spot_img

The Guardian um SNERTINGU: Forðast ekki heitar tilfinningar

Catherine Bray skrifar um Snertingu Baltasars Kormáks í The Guardian og segir hana meðal annars lokkandi og afar sjónræna. Myndin er frumsýnd í breskum kvikmyndahúsum 30 ágúst.

Bray skrifar meðal annnars:

Kristófer er blíður en pólitískt þenkjandi íslenskur nemi í London School of Economics. Hann hættir í skólanum og ræður sig sem uppvaskara á japönskum veitingastað. Þar kynnist hann ungri konu, Miko, dóttur eigandans. Hún er mild og hljóðlát en blátt áfram í framkomu. Senum frá sjöunda áratuginum er flétt saman við senur með Kristófer á efri árum, þar sem hann reynir að hafa uppi á Miko áratugum síðar, meðan heimsfaraldur geysar, með það fyrir augum að tengjast aftur. Þessi tegund ástarsögu er lokkandi, það er aldrei of seint, hvíslar hún – en sýnir um leið, á þeim liðna tíma sem  greyptur er í andlit Kristófers, hversu ósatt þetta lokkandi hvísl er.

Baltasar Kormákur leikstýrir og skrifar handrit ásamt Ólafi Jóhanni Ólafssyni, sem byggt er á skáldsögu hans. Snerting er ögrandi í gamaldags hreinskiptni sinni, aðdáendur rómantíkur þurfa að finna huggulegheit annarsstaðar. Hér eru hvorki bílaeltingaleikir né prakkarastrik; þetta er ástarsaga, hrein og klár og ófeimin að sýna heitar tilfinningar. Baltasar skilur einnig hið sjónræna aðdráttarafl rómantíkur: þetta snýst ekki bara um koddahjal eða ástríðufullar yfirlýsingar, heldur myndmál og hann dregur ekki af sér í þeim efnum. Jafnvel einföld atriði eins og Kristófer og Miko saman í strætó, hafa sterkt sjónrænt yfirbragð: karlmannlegir handleggir í rjómalitaðri ullarpeysu, höfuð hennar hallast til að horfa upp í augu hans meðan þau haldast í hendur, sólarljósið eins gyllt og hægt er að hugsa sér.

Gera má athugasemdir við að innra líf parsins er ekki eins ítarlegt og leyfilegt er í skáldsögu, en kannski þarf það ekki: þau virka eins og tákn fyrir rómantískar vonir og drauma og færa okkur alla þá gleði og sársauka sem við viljum fá þegar við sökkvum okkur ofan í góða ástarsögu.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR