160 mkr. í dag og eins og sést á súluritinu hér til hliðar hefur þetta takmark aldrei náðst. Þessi viðmiðunartala er ekki útí loftið heldur niðurstaða samræðu sem snýst um hvernig kvikmyndalist er fjármögnuð í þessu landi þannig að fólk og fyrirtæki innan greinarinnar geti búið við ákveðinn stöðugleika, sinnt fjárfestingum og byggt upp til framtíðar.
Slík áætlun gæti t.d. náð til næstu 3 ára þannig að takmarkið (miðað við uppfærðar tölur að sjálfsögðu) næðist 2017 – í lok kjörtímabilsins. Mikilvægt er að byggja hana á breiðri sátt allra flokka á Alþingi þannig að sami leikurinn hefjist ekki á næsta kjörtímabili. Það ætti ekki að vera erfitt enda hafa margoft komið fram hjá öllum flokkum jákvæð viðhorf til stuðnings við kvikmyndagerð.
Góð byrjun á þeirri vinnu væri að leiðrétta núverandi fjárlagafrumvarp þannig að niðurskurður verði sambærilegur við niðurskurð Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs.