spot_img

Þessi verk fengu verðlaun á RIFF 2024

Verðlaunaafhending RIFF fór fram í Háskólabíói í dag. 10 verk voru verðlaunuð í alls sjö flokkum. 

VITRANIR – GULLNI LUNDINN

Super Happy Forever (Eilíf hamingja) eftir Kohei Igarashi.

Umsögn dómnefndar (Ava Cahen, Elad Samorzik, Ingvar E. Sigurðsson):
Gullna Lundann hlýtur næm og ljóslifandi mynd sem tekst á frumlegan hátt á við sorg, og teflir fram persónum sem er var sönn ánægja að kynnast. Kvikmyndin dáleiddi okkur á ýmsum plönum, frásögnin sem leikur sér að tímanleika, fínstillt sögusviðið.

Úr Super Happy Forever eftir Kohei Igarashi hlaut Gullna lundann, aðalverðlaun RIFF.

Sérstök viðurkenning: Helga Guren úr kvikmyndinni Loveable (Elskuleg) eftir Lilju Ingólfsdóttur.

Dómnefndinni þykir full ástæða til að veita sérstaka viðurkenningu til leikkonu úr flokknum Vitranir, en frammistaða hennar hreyfði sérstaklega við dómnefndinni. Hún túlkar fullkomlega hlutverk konu sem tvístrast úr ástarsorg, og lærir svo að komast í samband við sjálfa sig. Við óskum Helga Guren til hamingju með hlutverk sitt í Elskuleg.

ÍSLENSKAR STUTTMYNDIR

Verðlaun fyrir bestu íslensku stuttmyndina hlýtur Hjördís Jóhannsdóttir fyrir mynd sína Brúðurin.

Brúðurin eftir Hjördísi Jóhannsdóttur var valin besta íslenska stuttmyndin.

Umsögn dómnefndar (Sarah Gyllenstierna, Bergur Árnason, Katla Njálsdóttir):
Stuttmyndin Brúðurin er heildstætt verk sem hreyfði sérstaklega við dómnefndinni, ekki síst vegna frammistöðu leikarana, og má þar sérstaklega nefna aðalleikkonuna. Leikstjóranum tekst með eindæmum að skapa sannfærandi og þrívíðan heim, með sterkri sögufléttu og tilfinningadýpt sem er sérstaklega tilkomumikil í svo stuttri mynd.

Sérstaka viðurkenningu í flokknum Íslenskar stuttmyndir hlýtur Nikulás Tumi Hlynsson fyrir mynd sína Blái Kallinn. Dómnefndin sammældist um að: ,,Hér [væri] kominn kvikmyndagerðarmaður sem má vænta mikils af. Með sérstakri gaumgæfni og tærri sýn hélt hann dómnefndinni á tánum gjörvalla myndina.”

Verðlaun fyrir bestu stuttmynd í nemendaflokki hlýtur Alfreð Hrafn Magnússon fyrir mynd sína Svefngengill. Umsögn dómnefndar: Örugg tök þessa frumlega leikstjóra á bæði tóni og myndmáli þótti dómnefndinni tilkomumikil. Tvíræðni og tilraunakennd nálgun myndarinnar er vellukkuð og heldur áhorfendum við efnið frá upphafi til enda.

Sérstaka viðurkenningu í nemendaflokki hlýtur Salvör Bergmann fyrir mynd sína Leik lokið. Þessi sérstaklega efnilegi leikstjóri sýnir fram á sterka myndræna sýn og næmt skyn fyrir blæbrigðum, bæði í myndinni Leik lokið, sem og öðrum verkum leikstjórans á hátíðinni, sem heillaði dómnefndina.

ALÞJÓÐLEGAR STUTTMYNDIR

Verðlaun fyrir bestu alþjóðlegu stuttmynd hljóta Caroline Poggi og Jonathan Vinel fyrir mynd sína The Exploding Girl (Springandi stelpan).

Umsögn dómnefndar (Lasse Linder, Loran Batti, Erlingur Óttar Thoroddsen):
Springandi stelpan fangar óreiðukenndan kjarna heimsins í dag, þar sem reiði og óréttlæti liggja eins og mara yfir lífi okkar. Áhorfandinn er lostinn viðstöðulausum höggum og sprengingum, sem neyðir hann til að horfast í augu við yfirþyrmandi hrylling samtímans. Með djarfri fagurfræði Z-kynslóðarinnar, sýnir myndin á fiman hátt fram á mýktina sem leynist innan í óreiðunni; þegar heimurinn er svona hryllilegur, þá hlýtur þú að springa.

DÓMNEFND UNGA FÓLKSINS

Dómnefnd unga fólskins veitir sænsku myndinni G – 21 Scenes from Gottsunda (G-21 sena frá Gottsunda) eftir Loran Batti verðlaun.

Umsögn dómnefndar (Harpa Hjartardóttir, Artúr Siuzev Guðnason, Arína Vala Þórðardóttir):
Stendur upp úr í sinni óhefluðu en þó umfram annað mannlegu túlkun á samfélagi sem er hulið mörgum. G – 21 sena frá Gottsunda er innhverf og ljóðræn hugleiðing um sjálfsmynd og bræðralag, þar sem tryggð leikstjórans við rætur sínar birtist í einstöku portretti af hverfinu sem ól hann upp, og fyrir það á hann mikið lof skilið.

ÖNNUR FRAMTÍÐ

Verðlaunin hlýtur norska heimildarmyndin A New Kind of Wilderness (Breyttur veruleiki) eftir Silje Evensmo Jacobsen.

Umsögn dómnefndar (Andri Snær Magnason, Tine Klint, Rakel Garðarsdóttir):
Áhrifamikil heimildarmynd um fjölskyldu sem þarf að takast á við blákaldan veruleika þegar framtíðin reynist önnur en hún átti að vænta. Leikstjóri miðlar erindi myndarinnar af fegurð og andagift.

GULLNA EGGIÐ

Sigurvegari Talent Lab smiðjunnar og handhafi Gullna eggsins er: A Good Day Will Come (Góðir dagar) eftir Amir Zargara.

Umsögn dómnefndar (Bjarni Felix Bjarnason, Hrafnkell Stefánsson og Silla Berg):
A Good Day Will Come er áleitin spegill á heiminn okkar í dag og grandskoðar muninn á því að láta í sér heyra og því að þegja í von um öryggi. Spurningin sem myndin leggur í hendur áhorfenda er: getum við brotist undan kynslóðamynstrum áður en þau mynstur brjóta okkur á bak aftur? Haganlega smíðuð frásögnin, útsjónarsamar ákvarðanir og fagmannlegt handverk koma saman til að skapa sannfærandi og trúverðugan söguheim.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR