Farið er af stað nýtt hlaðvarp um kvikmyndagerð, 180⁰ reglan, þar sem rætt er við kvikmyndagerðarfólk úr ýmsum áttum. Freyja Kristinsdóttir hefur umsjón með hlaðvarpinu en tveir þættir eru þegar komnir á netið.
í 180⁰ reglunni ræðir Freyja við fólk sem starfar á ólíkum vettvangi í kvikmyndageiranum á Íslandi, fær innsýn í feril viðmælenda og þeirra sýn á bransann hér á landi. Viðmælendur eru úr öllum áttum, en reglan er sú að hafa jafnt kynjahlutfall viðmælenda í þættinum.
Freyja gerði meðal annars heimildamyndina Rjómi sem sýnd var á Skjaldborg 2018 og hlaut þá hvatningarverðlaun dómnefndar. Myndin fjallar um fimm ára þrotlausa baráttu manns við að fá leyfi til að flytja hundinn sinn frá Noregi til Íslands.
Klapptré heyrði aðeins í Freyju og bað hana að segja undan og ofan af sér.
„Ég menntaður dýralæknir og hundaþjálfari, og starfaði við það og margt fleira þar til ég tók 180 gráðu beygju árið 2015 og lærði heimildamyndagerð í Kaupmannahöfn,“
segir hún.
„Eftir það var ekki aftur snúið því ég féll algjörlega fyrir kvikmyndagerð. Í kjölfarið gerði ég heimildamyndina Rjómi, sem var frumsýnd á Skjaldborg 2018, og fékk þar hvatningarverðlaun dómnefndar. Þegar ég flutti til Íslands var ég ekki með neitt tengslanet meðal kvikmyndagerðarfólks, og ákvað því að skrá mig í nám í Kvikmyndaskóla Íslands í Skapandi Tækni. Tengslanetið úr skólanum borgaði sig því nú er ég byrjuð að fá verkefni hér og þar við stuttmyndir. Hugmyndin að hlaðvarpinu kviknaði eiginlega út frá því hvað ég er forvitin um fólk. Ég stóð mig að því að spyrja alla kennara í skólanum út í hvernig þeir hefðu byrjað í kvikmyndageiranum og svo framvegis Mér finnst svo merkilegt að heyra allar þessar sögur, hver og einn er með sína einstöku sögu og sína reynslu af bransanum. Svo hef ég mikið verið að hlusta á erlenda hlaðvarpsþætti sem fjalla um kvikmyndagerð og ég hugsaði með mér hvað væri frábært ef það væri slíkur þáttur á Íslandi. En fyrst hann var ekki til, þá ákvað ég bara að skella í slíkan þátt sjálf, og ég vona að fólk hafi áhuga á að hlusta.“
Í fyrstu tveimur þáttunum er annarsvegar rætt við Dögg Mósesdóttur leikstjóra og fyrrum formann WIFT, en hinsvegar Grím Hákonarson leikstjóra.