Eiríkur Ragnarsson (Eikonomics) heldur áfram að skrifa í Kjarnann um fjárfestingu ríkisins í íslenskum kvikmyndaiðnaði og bendir á að þar sem framleiðsla á íslenskri menningu sé greidd úr sameiginlegum, takmörkuðum, sjóðum samfélagsins sé eðlilegt að velta fyrir sér hvort að því fé sé vel varið.
Eiríkur skrifar:
Nýlega skrifaði ég pistil sem fór yfir kerfi sem gengur út á það að ríkið endurgreiðir erlendum kvikmyndargerðarmönnum framleiðslukostnað, svo lengi sem þeir koma til Íslands og taka upp sjónvarpsefni. Greinin hitti greinilega á taug sem leiddi alla leið upp í Samtök iðnaðarins – félag sem gætir meðal annars hagsmuna kvikmyndagerðarmanna – sem skrifaði ágætis grein til stuðnings kerfinu sem ég fjallaði um.
Lögin rekja sögu sína til ársins 1999 þegar Alþingi samþykkti frumvarp um endurgreiðslu framleiðslukostnaðar sem til fellur vegna kvikmyndagerðar. Eins og ég benti á í fyrri grein minni, þá er það svo sem ekkert galið að laða að fjárfestingu í eftirsóttum iðnaði með einhverskonar vilyrðum, þó draga þurfi línu í sandinn einhvern tíma. Lögin má einnig endurskrifa aðeins, þar sem það er ekki augljóst að innflutningur á vöðvatröllum frá Kaliforníu sé skilvirkasta leiðin til að mæta markmiðum laganna, sem eru að „stuðla að eflingu innlendrar menningar og kynningar á sögu landsins og náttúru.“
Lögin gilda jafnt um íslenska og erlenda kvikmyndagerð. Íslenskir kvikmyndagerðarmenn geta fengið allt að 25% af öllum sínum framleiðslukostnaði endurgreiddan frá íslenska ríkinu (að uppfylltum vissum skilyrðum), rétt eins og erlendir kollegar þeirra. Ólíkt erlendri kvikmyndagerð, þá liggur enginn vafi á því að íslensk kvikmyndagerð stuðlar að „eflingu innlendrar menningar og kynningar á sögu landsins“.
Endurgreiðslur til íslenskrar kvikmyndagerðar
Íslenska ríkið hefur til fjölda ára styrkt kvikmyndagerð. Kvikmyndasjóður hefur til að mynda veitt styrki í það minnsta frá árinu 1979. Það árið skaffaði sjóðurinn kvikmyndagerðarmönnum 29,5 milljónir gamlar krónur (367 milljónir í nútímakrónum á verðlagi dagsins í dag). Kvikmyndagerðarmennirnir það árið nýttu peninginn vel og til urðu sígildar myndir eins og Land og synir, Óðal feðranna og Kvikmynd um fjölskyldulíf [ekki alveg ljóst hvað verið er að vísa í hér, aths Klapptrés].
Í ár úthlutaði ríkissjóður Kvikmyndasjóði 1,1 milljarð króna. Kvikmyndamiðstöð Íslands, sem sér um að dreifa peningunum úr Kvikmyndasjóð, hefur nú þegar útdeilt þessum peningum meðal annars til verkefna eins og Stellu Blómkvist 2 (50 milljónir) og Ófærðar 3 (75 milljónir).
Árið 1999 var bætt við stuðning til kvikmyndagerðar, með nýju endurgreiðslukerfi. Þetta kerfi hefur spilað lykilhlutverk í að laða að erlenda kvikmyndagerðarmenn, en spilar þó ekki minna hlutverk í fjármögnun íslenskrar kvikmyndagerðar en styrktarkerfi Kvikmyndasjóðs.
Í rúma tvo áratugi hefur ríkið stutt við íslenska kvikmyndagerð í gegnum þetta kerfi, með óneitanlega ágætis árangri. Í það minnsta er íslensk kvikmyndagerð mun öflugri í dag en hún var fyrir aldamót. Þeir Íslendingar sem vel kunna að meta íslenska kvikmyndagerð hafa notið þessa kerfis í formi betra sjónvarpsefnis, þó kerfið hafi að sjálfsögðu komið sér best fyrir framleiðendur og aðra sem í geiranum starfa.
Á árunum 2016 – 2020 hefur framleiðslu fyrirtækið Truenorth fengið um 2,5 milljarða greidda frá ríkinu í gegnum þetta kerfi. RVK Studios, framleiðslufélag sem flestir tengja við Baltasar Kormáks, hefur fengið rúmlega milljarð endurgreiddan [1].
Truenorth er að mestu leyti í því að þjónusta erlenda kvikmyndagerðarmenn eins og Will Ferrell, sem koma til Íslands til að notfæra sér endurgreiðslukerfið. RVK Studios sker sig hins vegar úr þar sem það félag er aðallega í því að framleiða íslenskt efni, sér í lagi verkefni sem flest okkar tengja við hin margafrekaða kvikmyndagerðarmann og stofnanda félagsins, Baltasar Kormák.
Á verðlagi ágúst mánaðar 2020 hafa fjögur stærstu verkefni RVK Studios (Everest, Eiðurinn, Ófærð 1 og 2) fengið hvorki meira né minna en 847 milljónir í gegnum þetta endurgreiðslukerfi og 232 milljónir úr Kvikmyndasjóði. Everest er reyndar erlent verkefni, þó henni hafi verið leikstýrt af Baltasar, því birtist hún ekki á grafinu að neðan.
Sjálfur tel ég að án ríkisins verði of lítil íslensk dægurmenning til en er samfélagslega ákjósanlegt. Án tilfærslna ríkisins væri líklega ekkert Þjóðleikhús til, Íslenska óperan væri það ekki heldur og á Hörpureitnum væri enn Esso bensínstöðin, þar sem ég vann við að dæla bensíni árið 2001. Það væri óneitanlega dapurlegt.
Hvað kostar Ófærð?
Almennt virðast Íslendingar hafa kunnað vel að meta Ófærð 1 og 2. Að meðaltali horfðu um 133 þúsund einstaklingar á hvern þátt.
Ef við deilum beinum ríkisstyrkjum með áhorfstölunum, Þá þýðir það að ríkið hafi greitt um 2.400 krónur með hverjum áhorfanda, eða um 240 krónur á þátt. Til samanburðar þá greiðir ríkið um 11 þúsund krónur fyrir hverja heimsókn í Þjóðleikhúsið og 13-15 þúsund krónur með hverri heimsókn á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands [3]. Því má vel færa rök fyrir því að framleiðsla sjónvarpsefnis á kostnað skattborgara sé mögulega skilvirkari en framleiðsla annara menningargæða.
Nú hefur verið úthlutað 75 milljónum úr Kvikmyndasjóði til Ófærðar 3, sem er í framleiðslu og ef fortíðin er ávísun á framtíðina þá má reikna með 250-350 milljónum úr ríkiskassanum í formi endurgreiðslna.
Líklega á fjöldinn allur af Íslendingum eftir að horfa á Ófærð 3. Mögulega er framleiðsla þáttanna góð notkun á ríkisfé. Stúdíó virðist vera í það minnsta skilvirkara en svið. Sama hvað því líður þá verðum við alltaf að muna það að framleiðsla á íslenskri menningu er greidd úr sameiginlegum, takmörkuðum, sjóðum samfélagsins. Og spurningin við þurfum að spyrja okkur er alltaf, og mun alltaf vera: Er hver þáttur að meðaltali 240 króna virði í huga þeirra sem á hann horfa?
Ef svarið er já, þá er Ófærð – Brot, Stella Blómkvist, Ráðherrann, hvað sem þátturinn heitir – þess virði. Annars ekki.
Punktar frá höfundi:
[1] Í þessum pistli hef ég endurreiknað fjárhæðir svo hægt sé að bera saman verðmæti yfir lengri tímabil. Fjárhæðir eru því á verðlagi ágúst mánaðar 2020.
[2] Nánari upplýsingar um gögnin sem rædd eru í þessari grein og nánari greiningu á þeim má finna á vefsvæði mínu á grid.is.
[3] Árið 2017 voru gestir Þjóðleikhússins voru 94 þúsund talsins, framlag ríkissjóðs var rúmlega milljarður, samkvæmt ársreikningi. Árið 2018 fékk Sinfóníuhljómsveit Íslands tæplega 1,1 milljarð úr ríkissjóði og 235 milljónir frá Reykjavíkurborg, á bilinu 90 – 100 gestir komu á viðburði hljómsveitarinnar.