Örn Marinó og Þorkell um SÍÐUSTU VEIÐIFERÐINA: Konurnar hlæja langhæst

Örn Marínó Arnarson og Þorkell Harðarson (mynd: RÚV).

„Við erum búinir að taka nokkrar prufusýningar og þá er það bara þannig að konurnar öskra úr hlátri,“ segir Örn Marinó.  „Já, þær hlæja hæst,“ bætir Þorkell við í spjalli við Bergstein Sigurðsson í Menningunni á RÚV um Síðustu veiðiferðina.

Úr viðtalinu:

Myndin fjallar um sex vini, karla í miðlífskrísu, sem fara í veiðiferð sem fer fljótt úr böndunum. Handritshöfundar og leikstjórar eru þeir Þorkell Harðarson og Örn Marinó Arnarson, sem segja hugmyndina hafa verið að gerjast lengi.

„Ég hef farið í marga veiðitúra að leita fanga,“ segir Örn Marinó. „Ætli ég hafi ekki verið í tuttugu ár að tala um þetta, við verðum að fara að gera þetta og segja hvað gerist í svona túrum. En fyrir ári síðan ákváðum við að kýla á þetta.“

„Þetta eru tuttugu ár af veiðitúrum sett saman í einn,“ bætir Þorkell við. „Við sýndum stiklu úr myndinni og það voru ansi margir sem höfðu samband og spurðu: „Voruð þið fluga á vegg í síðasta túr hjá okkur?““

Myndin er gerð án opinberra styrkja sem kallaði á mikla útsjónarsemi í tökum og þar kom áratugareynsla þeirra Þorkels og Arnar Marinós í kvikmyndagerð sér vel.

„VIð vorum ekki lengi að taka hana. Þetta voru kannski sextán eða sautján tökudagar. Við leigðum laxveiðiá í tvær vikur þannig að hópurinn var þétt saman. Hlutirnir gengu létt fyrir sig, við þurftum ekki að vera að keyra á milli tökustaða eins og í bænum og eyða tíma í traffík.“

Með aðgang að laxveiðiá og veiðihúsi var ekki mikið mál að sannfæra leikarana um að taka þátt.

„Nei, það var eiginlega: Hvað ætlið þið að borga mikið fyrir að vera með strákar.“

Þótt Síðasta veiðiferðin fjalli um miðaldra karla og sé gerð af miðaldra körlum fer því fjarri að hún sé eingöngu fyrir karla að sögn leikstjóranna.

„Við erum búinir að taka nokkrar prufusýningar og þá er það bara þannig að konurnar öskra úr hlátri,“ segir Örn Marinó.  „Já, þær hlæja hæst,“ bætir Þorkell við. „Það er erfitt að koma konum að í mynd um karlaveiðitúr en þær eru þarna og undantekninglaust eru þær handhafar valdsins. Ég og Hjálmar Hjálmarsson leikari stúderuðum þetta aðeins og komumst að þeirri niðurstöðu að þetta sé femínískt brautryðjendaverk. Ég stend 100% við það.“

Sjá nánar hér: Konurnar hlæja langhæst

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR