Hundruðir danskra kvikmyndagerðarmanna mótmæla slæmu vinnuumhverfi

415 danskir kvikmyndagerðarmenn hafa skrifað opið bréf til danskra framleiðenda þar sem hvatt er breytinga á slæmu vinnuumhverfi í dönskum kvikmyndaiðnaði, sem meðal annars felist í áreitni, einelti og slysum.

Opna bréfið birtist á dögunum í fagmiðlinum Ekko.

Úr grein Ekko:

„Við vitum að flest ykkar eru fagfólk, harðduglegt, ábyrgt fólk sem gerir sitt besta til að skapa góð vinnuskilyrði í greininni,“ segir í bréfinu.

„Vinsamlegast hjálpið okkar að skila því til sumra kollega ykkar, sem ekki geta hegðað sér á sama hátt, að við vitum hver þau eru og við munum ekki lengur vinna fyrir þau ef ekkert breytist.

„Það getur ekki verið þannig að fólk sem vinnur bara vinnuna sína þurfi að tilkynna veikindi vegna þunglyndis og streitu eða yfirgefa iðnaðinn alfarið, bara af því að það þarf bara að kreista sítrónuna aðeins meira.“

Aukinn þrýstingur á kostnaðaráætlanir

Í bréfinu kemur fram að vaxandi eftirspurn er eftir dönsku efni á heimsvísu. Aukin framleiðsla hafi þó ekki leitt til betri vinnuaðstæðna starfsfólks. Þvert á móti.

„Því miður höfum við líka upplifað að þessi jákvæða þróun hefur leitt til aukins þrýstings á kostnaðaráætlanir og framleiðslutíma,“ segir þar.

„Við viljum vekja athygli á því að þú færð ekki betri verk með vanáætlun kostnaðar eða óraunhæfu skipulagi. Þvert á móti verður það að lokum dýrara þegar yfirvinnan er greidd og fólk er ráðið um helgar og á kvöldin til að láta hlutina ganga upp.“

Að sögn bréfritara er þessi þrýstingur einnig gróðrarstía slæms vinnuumhverfis, allt frá hörðum tón og áreitni til hótana og eineltis.

„Við viljum segja þeim sem kunna að telja það góða hugmynd að öskra á samstarfsfólk sitt eða leggja það í einelti, að svo sé ekki.“

„Við sættum okkur ekki við ofbeldi – andlegt eða líkamlegt – áreitni, einelti, hótanir um að eyðileggja feril einhvers eða aðrar eineltisaðferðir. Þetta er misnotkun á valdi og ætti ekki að eiga sér stað á þeim tíma þegar #MeToo hefur vakið mikla athygli um allan heim, en sú bylgja hófst einmitt í kvikmyndageiranum. Öll erum við starfsfólk í viðkvæmri stöðu vegna þess að margir vilja komast inn í þennan iðnað,“ segir í bréfinu.

Fylgdu eigin orðum

Í kjölfar #MeToo bylgjunnar hefur kvikmyndaiðnaðurinn tekið margvíslegt frumkvæði til að binda enda á misnotkun valds. Nokkur framleiðslufyrirtæki og stofnanir hafa einnig birt siðareglur.

En það má ekki verða til þess að svæfa málin, vara bréfritarar við.

„Við ykkur framleiðendur, sem hafið unnið frábærar siðareglur, en farið ekki eftir þeim í reynd, viljum við segja að þið eruð að sýna sjálfum ykkur mikla vanvirðingu með því að standa ekki við ykkar eigin orð,“ segir þar.

Þó að framleiðendur séu ávarpaðir í bréfinu, er því einnig beint til sjónvarpsstöðva og annarra ljósvakamiðla auk Danska kvikmyndaskólans.

„Að því er varðar sjónvarpsstöðvar og aðra ljósvakamiðla, hvetjum við ykkur til að segja nei við birgja sem þið annaðhvort vitið eða grunar að hafi þvingað verkefni í gegn með of lágum kostnaðaráætlunum. Sem viðskiptavinir berið þið líka ábyrgð á góðu starfsumhverfi geinarinnar,“ segir ennfremur í bréfinu.

„Rétt eins og þið í Danska kvikmyndaskólanum berið ábyrgð á að kenna nemendum ykkar hvernig á að stjórna á ábyrgan hátt. Hvort sem það eru framleiðendur, leikstjórar, tökumenn og aðrir stjórnendur deilda.“

Engin tiltekin dæmi

Í bréfinu er hvorki tiltekin nöfn né sérstök tilfelli. Bréfritarar segja það gert af ásetningi.

„Við viljum leggja áherslu á að ekki stendur til að taka neinn sérstakan fyrir. Við viljum sjá breytingar á tilhneigingum við höfum séð færast hljóðlega í aukana á undanförnum árum með aukinni samkeppni og efnahagslegum aðstæðum sem hafa skapað erfiðar vinnuaðstæður í iðnaðinum í heild.”

Bréfinu lýkur með boði til allra kvikmyndagerðarmanna sem vilja styðja baráttuna fyrir því að skapa betri aðstæður í kvikmyndageiranum.

„Að lokum viljum við segja að ef þú vilt vinna með okkur að því að búa til besta kvikmyndaumhverfi í heimi munum við gjarna vinna fyrir og með þér.“

Ekko fjallar frekar um málið hér og hér.

HEIMILDEkko
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR