ÍSLAND: BÍÓLAND og íslenska kvikmyndavorið

Annar þáttur Íslands: bíólands kallast Íslenska kvikmyndavorið. Þátturinn er á dagskrá RÚV sunnudag kl. 20:20.

Þátturinn fjallar um þær kvikmyndir sem kenndar eru við íslenska kvikmyndavorið svokallaða, um og uppúr 1980. Þá hófst regluleg framleiðsla íslenskra bíómynda og má kalla það sköpunarsprengingu þar sem margir lögðu hönd á plóg. Flestum var gríðarlega vel tekið af almenningi. Einnig er fjallað um aðdraganda þessa tímabils sem rekja má um tuttugu ár aftur í tímann og leiddi til stofnunar Kvikmyndasjóðs, sem lagði grunninn að samfelldri framleiðslu.

Síðar sama kvöld sýnir RÚV kvikmyndina 79 af stöðinnni (1962) eftir Erik Balling. Með aðalhlutverk fara Kristbjörg Kjeld, Gunnar Eyjólfsson og Róbert Arnfinnsson. Í myndinni segir frá tregafullum kynnum Ragnars og hinnar dularfullu en óhamingjusömu borgarstúlku Gógó. Ragnar, sem er nýfluttur á mölina til að starfa sem leigubílstjóri, kynnist Guðríði Faxen, sem á mann á sjúkrahúsi í Kaupmannahöfn. Hún hefur mikil áhrif á Ragnar og með þeim takast heitar ástir. Sagan gerist laust eftir 1950 og lýsir meðal annars lífinu í Reykjavík á þessum tíma, félögum Ragnars á bílastöðinni og kynnum af bandaríska varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli.

Guðný Ragnarsdóttir og Sigurður Sigurjónsson í Landi og sonum eftir Ágúst Guðmundsson | Grafík: Thank You.

Í þættinum er fjallað um eftirfarandi myndir:

Punktur punktur komma strik
79 af stöðinni
Veiðiferðin
Morðsaga
Land og synir
Óðal feðranna
Útlaginn
Hrafninn flýgur
Gullsandur
Okkar á milli í hita og þunga dagsins
Atómstöðin
Slys
Fjarst í eilífðar útsæ
Hernámsárin I og II
Flug 401
Brekkukotsannáll
Sóley
Á hjara veraldar
Skilaboð til Söndru
Húsið
Með allt á hreinu
Róður
Hitaveituævintýri
Maður og verksmiðja

Viðmælendur í öðrum þætti eru (í stafrófsröð) Andrés Indriðason, Ari Kristinsson, Arnar Eggert Thoroddsen, Ágúst Guðmundsson, Björn G. Björnsson, Björn Þór Vilhjálmsson, Dóri DNA, Egill Eðvarðsson, Friðrik Þór Friðriksson, Guðný Halldórsdóttir, Heiða Jóhannsdóttir, Helga Þórey Jónsdóttir, Hrafn Gunnlaugsson, Jakob Frímann Magnússon, Jón Hermannsson, Jón Karl Helgason, Jón Þór Hannesson, Karl Óskarsson, Kristbjörg Kjeld, Kristín Jóhannesdóttir, Kristín Pálsdóttir, Kristján B. Jónasson, Marta Sigríður Pétursdóttir, Ragna Fossberg, Ragnhildur Gísladóttir, Reynir Oddsson, Róska (safnefni), Sigríður Pétursdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Sigurður Sverrir Pálsson, Snorri Þórisson, Tinna Gunnlaugsdóttir, Þorgeir Þorgeirson (safnefni), Þorsteinn Jónsson, Þráinn Bertelsson og Örnólfur Árnason.

Ísland: bíóland er þáttaröð í tíu hlutum um sögu íslenskra kvikmynda frá byrjun tuttugustu aldar til og með 2019. Hver þáttur tekur ákveðið tímabil fyrir, þar sem fjallað er um kvikmyndir þess tíma og valdir kaflar sýndir úr þeim. Farið er yfir inntak þeirra, áherslur, nálgun og aðstæðurnar sem þær eru gerðar í.

Vel á annað hundrað viðmælendur koma fram í þáttunum – leikstjórar, framleiðendur, handritshöfundar, leikarar og aðrir kvikmyndagerðarmenn auk fjölmargra innlendra og erlendra kvikmyndasérfræðinga.

Ásgrímur Sverrisson leikstýrir þáttaröðinni, skrifar handrit og er þulur. Framleiðendur eru Guðbergur Davíðsson, Örn Marinó Arnarson og Þorkell Harðarson. Sunna Gunnlaugs semur tónlist, Konráð Gylfason sér um litgreiningu og samsetningu, Örn Marinó Arnason stjórnar kvikmyndatöku, Hallur Ingólfsson vinnur hljóð og Thank You gerir grafík.

Þættirnir eru framleiddir af Kvikmyndasögum ehf, en RÚV er meðframleiðandi. Þeir eru gerðir í samvinnu við Kvikmyndasafn Íslands. Kvikmyndamiðstöð Íslands styrkir verkefnið sem og Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið.

Rétt er að taka fram að ritstjóri Klapptrés er jafnframt leikstjóri þessarar þáttaraðar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR