Íslenskir og grænlenskir framleiðendur sameinast um framleiðslu- og þjónustufyrirtæki á Grænlandi 

Frá Grænlandi (Mynd af vef Film.gl)

Fjórir íslenskir og grænlenskir framleiðendur hafa sameinast um stofnun framleiðslu- og þjónustufyrirtækis á Grænlandi, Polarama Greenland. Þetta kemur fram í Screen Daily.

Fyrirtækið verður sjálfstætt dótturfélag íslenska framleiðslufyrirtækisins Polarama sem rekið er af Steinari Loga Nesheim og Kiddu Rokk, en þau komu meðal annars að framleiðslu sænsk/íslensku þáttaraðarinnar Ísalög (Thin Ice), sem framleidd var af Sagafilm og Yellow Bird. Verkefnið var að verulegu leyti tekið upp á Íslandi en gerðist á Grænlandi.

Hinir grænlænsku framleiðendur eru Emile Hertling Péronard og Pipaluk K. Jørgensen, sem er fyrsta grænlenska konan til að leikstýra kvikmynd (Anori, 2018). Bæði koma að utanhaldi félags grænlensks kvikmyndagerðarfólks, Film.gl, sem stofnað 2012.

Hugmyndin er að hið nýja framleiðslufyrirtæki geri bæði myndir á Grænlandi sem og þjónusti alþjóðlega kvikmyndaframleiðendur sem vilja mynda þar.

Panorama Greeland er meðframleiðandi og þjónustar nýja kvikmynd sænska leikstjórans Isabella Eklöf (Holiday) sem fer brátt í tökur á Grænlandi. Önnur verkefni eru einnig í undirbúningi.

Endurgreiðslukerfið á Íslandi var nýlega uppfært þannig að hafi meira en 80% af framleiðslukostnaði fallið til hérlendis eru jafnframt endurgreidd 25% af þeim framleiðslukostnaði sem fellur til á hinu evrópska efnahagssvæði, Grænlandi og Færeyjum.

Haft er eftir Jørgensen og Péronard að markmiðið sé að búa til þjónustumarkað á Grænlandi sem ekki hafi verið fyrir hendi. „Að geta byggt á langri reynslu Íslendinga af alþjóðlegri samframleiðslu er afar dýrmætt og við vonumst eftir náinni samvinnu, einnig á verkefnum sem eru tekin upp í báðum löndum.“

Sjá nánar hér: Iceland, Greenland producers join forces for one-stop shop in Greenland (exclusive) | News | Screen

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR