Skjaldborg opnar fyrir umsóknir

Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda verður haldin á Patreksfirði um hvítasunnuhelgina 26.-29. maí. Opnað hefur verið fyrir umsóknir fyrir verk til frumsýningar og verk í vinnslu til kynningar á hátíðinni.

Fyrri umsóknarfrestur er 8. mars 2023 og seinni þann 30. mars 2023. Umsóknarform er aðgengilegt í gegnum vef hátíðarinnar. 

Vakin er athygli á því að hægt er að sækja um með myndir á eftirvinnslustigi með nýjustu útgáfu verksins auk lýsingar á því hvar verkið er statt og áætlun um verklok.

Skjaldborg frumsýnir íslenskar heimildamyndir og hefur það að markmiði að styðja við íslenska heimildamyndagerð. Hægt er að sækja um í tveimur flokkum, frumsýning á heimildamynd eða verk í vinnslu.

Þær íslensku heimildamyndir sem frumsýndar eru á hátíðinni keppa um verðlaunin Einarinn, áhorfendaverðlaun sem hafa verið veitt frá upphafi, og dómnefndarverðlaunin Ljóskastarann.

Gjaldgeng til frumsýninga 2023 eru verk sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:

– Heimildamyndir sem ekki hafa verið sýndar opinberlega á Íslandi og munu ekki verða sýndar á Íslandi áður en Skjaldborg 2023 er lokið

– Heimildamyndir sem teljast íslensk framleiðsla

– Hægt er að sækja um fyrir erlendar myndir sem fjalla um íslensk málefni en þær myndir eru ekki gjaldgengar í keppni.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR