Segir á vef KMÍ:
Á hverju ári velja samtökin European Film Promotion (EFP) tíu efnilega leikara og leikkonur, úr hópi aðildarlanda samtakanna, sem hafa vakið sérstaka athygli í heimalandi sínu og á alþjóðavettvangi. Meðlimir EFP samtakanna eru kvikmynda- og kynningarmiðstöðvar frá 37 löndum og er Kvikmyndamiðstöð Íslands ein af þeim. Viðurkenningin verður afhent 17. febrúar.
Elín Hall hefur vakið mikla athygli á síðustu misserum, nú síðast í kvikmyndinni Ljósbroti, í leikstjórn Rúnars Rúnarssonar, sem var opnunarmynd Un Certain Regard á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2024.
„Í Ljósbroti viltu standa við hlið Elínar Hall öllum stundum, meðan hún ber þessa margbrotnu kvikmynd um harm. Hún tileinkar sér persónuna að fullu, þú laðast að henni og þreytist aldrei á henni,“ segir í umsögn dómnefndar. „Í myndinni ber hún með sér leyndarmál og það er líkt og áhorfandinn sé hennar eini trúnaðarvinur. Elín Hall er augljóslega upprennandi stjarna. Stundum liggur það í augum uppi og í þessu tilfelli, þar sem um er að ræða bráðgreinda leikkonu með náttúruhæfileika, er það raunin.“
Fyrir frammistöðuna í Ljósbroti hefur Elín hlotið alþjóðleg verðlaun, til að mynda sem besta leikkonan á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Chicago. Áður hafði hún hlotið lof fyrir hlutverk sín í kvikmyndunum Lof mér að falla (2018) og Kulda (2023) og hlaut hún tilnefningar til Eddu-verðlaunanna í bæði skiptin. Elín hafði áður farið með hlutverk í sjónvarpsþáttaröðinni Rétti (2015) og heimildamyndinni Out of Thin Air (2017). Hún fer með eitt af aðalhlutverkum í væntanlegri þáttaröð um Vigdísi forseta og kvikmyndinni It All Comes With the Cold Water sem er væntanleg á næsta ári. Elín er einnig tónlistarkona og hefur gefið út tvær breiðskífur og samið tónlist fyrir bæði sjónvarpsefni og kvikmyndir.
Dómnefnd Shooting Stars er fjölþjóðleg, skipuð af rúmenska leikstjóranum og handritshöfundinum Radu Muntean, sænska prufuleikstjóranum Pauline Hansson, svissneska framleiðandanum Amel Soudani, frönsku leikkonunni Ludivine Sagnier og blaðamanninum Vuk Perović frá Svartfjallalandi.
Aðrir leikarar sem voru valdir í Shooting Stars 2025 eru Marina Makris (Kýpur), Besir Zeciri (Danmörk), Maarja Johanna Mägi (Eistland), Devrim Lingnau (Þýskaland), Kārlis Arnolds Avots (Lettland), Šarūnas Zenkevičius (Litáen), Lidija Kordić (Svartfjallaland), Vicente Wallenstein (Portúgal) og Frida Gustavsson (Svíþjóð).
Íslenskir leikarar sem hafa verið útnefndir í gegnum árin eru eftirfarandi:
Ingvar E. Sigurðsson 1999.
Hilmir Snær Guðnason 2000.
Baltasar Kormákur 2001.
Margrét Vilhjálmsdóttir 2002.
Nína Dögg Filippusdóttir 2003.
Tómas Lemarquis 2004.
Álfrún Örnólfsdóttir 2005.
Björn Hlynur Haraldsson 2006.
Gísli Örn Garðarsson 2007.
Hilmar Guðjónsson 2012.
Edda Magnason (íslensk/sænsk leikkona sem var valin fyrir hönd Svíþjóðar) 2014.
Hera Hilmarsdóttir 2015.
Atli Óskar Fjalarsson 2016.
Krístín Þóra Haraldsdóttir 2019.
Þorvaldur Davíð Kristjánsson 2023.
Kvikmyndahátíðin í Berlín fer fram 13.-23. febrúar 2025.