Morgunblaðið um ELSKLING: Afhjúpar óvænt áhorfendur

"Frumleg og erfið mynd sem hvetur áhorfendur til að ganga lengra í leit að sannleikanum," segir Jóna Gréta Hilmarsdóttir meðal annars í Morgunblaðinu um Elskling (Elskuleg) Lilju Ingólfsdóttir, sem nú er í sýningum í Bíó Paradís.

Jóna Gréta skrifar:

Elskuleg er flott frumraun norsk-íslenska leikstjórans Lilju Ingólfsdóttur. Myndin virðist í fyrstu fjalla um hjónaband sem er að taka enda en það er ekki aðalviðfangsefni sögunnar heldur er það persónulegt ferðalag konunnar, Maríu (Helga Guren), í kjölfarið.

Áhorfendur kynnast hjónabandinu í gegnum Maríu en við lærum seinna að það er bara hluti af sannleikanum. Heimilishaldið og umönnun fjögurra barna virðist að mestu lenda á henni af því að seinni maðurinn hennar, Sigmund (Oddgeir Thune), þarf að ferðast mikið út af vinnu sinni. Það gerir að verkum að hún getur ekki sinnt vinnunni sinni heima fyrir eins og hún myndi vilja og hún upplifir sig fasta. María sakar Sigmund um að gera sig óhamingjusama í staðinn fyrir að bera ábyrgð á eigin líðan og áhorfendur gera það líka og sjá Maríu sem eins konar fórnarlamb þriðju vaktarinnar. Elskuleg er hins vegar ekki saga konu sem er fórnarlamb ytri aðstæðna enda er sú saga margsögð og ófrumleg. Elskuleg er frumleg og erfið mynd sem hvetur áhorfendur til að ganga lengra í leit að sannleikanum. Þar með er ekki verið að frelsa Sigmund undan allri ábyrgð heldur er þetta einfaldlega ekki sagan hans, heldur Maríu.

Í gegnum myndina flettir leikstjórinn og handritshöfundurinn Lilja Ingólfsdóttir ofan af Maríu og sýnir hana til fulls. Skaðlegt hegðunarmynstur Maríu, sem hefur fylgt henni frá æsku, hefur ekki einungis slæm áhrif á hjónabandið heldur öll samskipti hennar við sína nánustu, þ. á m. elstu dóttur sína. María er hins vegar verst við sjálfa sig og er virkur þátttakandi í því að draga sig niður. Hún kemst ekki að þessari niðurstöðu auðveldlega enda krefst það mikils hugrekkis að þora að horfast í augu við sjálfa sig. Hún neyðist hins vegar bókstaflega til að gera það í einu atriðinu; þegar hún stoppar fyrir framan spegil og horfir á sig eða í átt að tökuvélinni og byrjar að tala við sjálfa sig fallega, líklega í fyrsta skiptið. Atriðið er ótrúlega sterkt af því að það er eins og persónan sé að tala við áhorfendur, sem hafa hingað til speglað sig í persónunni.

Að einhverju leyti er myndin líka ótrúlega afhjúpandi fyrir áhorfendur því þeir eru knúnir, í gegnum ferðalag Maríu, til að líta inn á við og skoða eigin hegðunarmynstur. María er þó ekki sú eina sem hægt er að samsama sig við, heldur er persónugalleríið mjög fjölbreytt. Í myndinni eru til dæmis þrjár kynslóðir kvenna og samskipti þeirra eru ótrúlega vel skrifuð af því að það er svo augljóst að atriðin eru byggð á einhverjum sannleik. Áhorfendur vita það af því að þeir þekkja þessi samtöl og tilfinningar af eigin reynslu.

Í viðtali Morgunblaðsins segir Lilja að handritið sé í grunninn byggt á persónulegri reynslu sinni. Það kemur ekkert á óvart af því að líklega geta flestir tengt að einhverju leyti við myndina og sérstaklega persónuna Maríu. Leikkonan Helga Guren á mikið hrós skilið fyrir að koma þessari óbeisluðu og gölluðu en í senn raunverulegu persónu til skila. Það er mjög skemmtilegt að sjá svona fullmótaða kvenpersónu á hvíta tjaldinu. Lilja á þó líka mikið hrós skilið því myndin opnar á erfið umræðuefni. Til að hægt sé að koma viðfangsefni myndarinnar svona vel til skila hefur hún því líklega þurft að eiga mörg erfið samtöl og kafa djúpt. Þetta er því mjög persónuleg kvikmynd en það er enginn annar en eiginmaður og barnsfaðir Lilju, Øystein Mamen, sem er tökumaður myndarinnar. Ekki nóg með að Lilja gegni hlutverki leikstjóra og handritshöfundar heldur klippti hún líka myndina og sá um búninga og leikmynd. Það má því segja að Lilja sé óskoraður höfundur kvikmyndarinnar.

Elskuleg var opnunarmynd RIFF í ár en myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni Karlovy Vary þar sem hún hlaut samtals fimm verðlaun, en það er í fyrsta skipti í sögu hátíðarinnar sem það gerist. Velgengni myndarinnar kemur ekki á óvart enda er niðurstaðan ótrúlega sterk persónusaga sem hvetur áhorfendur til að líta í eigin barm. Myndin er þó ekki alveg gallalaus. Í einu skotinu sést t.d. vel að verið er að laga fókusinn, sem gerir að verkum að áhorfendur detta í skamma stundum út úr sögunni. Það má hins vegar líta fram hjá ýmsum göllum þegar heildarmyndin er svona sterk, en það er langt síðan mynd hefur setið jafn lengi í rýni og hlýtur því Elskuleg fimm stjörnur.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR