Brasilísk-íslenska stuttmyndin Ágústhiminn (Céu de Agosto) hlaut í gærkvöldi sérstaka viðurkenningu dómnefndar á Cannes hátíðinni. Myndin var meðal 10 stuttmynda sem tóku þátt í aðalkeppni hátíðarinnar.
Leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar er hin brasilíska Jasmin Tenucci. Kári Úlfsson framleiðir og klippari er Brúsi Ólafsson.
Þann 19. ágúst 2019 var Jasmin á gangi um hábjartan dag þegar nótt lagði snögglega yfir borgina hennar. Hafði þá reykmökkur ferðast yfir hálfa heimsálfuna frá skógareldum í Amazon frumskógi. Þetta augnablik varð kveikjan að hugmyndinni um hina óléttu Luciu sem býr í Sao Paulo og finnur sífellt fyrir meiri streitu og áreiti vegna yfirvofandi endaloka sem birtast henni svo loks á þessum degi. Hún finnur enga samkennd eða samfélag nema í vafasömum trúarhópi sem virðist taka þó henni með opnum örmum.
Kári Úlfsson og Brúsi Ólason voru báðir í námi með Jasmin við Columbia háskóla í New York. Brúsi nam þar leikstjórn og handritsskrif ásamt Jasmin og Kári nam framleiðslu. Þau útskrifuðust öll sumarið 2020.
Kári hefur haldið utanum verkefnið frá fyrstu hugmynd fram að heimsfrumsýningu á Cannes. Hann sá um að fjármagna verkefnið með bæði bandarískum styrkjum sem og hópfjármögnun í gegnum Indiegogo.
Í samvinnu við Jasmin réðu þau síðan brasilíska framleiðendur til að stýra verkefninu í tökum sem fóru fram í janúar 2020.
Sameiginlegt útskriftarverkefni Kára og Brúsa, stuttmyndin Dalía, var frumsýnd sem hluti af Future Frames program Karlovy Vary hátíðarinnar sumarið 2020. Þeir eru með ýmis verkefni í þróun og vinna að því að koma sinni fyrstu kvikmynd í fullri lengd á koppinn.