Fréttablaðið um SKJÁLFTA: Mánudagsást og bældar minningar

„Vel unnið og vandað raunsæisdrama um þöggun, áföll og úrvinnslu, og skartar gölluðum kvenpersónum sem er alltaf ánægjulegt,“ segir Nína Richter meðal annars í Fréttablaðinu um Skjálfta Tinnu Hrafnsdóttur.

Nína skrifar:

Stóri skjálfti Auðar Jónsdóttur var að mati gagnrýnenda einn af toppum jólabókaflóðsins 2015. Tinna Hrafnsdóttir hefur gert kvikmynd byggða á bókinni þar sem hún leikstýrir, skrifar handrit og leikur hlutverk.

Bíóunnendur snúa til baka í kvikmyndahúsin eftir samkomutakmarkanir, margir eftir langt hlé. Stærstu kvikmyndaverkefni heims sem hafa lent töfum á síðustu tveimur árum fá loksins að líta dagsins ljós.

Þessi jarðvegur, fyrir bíómynd um leyndarmál og íslenskan fjölskylduharmleik, er annar en á Íslandi 2015, og miðillinn er annar. Því er sá samanburður hugsanlega bæði ósanngjarn og ómarktækur. Andrúmsloftið er þungt undir stríðsfréttum og fólk leitar að nýju jafnvægi. Andrúmsloftið í Skjálfta er líka þungt og framvinda sögunnar er hæg en taktvís.

Aðalpersónan, rithöfundurinn Saga, er í rannsóknarleiðangri í leit að týndum minningum og samhengi í sitt eigið líf. Söguskýringu sem er bæði tilfinningalegs eðlis og rökrétt. Þungamiðjan er móðurástin. Innan um hana liggja þræðir mánudagsástarinnar og streitusamfélagsins. Þöggun er hér lykilorðið.

Aníta Briem fer með hlutverk Sögu og fer fyrir góðum leikhópi. Tinna Hrafnsdóttir, leikstjóri myndarinnar, fer með hlutverk meðvirku systurinnar og foreldrana túlka Edda Björgvinsdóttir og Jóhann Sigurðarson. Benjamín Árni Daðason fer með hlutverk sonarins Ívars. Edda stelur senunni. Við þekkjum öll þessa konu sem kyngir öllu og kvartar aldrei, með efri vörina titrandi og hvíta hnúa. Í Skjálfta er virkilega vel unnið með förðun og búninga. Hvað varalitur getur sagt mörg orð á leikara sem þegir, ber vandaðri vinnu gott vitni.

Niðurstaða: Skjálfti er vel unnið og vandað raunsæisdrama um þöggun, áföll og úrvinnslu, og skartar gölluðum kvenpersónum sem er alltaf ánægjulegt. Áferð bókarinnar dettur stundum í gegn, til dæmis varðandi uppsetningu á persónugalleríi, en það skemmir ekki fyrir verkinu. Reykjavík nýtur sín vel sem aukapersóna og leikarar skila sínu.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR