Besta erlenda bíóið á árinu

Klapptré bað þrjá kvikmyndagagnrýnendur að velja bestu myndir ársins, þrjár íslenskar og fimm erlendar. Þau Jóna Gréta Hilmarsdóttir, Ásgeir H. Ingólfsson og Kolbeinn Rastrick brugðust skjótt við og létu ýmiskonar athugasemdir fylgja valinu. Hér eru topp fimm erlendar. Íslensku myndirnar birtast á morgun.

Topp fimm erlendar

Jóna Gréta Hilmarsdóttir, gagnrýnandi Morgunblaðsins:

Saltburn

Saltburn er ógeðsleg og ógeðslega góð. Enn og aftur skilur Emerald Fennell okkur áhorfendur eftir agndofa. Félagslegur tryllir hefur náð nýjum hæðum.

Barbie

Hver hefði haldið að mynd um Barbie-dúkku gæti verið svona djúp og róttæk? Leikstjóranum, Gretu Gerwig, tekst í gegnum sinn tilbúna, bleika söguheim að varpa ljósi á ríkjandi feðraveldi með því einungis að leyfa áhorfendum að sjá heiminn út frá öðru sjónarhorni, þ.e. að stilla upp mæðraveldi í Barbielandi. Greta gengur enn þá lengra í gagnrýni sinni og sýnir líka hvernig hvítur og gagnkynhneigður femínismi er hluti af vandamálinu.

Anatomie d’une chute / Hátt er fallið

Hátt er fallið var vinningsmynd Gullpálmans á kvikmyndahátíðinni Cannes í ár og ekki að ástæðulausu. Leikstjóranum, Justine Triet, tekst að gera meira en tveggja klukkustunda réttardrama, sem gerist einungis á tveimur stöðum, mjög spennandi. Það er að miklu leyti að þakka tempóinu í klippinu en kannski fyrst og fremst leiknum sem er mjög sannfærandi, þá sérstaklega hjá Sandra Hüller og unga leikaranum Milo Machado Graner.

Dream Scenario / Draumaatburðarásin

Kristoffer Borgli er gríðarlega spennandi leikstjóri sem greinilega kann að segja sögur um venjulegt fólk í skrítnum kringumstæðum. Draumaatburðarásin er áhugaverð gagnrýni á frægð og hverjir verða fyrir valinu. Því ef hver sem er getur orðið frægur þá hlýtur að koma að því að frægðin lendi í röngum höndum.

Poor Things / Greyin

Nýjasta mynd Yorgos Lanthimos er ekki bara sjónrænt meistaraverk heldur er sagan líka áhugaverð. Aðalsöguhetjan Bella Baxter, sem Emma Stone leikur listilega, er líkt og fræga sögupersónan Gosi að læra að hegða sér eins og alvöru manneskja. Munurinn er hins vegar sá að Bella fæðist sem kona og þarf þar af leiðandi líka að berjast fyrir sjálfsforræði yfir eigin líkama.

Ásgeir H. Ingólfsson, gagnrýnandi Heimildarinnar:

Græn landamæri / Green Border / Zielona granica

Þegar mannkynssagan ratar á hvíta tjaldið, nánast í beinni, geta ótrúlegir hlutir gerst. Fráfarandi ríkisstjórn Póllands hvatti fólk til að sjá þessa mynd ekki, en þessi mynd er um svo miklu meira en bara Pólland og er einfaldlega ein mikilvægasta og besta bíómynd sem ratað hefur í bíó lengi.

Past Lives

Nístandi falleg mynd um ástir og fjarlægðir á tölvuöld. Þau Greta Lee og Teo Yoo eru með þúsund vatta kemistríu og flestir sem hafa átt rómans sem fjarlægðin eyðilagði munu finna ískyggilega kunnuglegar senur í myndinni.

Skrímsli / Kaibutsu

Kore-eda er manneskjulegastur allra leikstjóra nútímans án þess þó að verða nokkurn tíma væminn, persónur hans þurfa að ganga í gegnum alvöru eldraunir til að fá sína lausn og það þurfa áhorfendur líka að gera.

Fucking Bornholm

Stemningin á sumarleyfisparadísinni Bornholm, þar sem draumarnir verða að martröð og nýjir draumar verða til, er afskaplega sannferðug. Maður kannast við þessa eyju frá löngu liðnum sumarkvöldum, þar sem sumarloftinu fylgja nýjar vonir, brostnar vonir og draumar sem aldrei rætast.

Holy Spider

Ljóðræn mynd á þennan sérstaka persneska hátt, dimm og drungaleg, en hjarta hennar slær með þessum ólánsömu konum, sem eru upp til hópa töluvert kjarkaðri en aumingjalegir karlarnir, sem þó öllu ráða.

The Banshees of Inisherin er svo rétt á eftir, The Killing of a Journalist, Aftersun, Krufning á falli / Anatomie d’une chute og Fire of Love koma svo næst á eftir – já, og Indiana Jones and the Dial of Destiny, ein vanmetnasta Hollywood-hasarmynd síðari ára.

Hér eru svo nokkrar sem ég sá á hátíðum erlendis nýlega en eru enn ósýndar á Íslandi að því ég best veit, en kæmu alveg til greina á svona lista þegar það gerist:

RMN, You Sing Loud, I Sing Louder, All the Beauty and the Bloodshed, We Have Never Been Modern og Dancing on the Edge of the Volcano.

Allra skemmtilegasta bíóferð ársins var svo á 52 ára gamla mynd, Minnie and Moskovitz, sem væri kjörinn í góða partísýningu eða Svarta sunnudaga í Paradís.

Kolbeinn Rastrick, gagnrýnandi Lestarinnar á Rás 1:

Anatomy of a Fall

Anatomy of a Fall tekst að segja virkilega spennandi sögu um sviplegt andlát. Á sama tíma tekst henni þó einnig að gagnrýna og velta fyrir sér hugmyndinni um “sögurnar” sem við segjum okkur og öðrum. Sandra Hüller er líka virkilega góð í aðalhlutverkinu.

The Gullspång Miracle

Heimildamynd sem hefst á fallegum og einföldum nótum. Ekki líður þó á löngu þangað til að myndin fer í fáránlega átt og verður allt bara skrítnara og dularfyllra eftir því sem við fáum að sjá og vita meira. Án efa skemmtilegustu gömlu konur allra kvikmynda 2023.

Green Border

Áhorfendur fá að vera flugur á vegg og fylgjast með því sem á sér stað í kringum hin grænu landamæri Póllands og Hvíta-Rússlands. Mjög átakanleg og erfið en alls ekki bara svokallað “misery porn.” Myndin gagnrýnir en sýnir samt sem áður allt á mannlegan og þroskaðan hátt.

Bottoms

Þessi er bara stanslaust stuð. Chick-flick formið endurvakið og endurskoðað. Tvær lúðalegar stelpur ákveða að hefja slagsmála klúbb í skólanum svo þær geti vonandi sofið hjá sætustu klappstýrum skólans. Þarf að segja meir?

Mission Impossible: Dead Reckoning Part I

Þessi kom mér alveg á óvart. Ekkert meistaraverk en tekst bara algjörlega að gera það sem hún ætlar sér; sýna Tom Cruise stofna lífi sínu í hættu með hverju glæfra uppátækinu á fætur öðru. Myndin er kannski með lítinn heila en þó stórt hjarta.

Athugið að nokkrar þessara mynda hafa ekki enn verið sýndar í íslenskum kvikmyndahúsum.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR