Afhverju er mikilvægt að gera reglulega samkomulag um umfang íslenskrar kvikmyndagerðar?

Samkomulag milli stjórnvalda og kvikmyndagreinarinnar um fjármögnun og umfang íslenskrar kvikmyndagerðar er forsenda viss stöðugleika í greininni. Það hefur ekki verið í gildi síðan 2019, en afar brýnt er að koma því á aftur sem fyrst.

Samkomulag var gert reglulega til fjögurra ára í senn síðan 1999, en síðasta samkomulagið rann út 2019. Kvikmyndastefnunni, sem fram kom 2020, fylgdi ekki slíkt samkomulag.

Það sést.

Hvar er fjármögnun Kvikmyndastefnunnar?

Kvikmyndastefna 2020-2030 er metnaðarfullt plagg, miklu ítarlegra og yfirgripsmeira en áðurnefnd samkomulög. Hinsvegar vantar aðalatriðið í hana, þau framlög sem eiga að renna til Kvikmyndasjóðs á hverju ári. Þannig hefur greinin verið skilin eftir í lausu lofti.

Sumt í Kvikmyndastefnunni hefur komist til framkvæmda, til dæmis Kvikmyndalistadeild (aðgerð 5c) og starfslaun kvikmyndahöfunda (aðgerð 9c). Aðgerð 6a (samkeppnishæft endurgreiðslukerfi) var fundinn farvegur í 35% endurgreiðslu með ströngum skilyrðum.

Fyrsta atriðið í stefnunni, efling Kvikmyndasjóðs (aðgerð 1a), hefur hinsvegar ekki gengið vel. Þar hefur þróunin verið niður á við í nokkur ár og sjóðurinn nú verulega mikið rýrari að raunvirði en hann var 2019, þegar síðasta samkomulag rann út. Annað atriðið, lokafjármögnun sjónvarpsverka (aðgerð 1b), er komið í lög en ekkert viðbótarfjármagn fylgir. Það er því í raun ákvæði um að Kvikmyndasjóður eigi að styðja meira við sjónvarpsverk á kostnað annarskonar verka, um leið og framlög eru skorin niður.

Framkvæmd Kvikmyndastefnunnar er því mjög tilviljanakennd, svo hófstillt orðalag sé notað – og aðalatriðin látin lönd og leið.

Samkvæmt þessari frétt stóð til að gera samkomulag við greinina við útkomu Kvikmyndastefnunnar, en ekki varð af því. Klapptré hefur heimildir fyrir því að unnið hafi verið með slíkar tölur í vinnslu stefnunnar, en þeim mun hafa verið kippt út á síðustu metrunum.

Hversvegna fylgdu engar tölur Kvikmyndastefnunni?

Þarna hefur orðið meiriháttar slys, enda talar staðan sínu máli. Samkomulag með skilgreindum framlögum og verkþáttum til nokkurra ára í senn skapar ákveðinn stöðugleika. Þannig hefur bransinn getað horft til næstu framtíðar, gengið að ákveðnum forsendum. Um þetta snýst málið í grein þar sem yfirleitt tekur nokkur ár að koma verkefni frá hugmyndastigi til sýningar.

Það er því algert forgangsmál að koma á slíku samkomulagi milli stjórnvalda og greinarinnar að nýju sem allra fyrst.

Fjórum sinnum verið gert samkomulag milli stjórnvalda og greinarinnar

Fyrsta samkomulagið gilti 1999-2002. Það næsta var gert fyrir tímabilið 2007-2010. Þriðja var fyrir tímabilið 2012-2015. Hið fjórða gilti 2016-2019.

Regluleg endurnýjun samkomulags hefur skilað árangri þegar litið er til baka, þó á ýmsu hafi gengið. Þau hafa skilgreint hver framlög í Kvikmyndasjóð eigi að vera á hverjum tíma og hvað eigi að styrkja. Stjórnvöld hafa að mestu staðið við ákvæði um framlög hverju sinni, nema í kjölfar hrunsins.

Hvernig samkomulag skilgreinir framlög og markmið

Fyrsta samkomulagið er mikilvægast sögulega séð vegna þess að þar eru lögð fram í fyrsta sinn skilgreiningar á markmiðum opinberra framlaga til kvikmyndagerðar.

Í viðtali sem ég tók við Björn Bjarnason þáverandi menntamálaráðherra og birtist í Landi & sonum í október 1998, segir hann meðal annars að menn verði að koma sér saman um hvar þakið eigi að vera hvað varðar fjölda mynda og styrkhlutfall. Hann setur upp dæmi um samning milli Kvikmyndasjóðs og ríkisins um ákveðna þróun, þar sem ríkið skuldbindi sig til að útvega fé að gefnum ákveðnum forsendum og segir: “Þá þætti mér rétt að Kvikmyndasjóður skilgreindi af sinni hálfu hvað væri eðlilegt að styrkja margar myndir á ári.”

Þarna kvað við nýjan tón, enda hafði sjóðurinn lítið sem ekkert hækkað allan tíunda áratuginn og bransinn með tilheyrandi böggum hildar. En það var líka hugur, þetta er meðal annars “stórveldistími” Íslensku kvikmyndasamsteypunnar.

Nokkrum mánuðum síðar, rétt fyrir jól, undirrita stjórnvöld og fagfélögin samkomulag um eflingu kvikmyndagerðar til fjögurra ára. Segir í Morgunblaðinu að “sam­kvæmt sam­komu­lag­inu er gert ráð fyr­ir því að fjár­fram­lög til Kvik­mynda­sjóðs Íslands auk­ist á næstu árum, þannig að árið 2002 verði þau allt að 200 millj­ón­ir króna, til þess að fram­leiða fimm ís­lensk­ar kvik­mynd­ir í fullri lengd (árlega).” Framlög jukust um 47,4% á samkomulagstímanum (núvirt).

Annað samkomulagið, 2007-2010, var metnaðarfullt. Aukningin á samningstímanum átti að nema 88% og enda í 700 milljónum 2010. Það eru 1.240 milljónir á núvirði. Hærra en sjóðurinn er í dag. Árleg framlög 2003-2006 (milli þessara tveggja samninga) hækkuðu um 32,5%.

Gera átti 4 bíómyndir árlega og hlutfall framleiðslustyrks átti að vera 50% í stað 40%. Meðalkostnaður bíómyndar var skilgreindur. Lögð var áhersla á að gerðar yrðu barna- og fjölskyldumyndir annað hvert ár að minnsta kosti. Gert var ráð fyrir áframhaldandi stuðningi við heimilda- og stuttmyndir og lögð áhersla á öflugan Sjónvarpssjóð sem í lok samningstímans yrði 125 milljónir króna, eða um 19% af stærð sjóðsins.

Við undirritun lýsti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, því yfir að dagurinn markaði tímamót í íslenskri kvikmyndagerð og að framtíðin væri björt. Baltasar Kormákur hafði orð fyrir fulltrúum kvikmyndagerðarmanna og sagði samninginn marka tímamót í sögu íslenskrar kvikmyndagerðar.

Þetta byrjaði vel. Framlög jukust um 30% 2007 miðað við 2006, þar sem einnig hafði orðið veruleg aukning. Næsta ár, 2008, er aukningin 7%. Efnahagshrunið verður um haustið og niðurskurður er rúm 11% 2009. Lokaár samkomulagsins verður harkalegur niðurskurður, 28,4%. Heildarniðurskurður áranna tveggja er tæp 40%. Framlög drógust saman á samkomulagstímanum um 31,7% (núvirt).

Þriðja samkomulagið 2012-2015 átti að hækka framlög um 34,5% á samningstímanum og byrja að lyfta greininni upp eftir mikinn niðurskurð áranna á undan. Planið var semsagt að klóra nokkurnveginn til baka þann gríðarlega niðurskurð sem orðið hafði í kjölfar hrunsins.

Haustið 2012 kemur óvænt útspil, svokölluð fjárfestingaráætlun þáverandi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, þar sem Katrín Jakobsdóttir var menntamálaráðherra. Sjóðurinn næstum tvöfaldast að stærð árið 2013. Kvikmyndagerðarmenn fögnuðu ákaflega, enda stóð til að halda þessu prógrammi áfram næstu árin. Úr því varð þó ekki. Ný ríkisstjórn tók við vorið 2013 og á næstu fjárlögum er fjárfestingaáætlunin horfin, en þó staðið við samkomulagið.

Illugi Gunnarsson, þá orðinn menntamálaráðherra, segir í viðtali við mig á Klapptré í apríl 2014:

Ég held til dæmis að það hafi verið ekki verið rétt að hækka framlagið svona mikið eins og gert var á síðasta ári og með afmörkuðum tekjustofnum sem ljóst var að myndu verða bæði umdeildir og óljósir. Betra er að byggja upp stuðning jafnt og þétt og eftir einhverskonar langtímaplani.

Eftir þessa miklu rússibanareið upp og niður var niðurstaðan sú að framlög jukust um tæp 39% á tímabilinu.

Fjórða samkomulagið, 2016-2019, var undirritað síðla árs 2016 og var gert ráð fyrir um 30% hækkun á næstu þremur árum. Framlög jukust um 23,6% á tímabilinu.

Þreföldun árlegra framlaga á 20 árum – margföldun allskyns kvikmynda og þáttaraða

Þrátt fyrir fyrrnefnda rússibanareið verður veruleg aukning á tímabilinu 1999-2019. Á þessum 20 árum þrefölduðust árleg framlög til Kvikmyndasjóðs (núvirtar tölur). Vissulega er aukningin mjög skrykkjótt og hún er mest á fyrstu árunum.

Á bakvið þessa aukningu framlaga er gríðarleg fjölgun verka og margs annars sem tengist kvikmyndamenningu á víðum grunni.

Þetta 20 ára tímabil er gríðarlegt vaxtarskeið íslenskrar kvikmyndagerðar. Bíómyndum fjölgar úr um þremur á ári í um sjö á ári að meðaltali, byrjað er að styðja við heimildamyndir, stuttmyndir og síðar þáttaraðir með reglubundum hætti og einnig koma til handritsstyrkir, þróunarstyrkir og stuðningur við erlend samframleiðsluverkefni ásamt margskonar öðrum stuðningi við kvikmyndamenningu.

Fleira hefur komið til

Ýmislegt fleira hefur komið til og er ekki beint hluti af samkomulagi hvers tíma. Á fyrri hluta þessa tímabils er Kvikmyndamiðstöð Íslands sett á fót (2003) og tekið upp ráðgjafakerfi með úthlutunum yfir árið í stað árlegrar úthlutunar. Með ráðgjafakerfinu verður einnig sú stóra breyting að hægt er að eiga samtal um stöðu og þróun verkefna.

Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar hefjast einnig undir lok síðustu aldar og fór endurgreiðsluhlutfall úr 12% í 25% í áföngum. Endurgreiðslukerfið hefur nýst innlendum verkefnum sem hluti af fjármögnun þeirra og einnig laðað að stór (og smærri) erlend verkefni. Síðan hefur bæst við 35% endurgreiðsla með mun strangari skilyrðum, ætluð umfangsmiklum verkefnum.

Allt þetta og ýmislegt fleira, til dæmis gegnumgangandi stuðningur evrópsks sjóðakerfis í gegnum samframleiðslu og aukin þátttaka sjónvarpsstöðvanna í gerð leikins sjónvarpsefnis, hefur stækkað greinina mjög og gert það að verkum að margfalt fleiri starfa við hana nú en um aldamótin. En á móti hefur mikil fjölgun verkefna gert það að verkum að fjármögnun er áfram almennt snúin og afkoma þeirra sem starfa í greininni afar brokkgeng, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Það og saga þessa reglulega samkomulags sýnir glögglega hversu mikilvægt það er að halda áfram að skilgreina markmið og framlög til kvikmyndagerðar gegnum samkomulag til ákveðins tíma í senn.

Kvikmyndagerðin er flókin og margþætt grein, þar sem taka þarf tillit til margra þátta. Hún hefur margskonar snertifleti við samfélag sitt og umheiminn. Sköpunarverk hennar ávarpa okkur alla daga. Efnahagslega laðar hún að sér mikla erlenda fjárfestingu í gegnum ýmiskonar samstarf og dreifingu. Hún skapar yfir þrjú þúsund störf árlega. Ein helsta forsenda alls þessa er skýrt skilgreindur Kvikmyndasjóður þar sem opinber framlög og markmiðin með þeim eru endurnýjuð reglulega.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR