Þessar bíómyndir og leiknu þáttaraðir eru væntanlegar 2025

Allt að 6 íslenskar bíómyndir og 13 leiknar þáttaraðir gætu litið dagsins ljós á árinu 2025. Veruleg fækkun bíómynda blasir við, en þáttaröðum fjölgar áfram. 10 bíómyndir og 12 leiknar þáttaraðir komu út í fyrra. Heimildamyndir og -þáttaraðir voru alls 36 og stuttmyndir 18.

Fækkun bíómynda endurspeglar erfiða stöðu Kvikmyndasjóðs undanfarin ár. Sjóðurinn hefur dregist saman, en hvað þáttaraðir varðar hafa framleiðendur í ýmsum tilfellum fundið aðrar leiðir til að fjármagna verkefni sín.

Tekið skal fram að mögulegt er að frumsýningartími einhverra þessara verka færist yfir á næsta ár og í mörgum tilfellum liggur ekki fyrir hvenær verkin koma út innan ársins. Þá er einnig mögulegt að fleiri verk bætist við.

Snúnara að giska á fjölda frumsýndra heimildamynda og stuttmynda í ár sem endranær. Þó skal ein heimildamynd nefnd til sögu, Fjallið það öskrar, eftir Daníel Bjarnason sem frumsýnd var á Stöð 2 þann 5. janúar og hægt að sjá nú á Stöð 2+. Klapptré fjallaði um myndina þegar hún var sýnd á Skjaldborg í fyrra og má skoða umfjöllunina hér að neðan.

Bíómyndirnar

THE DAMNED:

Sálfræðileg hryllingsmynd sem gerist á 19. öld á Vestfjörðum og segir frá Evu, ekkju og erfingja afskekktar verbúðar. Þegar erlent seglskip strandar í firðinum stendur Eva frammi fyrir erfiðu vali: eiga hún og vinnumenn hennar að koma til bjargar eða forgangsraða frekar eigin velferð. Þjökuð af samviskubiti og vaxandi ótta um ómanneskjulega hefnd, takast Eva og vinnumenn hennar á við afleiðingar gjörða sinna. Þórður Pálsson leikstýrir en handrit skrifar Jamie Hannigan eftir hugmynd Þórðar. Emilie Jouffroy og Kamilla Hodol framleiða fyrir Elation Pictures ásamt John Keville og Conor Barry hjá Wild Atlantic Pictures, Guðmundi Arnari Guðmundssyni hjá Join Motion Pictures  og Grímari Jónssyni hjá Netop Films. Breskir leikarar, Odessa Young og Joe Cole, fara með aðalhlutverkin. Hinn síðarnefndi lék meðal annars í Against the Ice, sem tekin var upp hér á landi. The Damned var tekin upp hér á landi í fyrra, líkt og Klapptré skýrði frá. Hún var heimsfrumsýnd á Tribeca hátíðinni í New York í byrjun sumars 2024 og frumsýnd í kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum þann 3. janúar. Sýningar hefjast hér á landi þann 30. janúar.

FJALLIÐ:

Rafvirkinn Atli býr í Hafnarfirði með konu sinni Maríu, áköfum stjörnuskoðara, og nítján ára dóttur þeirra, tónlistakonunni Önnu. Lífið gengur sinn vanagang og þau stússast hvert í sínu þar til hörmulegt slys setur líf þeirra á hvolf og neyðir þau til að finna nýja leið framávið. Ásthildur Kjartansdóttir skrifar handrit og leikstýrir. Anna G. Magnúsdóttir framleiðir fyrir Film Partner Iceland. Meðframleiðandi er  Anders Granström. Með aðahlutverk fara Björn Hlynur Haraldsson, Ísadóra Bjarkardóttir Barney, Sólveig Guðmundsdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson, Anna Svava Knútsdóttir, Vilberg Andri Pálsson, Björn Stefánsson og Bergur Ebbi Benediktsson. Bergsteinn Björgúlfsson stýrir kvikmyndatöku og Steffí Thors klippir. Gunnar Árnason sér um hljóðhönnun. Myndvinnsla & VFX er í höndum Bjarka Guðjónssonar hjá Trickshot. Leikmyndahönnuður er Sólrún Ósk Jónsdóttir og búningahöfundur Rebekka Jónsdóttir. Væntanleg 6. febrúar.

Grímar Jónsson framleiðandi á tökustað Eldana, ásamt Sigríði Hagalín Björnsdóttur rithöfundi og Uglu Hauksdóttur leikstjóra | Mynd: Arnaldur Halldórsson.

ELDARNIR:

Byggð á samnefndri skáldsögu Sigríðar Hagalín Björnsdóttur. Jarðskjálftahrina á Reykjanesi boðar eldgos og Anna, færasti eldfjallafræðingur landsins, er með öryggi almennings í höndum sér. Eldgosið reynist óútreiknanlegt og þegar hún verður ástfangin af manni utan hjónabands, missir Anna tökin á aðstæðum og bíður hættunni heim. Ugla Hauksdóttir leikstýrir og skrifar handrit. Grímar Jónsson framleiðir fyrir Netop Films. Vigdís Hrefna Pálsdóttir fer með aðalhlutverkið en meðal annarra leikara eru hinn danski Pilou Asbæk (Game Of ThronesBorgen), Ingvar E. Sigurðsson,  pólski leikarinn Borys Szyc, Guðmundur Ólafsson, Þór Tulinius, Arndís Hrönn Egilsdóttir og Jörundur Ragnarsson. Gert er ráð fyrir að sýningar hefjist snemma í haust, en líklegt má telja að stefnt sé að heimsfrumsýningu á einhverri stærri hátíðanna.

Skjáskot af vef Hlyns Pálmasonar.

ÁSTIN SEM EFTIR ER:

Þegar fjölskylda sundrast, hvað verður um minningar þeirra og mikilvægar stundir sem þau upplifðu saman? Hvað verður um ástina sem eftir er? Hlynur Pálmason leikstýrir og skrifar handrit. Anton Máni Svansson framleiðir fyrir Still Vivid ásamt Katrin Pors fyrir Snowglobe. Meðframleiðendur eru Eva Jakobsen, Mikkel Jersin, Nima Yousefi og Didar Domehri fyrir Hobab og Maneki Films. Saga Garðarsdóttir og Sverrir Guðnason fara með aðalhlutverkin. Hlynur stýrir jafnframt kvikmyndatöku. Klippingu annast Julius Krebs Damsbo og tónlist gerir Alex Zhang Hungtai. Björn Viktorsson sér um hljóðhönnun og búningahöfundur er Nina Grønlund, en Frosti Friðriksson gerir leikmynd. Frumsýningartími er óstaðfestur, en búast má við heimsfrumsýningu á einhverri af stærri hátíðunum.

ANORGASMIA:

Tveir ferðalangar, Sam og Naomi, sem hafa aldrei sést áður, festast á Íslandi þegar eldgos stöðvar öll flug. Þau stela bíl til að komast að gosinu og halda inn á hálendið. Þau komast aldrei að gosinu en ferðalagið veldur því að líf þeirra beggja taka nýja stefnu. Jón E. Gústafsson leikstýrir og skrifar handrit ásamt Karolina Lewicka, sem einnig er framleiðandi fyrir Artio. Væntanleg á árinu.

DIMMALIMM:

Eva hefur eytt síðustu tíu árum á geðsjúkrahúsi. Nú er hún útskrifuð og þarf að sigrast á bæði ótta sínum og geðveiki svo hún geti aftur tengst dóttur sinni Lulu. Mikael Torfason leikstýrir og skrifar handrit. Framleiðendur eru Arnar Benjamín Kristjánsson, Mikael Torfason og Þórir Snær Sigurjónsson fyrir Obbosí og Zik Zak. Meðframleiðendur eru Freyr Árnason, Kári Steinarsson og Ragnheiður Erlingsdóttir. Mikael myndar sjálfur. Elísabet Ronaldsdóttir og Lína Thoroddsen klippa. Tónlist gerir Gabriel Cazes. Með aðalhlutverk fara Stefanía Berndsen (Elma Stefanía Ágústsdóttir), Ísold Mikaelsdóttir, Ída Mikaelsdóttir og Páll Þór Jónsson. Kári Steinarsson sér um hljóðhönnun og búningahöfundur er Stefanía Berndsen. Væntanleg á árinu.

Leiknu þáttaraðirnar

Væntanlegar eru að minnsta kosti 13 leiknar þáttaraðir á árinu (11 í fyrra). Ellefu eru nýjar, tvær snúa aftur. Sjónvarp Símans sýnir átta þessara þáttaraða. RÚV er með þrjár og Stöð 2 eina.

VIGDÍS: 

Í ríkjandi karlaveldi ákveður einstæð móðir að bjóða sig fram til forseta Íslands. Leið Vigdísar að þessari ákvörðun er þroskasaga stúlku sem gefst aldrei upp sama hvað á dynur. Björn Hlynur Haraldsson og Tinna Hrafnsdóttir leikstýra. Handritshöfundar eru Björg Magnúsdóttir og Ágústa M. Ólafsdóttir. Rakel Garðarsdóttir og Ágústa M. Ólafsdóttir framleiða fyrir Vesturport. Nína Dögg Filippusdóttir fer með aðalhlutverkið, en Elín Hall leikur Vigdísi á yngri árum. Eli Arenson stjórnar kvikmyndatöku og Úlfar Teitur Traustason annast klippingu. Tónlistin er eftir Herdísi Stefánsdóttir og Sölku Valsdóttur. Skúli Helgi Sigurgíslason sér um hljóðhönnun og búningahöfundur er Helga I. Stefánsdóttir, en Heimir Sverrisson gerir leikmynd. Þættirnir, sex talsins, hófu göngu sína þann 1. janúar.

Vilhjálmur hertogi af Normandí (Nikolaj Coster-Waldau) stígur á breska strönd | Mynd: Lilja Jóns.

KING AND CONQUEROR:

Örlögin höguðu því svo til að Haraldur Guðinason af Wessex og Vilhjálmur af Normandí, síðar kallaður Vilhjálmur sigursæli, tókust á í orrustunni við Hastings árið 1066, tveir bandamenn sem ásældust ekki völd yfir Bretlandi en fundu sig tilneydda, vegna aðstæðna og persónulegrar þráhyggju, að heyja stríð um bresku krúnuna. Baltasar Kormákur er yfirframleiðandi þáttanna, sem eru alls átta, fyrir hönd RVK Studios og leikstýrir einnig opnunarþættinum. Michael Robert Johnson skrifar handrit. Með helstu hlutverkin fara James Norton (Happy Valley) og Nikolaj Coster-Waldau (Game of Thrones). Fjöldi íslenskra leikara kemur við sögu og má þar nefna Svein Geirsson, Björgvin Franz Gíslason, Þorstein Bachmann, Ingvar E. Sigurðsson og Svein Ólaf Gunnarsson sem leikur Harald harðráða. Bergsteinn Björgúlfsson er kvikmyndatökustjóri, Margrét Einarsdóttir gerir búninga, Haukur Karlsson er brellumeistari (SFX) og Jörundur Rafn Arnarson hefur yfirumsjón með tölvubrellum (VFX) á tökustað. Þættirnir eru gerðir í samvinnu BBC og CBS Studios. Samkvæmt heimildum Klapptrés standa viðræður um sýningar á þáttunum hér á landi enn yfir.

Edda Björgvinsdóttir og Jón Gnarr í Felix & Klöru.

FELIX & KLARA:

Eldri hjón sem þurfa að bregða búi og flytja í litla íbúð í þjónustukjarna. En nýjum högum fylgja allskyns flækjustig, sér í lagi þar sem sá gamli er á ógreindu einhverfurófi og frúnni finnst ekki leiðinlegt að fá sér í tánna. Þættirnir tíu eru skrifaðir af Jóni Gnarr og Ragnari Bragasyni sem jafnframt leikstýrir. Davíð Óskar Ólafsson framleiðir fyrir Mystery. Jón Gnarr og Edda Björgvinsdóttir fara með aðalhlutverkin. Hulda Helgadóttir hannar leikmynd, Helga Rós V. Hannam gerir búninga, Kristín Júlla Kristjánsdóttir og Thomas Foldberg sjá um gerfi, Ásta Hafþórsdóttir og Anna Kiesser sjá um förðun, Hanna Björg Jónsdottir er aðstoðarleikstjóri, Árni Filippusson kvikmyndaði, Valdís Óskarsdóttir klippir, Björn Viktorsson hannar hljóð og Mugison gerir tónlist. Þættirnir tíu verða sýndir á RÚV á árinu.

Trine Dyrholm og Benedikt Erlingsson.

DANSKA KONAN:

Dönsk kona flyt­ur til Íslands og tek­ur yfir fjöl­býl­is­hús þar sem hún svífst einskis til að kenna ná­grönn­um sín­um skandi­nav­íska hugs­un. Benedikt Erlingsson leikstýrir og skrifar handrit ásamt Ólafi Agli Egilssyni. Marianne Slot og Carine LeBlanc framleiða fyrir Slot Machine. Meðframleiðendur eru Þórir S. Sigurjónsson og Birgitta Björnsdóttir fyrir Zik Zak. Danska leikkonan Trine Dyrholm fer með titilhlutverkið. Í öðrum stærri hlutverkum eru Hilmar Guðjónsson, Fyr Thorvald Strömberg, Kristín Þóra Haraldsdóttir og Halldóra Geirharðsdóttir. Stjórn kvikmyndatöku annast Bergsteinn Björgúlfsson, Davíð Corno klippir og tónlist gerir Matti Kallio. Supersonic sér um hljóðhönnun og búningahöfundur er Helga Rós .V Hannam. Leikmynd hanna Dóra Hrund Gísladóttir. Þættirnir sex verða sýndir á RÚV um næstu áramót.

Kolbeinn Arnbjörnsson í Reykjavík 112.

REYKJAVÍK 112:

Þegar ung kona er myrt á hrottalegan hátt í Reykjavík, verður sex ára dóttir hennar, sem er í felum, vitni að morðinu. Rannsóknarlögreglumaðurinn Huldar og barnasálfræðingurinn Freyja þurfa að leggja til hliðar sín deilumál og sameinast í þrotlausri vinnu til að leysa morðmálið og vernda unga vitnið fyrir yfirvofandi ógn morðingjans. Byggt á skáldsögu Yrsu Sigurðardóttur. Reynir Lyngdal og Tinna Hrafnsdóttir leikstýra. Óttar M. Norðfjörð, Björg Magnúsdóttir og Snorri Þórisson skrifa handrit. Kolbeinn Arnbjörnsson, Vivian Ólafsdóttir og Þorsteinn Bachmann fara með helstu hlutverk. Snorri Þórisson og Christian Friedrichs framleiða fyrir Nýja miðlun og ndF í Þýskalandi. Þættirnir verða sýndir í Sjónvarpi Símans á fyrrihluta ársins.

ICEGUYS III:
Þriðja syrpa þessarar vinsælu þáttaraðar sem fjallar um samnefnda strákasveit mun birtast í Sjónvarpi Símans á árinu. Þættirnir eru í leikstjórn Hannesar Þórs Halldórssonar, Allans Sigurðssonar og Hannesar Arasonar, sem framleiða einnig ásamt Söndru Barilli fyrir Atlavík.

Rammi úr Cold Haven | Mynd: Juliette Rowland.

FRIÐARHÖFN (COLD HAVEN):

Þættirnir átta gerast í samfélagi portúgalskra innflytjenda í Vestmannaeyjum, þar sem íslenska rannsóknarlögreglukonan Soffía rannsakar morðmál sem svo teygir anga sína víðar. Filipa Poppe, Joana Andrade, Elías Helgi Kofoed-Hansen og Sveinbjörn I. Baldvinsson skrifa handrit, en leikstjórar eru Arnór Pálmi Arnarsson og Tiago Alvarez Marques. Glassriver framleiðir í samvinnu við SPI fyrir Sjónvarp Símans og portúgölsku almannastöðina RTP. Með helstu hlutverk fara Kristín Þóra Haraldsdóttir, Anna Svava Knútsdóttir, Elva Ósk Ólafsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson og portúgölsku leikararnir Maria João Bastos, Catarina Rebelo, Ivo Canelas, Rui Morisson og Cleia Almeida. Þættirnir verða sýndir í Sjónvarpi Símans á árinu.

Ólafur Darri Ólafsson og Hera Hilmarsdóttir | Mynd: Act 4.

REYKJAVÍK FUSION:

Matreiðslumeistari kemur úr fangelsi og ákveður að stofna veitingastað í von um að vinna hug og hjörtu fyrrverandi unnustu. Til að fjármagna reksturinn þvættar hann peninga á staðnum. Rekstrarstjóri veitingastaðarins nýtir sér einfeldni matreiðslumeistarans til að vinna að eigin hagsmunum. Saman sökkva þau dýpra og dýpra í vef glæpa í undirheimum Reykjavíkur þar sem hvert rangt spor getur reynst dýrkeypt. Samúel Bjarki Pétursson og Gunnar Páll Ólafsson leikstýra. Hörður Rúnarsson og Birkir Blær Ingólfsson skrifa handrit. Hörður framleiðir fyrir Act 4. Ólafur Darri Ólafsson og Hera Hilmarsdóttir fara með aðalhlutverkin. Þættirnir verða sýndir í Sjónvarpi Símans á árinu.

HRÓLFUR:
Sex þátta mockumentary gamanþættir. Hrólfur er helgarpabbi sem kemur af auðugu athafnafólki. Honum hefur nýlega verið sagt upp störfum hjá fjölskyldufyrirtækinu og þarf núna að læra að standa á eigin fótum enda kannski kominn tími til því hann er að nálgast fertugt. Hann hins vegar ákveður að reyna að afla sér tekna með því að stofna hljómsveit og að gerast áhrifavaldur. Gaukur Úlfarsson leikstýrir og skrifar handrit ásamt Önnu Hafþórsdóttur og Jóhanni Alfreð Kristinssyni. Sagafilm framleiðir. Með helstu hlutverk fara
Jóhann Alfreð, Anna Hafþórsdóttir, Ari Eldjárn, Anna Þóra Björnsdóttir, Bergur Ebbi, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Dóri DNA og Saga Garðarsdóttir. Þættirnir verða sýndir í Sjónvarpi Símans.

ÞÆTTIR FYRIR BÖRN:

Fjórða syrpa teiknimyndaþáttanna Ævintýri Tulipop frá Tulipop Studios er væntanleg í Sjónvarp Símans á árinu. Einnig verða sýndar tvær aðrar þáttarðir ætlaðar yngri aldurshópum, annarsvegar Benedikt búálfur frá Ketchup Creative og Sólon frá Blindspot.

Halldór Gylfason leikur Brján í samnefndri þáttaröð.

BRJÁNN:

Þáttaröðin fjallar um fjölskyldu og fótbolta og segir söguna af Brjáni sem var mjög efnilegur í fótbolta á sínum yngri árum. Eftir að Eggert Atlason, nú erkióvinur Brjáns, batt enda á feril hans þurfti Brjánn að finna sér ný lífsmarkmið. Brjánn er Þróttari í húð og hár en fær þó helst útrás fyrir fótboltaáhugann í gegnum tölvuleikinn Football Manager. Brjáni áskotnast fyrir röð tilviljana þjálfarastarf hjá félaginu en vandamál innan fjölskyldufyrirtækisins í bland við þrá Brjáns til að ná fram hefndum gegn Eggerti Atlasyni flækjast verulega fyrir honum. Sigurjón Kjartansson leikstýrir. Sólmundur Hólm og Karen Björg Eyfjörð eru handritshöfundar. Framleiðendur eru Erlingur Jack Guðmundsson og Sigurjón Kjartansson. Halldór Gylfason fer með aðalhlutverk. Þættirnir sex verða sýndir á Stöð 2 í haust.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR