Kvikmyndaskóli Íslands stefnir enn á háskólastig

Stjórn Kvikmyndaskóla Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu og greinargerð á vef skólans varðandi kvikmyndanám á háskólastigi.

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

RÚV hefur birt fréttir af væntanlegri kvikmyndadeild við Listaháskóla Íslands. Samkvæmt skriflegu svari Lilju D. Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra til Jóns Steinars Gunnlaugssonar lögmanns og fyrirsvarsmanns Kvikmyndaskóla Íslands þann 22. febrúar sl., þá breytir sú aðgerð engu gagnvart umsókn Kvikmyndaskólans um háskólaviðurkenningu og er nú unnið í ráðuneytinu að framgangi hennar.

Stjórn Kvikmyndaskóla Íslands fagnar samkeppni og óskar Listaháskóla Íslands alls hins besta í sinni kennslu.

Stjórn Kvikmyndaskóla Íslands telur eðlilegt að bregðast strax við breyttu landslagi í kvikmyndamenntun og hefur því falið Jóni Steinari að fá heimild ráðherra til að auglýsa nú þegar að skólinn sé í viðurkenningarferli til háskóla. Jafnframt hefur verið sett fram krafa um að ráðherra gefi skólanum skýra tímalínu varðandi afgreiðslu umsóknar um yfirfærslu á háskólastig.

Meðfylgjandi er greinargerð þar sem fjallað er nánar um væntanlega háskólayfirfærslu.

Stjórn Kvikmyndaskóla Íslands

Greinargerðin hljóðar svo:

Hér eru teknir saman ýmsir punktar er varða umsókn Kvikmyndaskóla Íslands um háskólaviðurkenningu til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Skipan þriggja óháðra sérfræðinga til að veita umsögn

Kvikmyndaskólinn hefur allt frá því formleg umsókn var lögð inn til ráðuneytið 26. janúar 2020 óskað eftir því að ráðuneytið skipaði þriggja manna sérfræðingahóp til að veita umsögn um skólann, eins og háskólalög nr 63/2006 gera ráð fyrir.

Kvikmyndaskólinn hefur frá september 2020 verið tilbúinn að taka á móti sérfræðingahópi. Þá hefur skólinn frá því í janúar á þessu ári boðið ráðuneytinu að taka á móti sérfræðingum í maí 2021, og að stefnt skyldi að staðfestingu viðurkenningar 1. ágúst 2021. Samkvæmt þeirri áætlun starfar skólinn í dag.

Ytri umgjörð umsóknar

Kvikmyndaskólinn hefur sérstaklega bent á að fjölgun stúdenta frá aldamótum hefur verið 100% en fjölgun nemenda í listnámi á háskólastigi hefur verið innan við 15%. Háskólayfirfærsla Kvikmyndaskólans er tilkominn vegna þrýstings frá stúdentum sem ekki hafa komist í listnám.

Við skráningu fjögurra diplóma náms KVÍ á grunnstigi háskólastigs, þá myndi nýnemum í listnámi fjölga um 30%. Þetta er mikilvægt skref til að gefa aukinn styrk inn í skapandi greinar sem þurfa að koma sterkar inn sem allra fyrst. Lítil deild við Listaháskóla Íslands, sem mun þurfa nokkur ár og jafnvel áratug til að fóta sig er ekki nægilegt viðbragð við stöðunni. Þess vegna er mjög mikilvægt að erindi hins 30 ára gamla Kvikmyndaskóla verði afgreitt fljótt og faglega og samkvæmt gildandi lögun. Öllum óþarfa hindrunum þarf að hrinda úr vegi því ekkert á að vera því til fyrirstöðu að formleg BA námsleið verði orðin til í haust.

Viðurkenning lítilla háskóla

Sérstaða Kvikmyndaskólans meðal hinna fámennari háskóla á Íslandi er að hann hyggst eingöngu bjóða upp á núverandi tveggja ára diplómur, en viðbótarnám og útskrift til BA gráðu yrði í samvinnu við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Þetta form að sérhæfðir litlir sjálfstæðir listaskólar starfi undir regnhlíf stærri háskóla er alþekkt víðsvegar um heim, sérstaklega í Bandaríkjunum og Bretlandi. Hér á Íslandi er margvíslegt samstarf milli háskóla en ekki mikið um sameiginleg viðurkenningarsambönd af þessu tagi, sem er miður því með því er hægt að virkja sjálfstæða grasrótarskóla sem eiga erindi inn í háskólasamfélagið.

Viðurkenningar Kvikmyndaskólans og tæknileg útfærsla

Kvikmyndaskóli Íslands er á sínu öðru ári á fimm ára þjónustusamningi sem undirritaður var 3. júlí 2019 af Lilju D. Alfreðsdóttur og Bjarna Benediktssyni ráðherrum mennta- og menningarmálaráðuneytis og fjármála- og efnahagsmálaráðuneytis. Samningurinn tók gildi 1. janúar 2020. Ástæða er til að nefna að í samningnum kemur skýrt fram að stefnt sé að námsleið til BA gráðu í samvinnu við annan háskóla.

Viðurkenning Kvikmyndaskóla Íslands hjá Menntamálastofnun er á fjórar tveggja ára námsleiðir á svokölluðu 4. þrepi, sem samkvæmt 20 grein framhaldsskólalaga nr 92/2008 er skilgreint sem framhaldsnám við framhaldsskóla að loknu stúdentsprófi sem getur fengist metið til háskólaeininga við viðurkennda háskóla. Umsókn Kvikmyndaskólans er um yfirfærslu þessarar viðurkenningar af 4. þrepi yfir á 5. þrep. Það er hin tæknilega aðgerð sem um ræðir en um leið er hún yfirfærsla á háskólastig með margvíslegum auknum kröfum sem Kvikmyndaskólinn getur uppfyllt.

BA gráða í kvikmyndagerð í samvinnu HÍ og KVÍ

Markmið Kvikmyndaskóla Íslands er að koma á greiðri námsleið til BA gráðu í samvinnu við Háskóla Íslands. Skilyrði af hálfu Háskóla Íslands er að Kvikmyndaskólinn fái viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytis á fræðasviði lista á háskólastigi. Það er ekkert óeðlilegt við þessa kröfu HÍ þótt KVÍ hefði vonast eftir einfaldari leið. Eins og greint er hér að framan hefur verið gengið í það verk og vænst er afgreiðslu ráðuneytis á næstunni.

Stjórnendur KVÍ hafa lagt til við ráðherra að í beinu framhaldi af uppfærsla þjónustusamnings KVÍ verði gerður viðurkenningasamningur milli KVÍ og HÍ, til að skerpa á þeirri staðreynd að háskólaviðurkenning Kvikmyndaskólans er fyrst og fremst formsaðgerð, takmörkuð við fjórar diplómur og miðuð til að koma skjótt á mikilvægri menntunarleið í samvinnu tveggja skóla, sem bæði nemendur og atvinnulíf kalla eftir.

Það ætti að einfalda aðgerðina að ekki er verið að óska eftir auknum fjárheimildum.

Skjólstæðingar og ábyrgð

Stjórn og stjórnendur Kvikmyndaskóla Íslands verða að gæta hagsmuna helstu skjólstæðinga sinna, sem eru um 400 nemendur sem lokið hafa námi við Kvikmyndaskóla Íslands til viðbótar við stúdentspróf. Þessir nemendur eiga rétt á því að nám þeirra sé rétt metið. Kvikmyndaskóli Íslands er í alþjóðlegu samstarfi og hefur því möguleika á því að meta sín gæði út frá alþjóðlegu sjónarhorni. Stjórn og stjórnendur, sem og nemendur eru þess fullviss að Kvikmyndaskólinn uppfyllir kröfur um háskólanám og háskólastarfsemi. Það getur hver séð sem leggur sig eftir að skoða útskriftarmyndir nemenda.

Skýr svör brýn

Stjórn Kvikmyndaskóla Íslands óskar Listaháskóla Íslands til hamingju með framgang sinna mála, og megi það verða vísbending um kvikmyndamenntun víðsvegar í skólakerfinu. Yfirlýsing ráðuneytisins og fréttaflutningur fjölmiðla gerir þörf Kvikmyndaskólans fyrir skýr og skjót svör ráðherra og ráðuneytis mjög brýna.

Stjórn Kvikmyndaskóla Íslands

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR