Lilja segir hækkun Kvikmyndasjóðs 2021 hafa verið tímabundið framlag vegna Covid, vonast til að streymisframlag komi inn fyrr

Rætt var við Lilju Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra í þættinum Þetta helst á Rás 1 þriðjudag 1. október. Þar var hún spurð útí niðurskurðinn á Kvikmyndasjóði og þá gagnrýni sem hann sætir.

Þóra Tómasdóttir, umsjónarmaður fréttaskýringaþáttarins Þetta helst, ræddi við Lilju. Hér er brot úr viðtalinu, en hlusta má á allt viðtalið með því að smella á myndina hér fyrir neðan.

Þóra Tómasdóttir: Kvikmyndagerðarfólk hefur gagnrýnt það harðlega að kvikmyndasjóður sé rýrari nú en hann var í kringum Covid. Þeim hafi verið lofað með Kvikmyndastefnu digrari Kvikmyndasjóði sem síðan hefur ekki litið dagsins ljós. Hverju svararðu þessu?

Lilja Alfreðsdóttir: Ég svara því þannig að við settum á Covid tímanum, Ríkissjóður, auka fjárveitingu inn í Kvikmyndasjóð vegna þess að við vildum halda geiranum gangandi á þessum erfiðu tímum. Við settum inn yfir milljarð aukalega. Ég hef auðvitað skilning á því að kvikmyndagerðarfólk sé vonsvikið yfir því að Covid framlagið hafi ekki haldið sér. En við erum hinsvegar stödd í þeirri stöðu, við sem berum ábyrgð á ríkisfjármálunum, að það var alltaf ljóst að Covid framlagið myndi ekki halda sér.

Það sem gerðist

Vorið 2020, í upphafi Covid tímans, tilkynntu stjórnvöld um sérstakt viðbótarframlag vegna Covid til Kvikmyndasjóðs, alls 120 milljónir króna. Óskað var eftir umsóknum í apríl og úthlutað var af þessu framlagi í byrjun júní til 15 verkefna.

Nokkrum mánuðum síðar var Kvikmyndastefnan lögð fram. Í kjölfarið var lagt fram fjárlagafrumvarp vegna 2021 og þar var gert ráð fyrir mikilli hækkun til Kvikmyndasjóðs og Kvikmyndamiðstöðvar. Þetta var meðal annars svo kynnt:

Breytingar í fjárheimildum milli ára endurspegla innleiðingu nýrrar kvikmyndastefnu.

Ekkert kom fram um að þetta væri tímabundið framlag vegna Covid.

Ári síðar er nýtt fjárlagafrumvarp lagt fram. Framlög til sjóðsins voru þá lækkuð aðeins og sagði meðal annars í kynningu:

Fjármunir vegna nýrrar kvikmyndastefnu halda sér að mestu.

Ekkert kom fram þá um að þetta væri tímabundið framlag vegna Covid.

Ekki eftiráskýring segir Lilja

Í þættinum spyr Þóra Lilju útí þá gagnrýni kvikmyndagerðarfólks að það sé eftiráskýring að kalla hækkunina Covid framlag. Lilja svarar því til að svo sé ekki, en fer svo að ræða um þær væntingar sem voru uppi um hvað hægt væri að sjá sjóðinn stækka mikið og að fjárlög hverju sinni taki mið af þeim aðstæðum sem uppi eru.

Lilja nefnir einnig í viðtalinu að vonir standi til að hægt verði að auka framlög til sjóðsins þegar verðbólga lækki og að hugsanlega verði hægt að koma inn með svokallað streymisframlag fyrr en áætlað hefur verið. Gefið hefur verið út að menningarframlag streymisveita byrji að koma inn í Kvikmyndasjóð frá 2026.

Í þættinum er einnig rætt við kvikmyndagerðarfólkið Hilmar Sigurðsson og Göggu Jónsdóttur.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR