Svona er ráðningarferli forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar

Þessa dagana stendur yfir ráðningarferli nýs forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Kvikmyndaráð og sérstök hæfnisnefnd koma að ferlinu en endanleg ákvörðun er í höndum ráðherra. Klapptré fór yfir ferlið með Skúla Eggert Þórðarsyni ráðuneytisstjóra Menningar- og viðskiptaráðuneytisins.

Umsækjendur um starfið eru hér.

Aðkoma Kvikmyndaráðs

Í 4. grein kvikmyndalaga segir að ráðherra skipi forstöðumann Kvikmyndamiðstöðvar að fenginni umsögn Kvikmyndaráðs. Klapptré spurði Skúla hvernig aðkomu Kvikmyndaráðs að ráðningarferlinu sé háttað. Skúli sagði ráðið fá aðgang að umsóknunum og í framhaldi fjalla um þær á sérstökum fundi. Síðan verði skýrslu ráðsins skilað til ráðuneytisins. Það sé alfarið í höndum Kvikmyndaráðs að ákveða hvort mælt sé með einum eða fleirum, jafnvel engum.

Kvikmyndaráð er svo skipað nú: Sigurjón Sighvatsson, formaður, skipaður án tilnefningar. Margrét Örnólfsdóttir, varaformaður, tilnefnd af Félagi leikskálda og handritshöfunda. Anna Þóra Steinþórsdóttir, tilnefnd af Félagi kvikmyndagerðarmanna. Lilja Ósk Snorradóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda – SÍK. Ragnar Bragason, tilnefndur af Samtökum kvikmyndaleikstjóra. Lilja Ósk Diðriksdóttir, tilnefnd af Félagi kvikmyndahúsaeigenda. Bergsteinn Björgúlfsson, tilnefndur af Bandalagi íslenskra listamanna. Birna Hafstein, tilnefnd af Félagi íslenskra leikara.

Aðkoma hæfnisnefndar

Sérstök hæfnisnefnd, sem ráðherra hefur skipað, mun einnig fjalla um umsóknirnar og taka ráðningarviðtöl.

Í hæfnisnefndinni sitja Pétur Þ. Óskarsson forstjóri Íslandsstofu, Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor Listaháskóla Íslands og Margrét Jónasdóttir aðstoðardagskrárstjóri RÚV. Skúli sagði varðandi skipun þessara aðila að litið hefði verið til þekkingar á viðkomandi sviði og að ekki væri um að ræða tengsl við umsækjendur.

Hlutverk hæfnisnefndar er að meta hvort og hvernig umsækjendur eru hæfir til að gegna starfinu og raða þeim upp í tiltekna röð. Skúli sagði að auk þekkingar á málefnum stofnunarinnar sé horft til þátta á borð við stjórnunarreynslu, þekkingar á stjórnsýslulögum, lögum um opinber fjármál og lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Einnig sé horft til hæfni í mannlegum samskiptum og hvernig viðkomandi kemur fyrir.

Í ljósi þess að Kvikmyndaráði er ætlað samkvæmt lögum að gefa ráðherra umsögn um umsækjendur var Skúli spurður hversvegna hæfnisnefnd hefði einnig verið skipuð. Hann svaraði því til að þetta væri æ algengara fyrirkomulag varðandi ráðningu embættismanna þó það væri ekki skylda nema í einstaka tilfellum. Munurinn á aðkomu Kvikmyndaráðs og hæfnisnefndar væri sú að hæfnisnefndin tæki ráðningarviðtöl, en Kvikmyndaráð ekki.

Aðkoma ráðherra

Að fengnum tillögum frá Kvikmyndaráði og hæfnisnefnd er síðan komið að ráðherra, Lilju Alfreðsdóttur. Ákvörðunarvaldið um ráðninguna liggur hjá ráðherra. Skúli sagði að ráðherra myndi einnig taka ráðningarviðtöl og því ljóst að sá umækjandi sem verður fyrir valinu mun að minnsta kosti fara í tvö ráðningarviðtöl, jafnvel fleiri.

Áður hefur fram komið að menningar- og viðskiptaráðherra skipi í embættið til fimm ára frá og með 18. febrúar næstkomandi.

Orðalag auglýsingar ekki vísbending um stefnubreytingu

Í auglýsingu um starfið sem birtist í lok nóvember kom fram í einum lið að hæfniskröfur væru meðal annars staðgóð þekking á kvikmynda- og sjónvarpsmálum og í öðrum lið þekking á málefnum ljósvakamiðla. Einnig var í hæfniskröfum vísað til þekkingar á stefnu og straumum í afþreyingarefni.

Aðspurður um hvort þessar áherslur á sjónvarp/ljósvakamiðla og afþreyingarefni þýddu einhverskonar áherslubreytingar stjórnvalda gagnvart Kvikmyndamiðstöð sagði Skúli svo ekki vera, stjórnvöld hefðu engar fyrirfram gefnar hugmyndir varðandi þessi atriði. Þau væru einfaldlega hluti af starfsemi stofnunarinnar. Skúli lagði á það áherslu að Kvikmyndamiðstöð Íslands væri sjálfstæð stofnun og að ekki stæði til að hlutast til um starfsemina af hálfu stjórnvalda.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR