Á opnunarkvöldi Hugarflugs, árlegrar rannsóknarráðstefnu Listaháskóla Íslands, fer tónskáldið Hildur Guðnadóttir yfir feril sinn, verk, rannsóknir og vinnuaðferðir í fjarfundarsamtali við Fríðu Björk Ingvarsdóttur, rektor Listaháskólans. Þessi viðburður fer fram fimmtudaginn 13. febrúar í húsnæði Listaháskólans, Laugarnesvegi 91, kl. 17.
Vegna takmarkaðs sætaframboðs og mikils áhuga á opnun Hugarflugs 2020 vil Listaháskólinn biðja áhugasöm um að skrá mætingu hér á þennan lista til að tryggja aðgang: https://forms.gle/gh74cBn2k9N3jFwv9
Beint streymi verður frá viðburðinum á live.lhi.is.
Fyrir áhugasöm er í boði að senda inn spurningar til Hildar á netfangið hugarflug@lhi.is. Sérvaldar spurningar verða bornar upp í samtalinu.
Undanfarin misseri hefur tónskáldið Hildur Guðnadóttir verið áberandi í tónlistarheiminum og gengið sannkallaða sigurgöngu. Verkefni hennar hafa verið verðlaunuð og viðurkennd á fjölbreyttum vettvangi og hún hefur hlotið mikið lof fyrir tónlist sína, ekki síst tónlist samda fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti. Að auki hefur Hildur samið tónlist fyrir leik- og dansverk og gefið út eigin tónlist.
Hildur var ein af þeim fyrstu sem útskrifaðist af tónsmíðbraut með áherslu á nýmiðla frá tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Hildur nam einnig við Listaháskóla Berlínar en hún hóf ung að árum að læra á selló í Tónlistarskóla Reykjavíkur.
Hildur hefur haslað sér völl sem einn af helstu tónlistarmönnunum á sviði tilraunakenndrar popptónlistar og samtímatónlistar. Í einleiksverkum sínum dregur hún fram hljóð sem spanna vítt svið, allt frá því að vera áleitin í einfaldleika sínum til þess að vera margbrotin.