Lestin um REYKJAVÍK 112: Krassandi og vel blóðug íslensk morðgáta

Brynja Hjálmsdóttir, sjónvarpsgagnrýnandi Lestarinnar á Rás 1, rýnir í þættina Reykjavík 112 á Sjónvarpi Símans. „Þetta á að vera hratt og spennuþrungið, og það tekst prýðilega.“

Brynja skrifar:

Af íslenskum glæpasagnahöfundum er Yrsa Sigurðardóttir í uppáhaldi hjá mér. Þegar kemur að afþreyingarbókmenntum eru glæpasögur, um löggur og lögreglumál, reyndar ekki það fyrsta sem ég dreg út úr hillunni, ef ég að leita mér að einhverju hröðu og spennandi verður hryllingur eða unglingabókmenntir oftar fyrir valinu. Yrsa fjallar vissulega oftast um einhverskonar lögreglurannsóknir en hefur óhrædd við að fara alla leið inn í hryllinginn, hefur daðrað við draugasöguformið og það bregst ekki morðin í bókum Yrsu eru alveg nokkrum gráðum ógeðslegri en morð í bókum annarra hérlendra höfunda. Þetta er mér að skapi. Læt þess einnig getið að barnabækur Yrsu eru hver annarri betri, mikilvægt að halda því til haga.

Á dögunum datt ný sería inn á öldur ljósvakans, sem heitir hinu áhugaverða nafni Reykjavík 112. Veit ekki með þetta nafn. Á það við neyðarlínuna eða póstnúmerið? Eða bæði? Þáttaröðin byggir sum sé á bók eftir Yrsu sem heitir DNA og ég get alveg viðurkennt að það er ósköp eðlilegt að sá titill hafi ekki orðið fyrir valinu, enda heldur almennt hugtak og ekki leitunarvélabestað. DNA er fyrsta bókin um aðalhetjurnar Huldar og Freyju, sem þónokkrar bækur hafa verið ritaðar um, og í Reykjavík 112 birtast þau á skjánum í fyrsta sinn.

Í fyrsta þættinum sjáum við átaklega senu, hjón rífast, meðan lítil stúlka fylgist angistarfull með. Stúlkan grípur inn í, faðirinn lætur sig hverfa með stóra ferðatösku, hann er á leiðinni út á völl í vinnuferð. Mamman hleypur til og huggar barnið. Mæðgurnar fara svo að sofa í hjónarúminu en innan skammst birtist dökkklæddur maður í herberginu. Stúlkan nær að fela sig undir rúminu og fylgist með manninum murrka lífið úr móðurinni. Hann lætur sig svo hverfa, og barnið verður eftir undir rúminu. Daginn eftir mætir lögreglan á vettvang, vægast sagt óhuggulegan vettvang, þar sem fórnarlambið hefur verið rekið á hol með ryksugubarka. Eins og ég hafði nú þegar tekið fram eru morðin í bókum Yrsu oftar en ekki afar „skapandi“, það er svona ein leið til að orða það, og slíku er stundum auðveldara að kyngja í bókum en á skjánum. Í það minnsta má alveg vara viðkvæma við því að þetta er harla ófögur sjón.

Eftir nokkra leit finnur lögreglan svo skelfingu lostið barnið undir rúminu. Rannsóknarlögreglumaðurinn Huldar og kollegar hans færa litlu stúlkuna, Margréti, á sjúkrahús og reyna að fá einhverjar upplýsingar frá henni en það gengur illa. Þá er kallaður út barnasálfræðingur, sem heitir Freyja, og bundnar vonir við að hún getir náð að róa stúlkuna og nálgast upplýsingar. Þegar Freyja mætir og hittir Huldar löggu verður stemningin ansi vandræðaleg, því þau áttu einnar nætur gaman kvöldið áður, þar sem Huldar stakk af eftir að björninn var unninn, auk þess sem hann kynnti sig með allt öðru nafni og kvaðst vera smiður. Það er gert ljóst að þetta sé ekki fyrsta né síðasta skiptið sem Huldar stundar svona lagað, hann er iðinn við kolann og fjölmargar dömur um allan bæ síhringjandi í hann. Nú er hann svo sannarlega gripinn glóðvolgur, en það dugar ekki að dvelja lengi við þetta, þau hafa verk að vinna.

Fyrst um sinn fellur grunur á eiginmanninn, en hann var erlendis þegar ódæðið átti sér stað. Svo er farið að kafa dýpra í þetta og nokkrir aðrir aðilar þykja grunsamlegir. Fljótlega kemur í ljós að lögreglan er í raun að einblína á ranga hluti og á meðan þau eltast við skottið á sér nær morðinginn að fremja annað morð. Lykillinn að öllu saman er að sjálfsögðu 5 ára barnið, sem (innan gæsalappa) „sá morðingjann“ en skilur ekki alveg aðstæður og getur ekki tjáð sig. Ofan á þetta allt saman bætast við spennandi og leyndardómsfullar dulmálskóðasendingar, sem bæði löggan og lítill hópur smáglæpapjakka keppist við leysa úr, auk þess sem einhver innan lögreglunnar er sífellt að leka trúnaðarupplýsingum til fjölmiðla, nánar tiltekið til blaðasnápsins Rakelar sem á ýmsa djöfla að draga. Huldar lögga þarf svo sannarlega að taka á honum stóra sínum og ekki bætir úr skák að þetta er hans frumraun sem formaður rannsóknar í svona stóru máli, kollegar hans hafa mjög takmarkaða trú á honum, og nota hvert tækifæri sem gefst til að hnýta í hann.

Handrit þáttanna skrifa reynsluboltarnir Óttar Norðfjörð, Snorri Þórisson og Björg Magnúsdóttir. Leikstjórar eru Reynir Lyngdal, Óskar Þór Axelsson og Tinna Hrafnsdóttir. Allt eru þetta fagmenn og þetta fagmannlega gert, þótt mér þyki persónusköpun og samtöl stundum líða fyrir hraða framvindu og hefði alveg þegið meiri dvöl og vandvirkni. Jafnvel finnst manni á köflum tilfinnanlegur gæðamunur milli atriða, eins og það hafi verið einhver dagamunur í framleiðslunni, sumt er reglulega gott en annað fljótfærislegra. Þetta á sérstaklega við í fyrstu þáttum þegar verið er að kynna mjög hratt inn margar persónur, það er alveg slatti af alls kyns forvitnilegum aukapersónum þarna sem koma á færibandi og manni finnst eins og stundum sé verið að velja stystu og auðveldustu leiðina að hlutunum, smætta persónur niður í handhæga frasa. Seinni hluti seríunnar er sterkari en sá fyrri, þegar byrjar að koma í ljós hvernig í pottinn er búið, og það er rosalega mikið í húfi. Síðustu tveir þættirnir eru bestir og innihalda nokkrar ansi kröftugar senur. Það er auðvitað keyrslan og glæpaplottið sem er aðalatriðið, þetta á að vera hratt og spennuþrungið, og það tekst prýðilega, söguþráðurinn er spennandi, áhorfandinn forvitinn að vita meira og úrlausnin skemmtilega óvænt. Myndatakan er fín, búningar og sviðsmyndir líka, það er kannski fyrst og fremst litgreiningin sem truflar mig hún er helst til brennd og mettuð, saturated upp á ensku, mér finnst þessi áferð ekki endilega henta efniviðnum. Þeir leikarar sem mér finnst standa upp úr eru Ebba Katrín Finnsdóttir, sem stelur senunni í litlu hlutverki, Þorsteinn Bachman og Jóhanna Vigdís Arnardóttir, hrikalega gaman að sjá Hönsu þarna, hún alveg smellpassar í sitt hlutverk og gerir þetta feikilega vel. Meiri Hönsu takk!

Aðdáendur bókanna um Huldar og Freyju, og þeir sem eru að leita að krassandi (og vel blóðugri) íslenskri morðgátu, geta fundið nýju seríuna, Reykjavík 112, inni á Sjónvarpi Símans.

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR