Morgunblaðið um LJÓSVÍKINGA: Transkona þorir

Jóna Gréta Hilmarsdóttir fjallar um Ljósvíkinga Snævars Sölvasonar í Morgunblaðinu og segir hana meðal annars svo ótrúlega einlæga og laus við alla tilgerð að áhorfendur líti auðveldlega framhjá vanköntum hennar.

Jóna Gréta skrifar:

Nú eru tvær íslenskar kvikmyndir sem byrja á „ljós“ í bíóhúsum Íslands en þær eru andstæður. Ljósbrot eftir Rúnar Rúnarsson er háfleygt drama þar sem hver rammi er úthugsaður á meðan Ljósvíkingar eftir Snævar Sölvason gæti allt eins verið sjónvarpsmynd útlitslega séð en myndin er svo ótrúlega einlæg og laus við alla tilgerð að áhorfendur líta auðveldlega framhjá vanköntum hennar.

Ljósvíkingar er hugljúf mynd sem byrjar á því að segja sögu af tveimur æskuvinum, Hjalta (Björn Jörundur Friðbjörnsson) og Birni (Arna Magnea Danks), sem reka veitingastaðinn Rauða húsið á Ísafirði yfir sumartímann. Draumurinn er að geta haft opið allt árið og þegar tækifæri þess efnis bankar upp á, eða réttara sagt þegar enginn annar en Helgi Björnsson (í hlutverki Einars), bankar upp á með boð um ríka Dani sem þurfa að fá gott að borða allan ársins hring, þá tilkynnir Björn vini sínum að hún sé trans kona og gangi nú undir nafninu Birna. Birna hafði talið Hjalta trú um að hún þyrfti að fara reglulega í læknisskoðun á höfuðborgarsvæðinu út af bakvandamálum en hún var raunverulega í kynleiðréttingarferli. Fráfall föður Birnu er meðal ástæðna þess að hún tekur ákvörðun um að hætta þessum feluleik og brennir grímubúninginn fyrir fullt og allt.

Hjalti á erfitt með þessar breytingar og í fyndnu atriði tekst honum alfarið að láta eins og það að Birna sé að koma út úr skápnum sem trans kona snúist um sig. Hann er stútfullur af fordómum og það á ekki einungis við um trans fólk heldur hinsegin fólk almennt.

Áhorfendur læra til dæmis snemma að strákurinn hans er samkynhneigður og það virðist trufla Hjalta. Þrátt fyrir fordómana er Hjalti ekki málaður upp sem eitthvert illmenni, enda er hann söguhetja myndarinnar af því að það er hann sem tekur mestum breytingum.

Handritshöfundarnir, Snævar Sölvason og Veiga Grétarsdóttir, eiga einnig mikið hrós skilið fyrir það hvernig þau skrifa atriðin sem endurspegla fáfræði og fordóma Hjalta. Í þeim erfiðu atriðum hefði verið auðvelt að sökkva sér í dramatíkina en þau eru fyndin og áhorfendum leyft að hlæja að Hjalta. Þrátt fyrir að myndin taki sig ekki of alvarlega tekst henni um leið að vekja athygli á málefnum trans fólks á mjög fallegan og mannlegan hátt. Þá skiptir líka máli hverjir fá að segja sögu trans kvenna, en bæði aðalleikkonan Arna Magnea Danks og annar handritshöfundanna Veiga Grétarsdóttir eru trans konur.

Leikkonan Arna Magnea Danks og leikarinn Björn Jörundur Friðbjörnsson bera myndina uppi. Áhorfendur trúa því virkilega að Birna og Hjalti séu æskuvinir og milli þeirra sé mikil væntumþykja. Jafnvel þó að leikurinn geti verið örlítið ýktur á köflum fyrirgefa áhorfendur það, af því að viðfangsefninu er komið svo fallega til skila og án tilgerðar; Snævar sér ekki ástæðu til þess að gera meira mál úr hlutunum. Hjalti vill ekki samþykkja Birnu fyrir það sem hún er og það er bara eitthvað sem Hjalti þarf að komast yfir ef hann vill ekki tapa margra ára vináttu þeirra, flóknara er það ekki.

Ljósvíkingar er ekki síður sagan hans Hjalta, þ.e.a.s. saga manns sem lærir smám saman að það er hann einn sem stendur í vegi fyrir sjálfum sér, ekki Birna eða fjölskyldan hans í Reykjavík. Þegar hann er næstum því búinn að missa allt og versta martröð hans virðist geta orðið raunveruleg, þ.e. að enda aleinn, neyðist hann til að endurhugsa líf sitt og kemst að raun um að það eru Birna og fjölskyldan sem skipta hann mestu máli en ekki aðrir veraldlegir hlutir. Ljósvíkingar er því eins konar þroskasaga miðaldra karlmanns og skemmtileg tilbreyting frá týpísku íslensku kvikmyndinni sem segir frá karlmanni í krísu uppi í sveit sem endar með ofbeldi. Myndin virkar þó á köflum frekar langdregin en það þarf stundum bara að gefa þessum karlpungum tíma til að „girða sig í brók“, eins og Hjalti myndi segja.

Leikstjórinn Snævar Sölvason á mikið hrós skilið fyrir að koma þessu handriti svona vel frá sér og oft tekur hann mjög skemmtilegar leikstjórnarákvarðanir, eins og til dæmis í atriðinu í kirkjunni. Faðir Birnu er látinn og smábærinn er mættur í jarðarförina. Í staðinn fyrir að bæta við einhverri dramatískri tónlist undir fá áhorfendur að sitja í þögninni með Birnu og atriðið verður sterkara. Áhorfendur heyra í öllum þeim sem hósta og fylgjast vandræðalega með því þegar organistinn reynir að læðast inn en hælarnir á skónum gera henni ókleift að ganga hljóðlega. Það er eitthvað virkilega íslenskt og mannlegt við þetta atriði en það virðist einmitt vera það sem Snævar hefur einhvern sans fyrir og endurspeglast í allri myndinni.

Þó að rammarnir séu ekki eftirminnilegir og leikurinn stundum ýktur er einhver sannleikur í myndinni sem er ekki hægt að líta framhjá. Einnig er virkilega ánægjulegt að sjá trans konu fyrir framan og bak við tökuvélina, en það er mjög mikilvægt að þær raddir fái hljómgrunn. Ljósvíkingar er því í heildina litið vel heppnuð og mannleg kvikmynd sem dregur upp trúverðuga mynd af samskiptum æskuvina á tímamótum. Þetta er hugljúf mynd sem íslenskir áhorfendur ættu ekki að láta framhjá sér fara.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR