Leggja ætti niður endurgreiðslur af hálfu ríkisins til spjall-, skemmti- og raunveruleikaþátta og takmarka ætti endurgreiðslurnar við kvikmyndir í fullri lengd, röð leikinna sjónvarpsþátta eða sjónvarpsmynda og svo heimildarmyndir. Þetta kemur fram í skýrslu vinnuhóps um styrki og endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar.
Kjarninn segir frá:
Vinnuhópurinn leggur til að ef endurgreiðslur einstakra verkefna fari yfir 400 milljónir króna væri hægt að dreifa endurgreiðslunum yfir fleiri en eitt ár til þess að forðast að stór verkefni þurrki upp fjárveitingu ársins.
Enn fremur ætti ekki að vera hægt að skuldbinda ríkissjóð umfram þriggja ára áætlun ríkisaðila og reikningar framleiðenda ættu að vera endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda til að staðfesta að framleiðslan uppfylli kröfur endurgreiðslukerfisins. Að lokum ætti að endurskoða menningar- og framleiðsluhluta verkefnamatsins til þess að gera það gagnsærra og hlutlægara.
Þak á ársgreiðslur
Verði tillögurnar að lögum þá verður sett þak á ársgreiðslur til einstakra verkefna og öll verkefni þurfi að lúta endurskoðun á kostnaði. Þar með verði nýting fjármuna bætt og heildarupphæðir endurgreiðslna lækkaðar, að því er kemur fram í skýrslunni.
Styrkir og veikleikar
Styrkur núverandi kerfis eru samkvæmt skýrslunni þeir að kerfið sé einfalt, gagnsætt, hvetji til uppbyggingar, stuðli að vexti í atvinnugreininni og hefði efnahagsleg margfeldisáhrif. Endurgreiðslukerfið geti stuðlað að mikilli landkynningu og auki útflutning.
Veikleikar kerfisins séu að auðvelt sé að misnota kerfið, ákvæði séu ekki nógu skýr um eftirlit með framleiðslukostnaði og að óvissa gæti verið um útgjöld ríkissjóðs hverju sinni. Kerfið geti komið í veg fyrir sjálfbærni kvikmyndaiðnaðarins og að gengi íslensku krónunnar hafi mikil áhrif, að því er fram kemur í skýrslu vinnuhópsins.
Sjá nánar hér: Vilja breyta endurgreiðslukerfi kvikmyndaframleiðslu