Ásthildur Kjartansdóttir leikstjóri og Elma Lísa Gunnarsdóttir leikkona eru í viðtali við Morgunblaðið um kvikmyndina Tryggð sem byggð er á skáldsögu Auðar Jónsdóttur, Tryggðapanti. Myndin fer í almennar sýningar þann 1. febrúar.
Úr viðtalinu (Júlía Margrét Alexandersdóttir skrifar):
Hvað getið þið sagt lesendum um efni myndarinnar?
Ásthildur: „Myndin fjallar um konu sem er af ríkri fjölskyldu en lendir í fjárhagsvandræðum. Hún starfar sem blaðamaður, er að skrifa grein um húsnæðismál útlendinga og hún sér sér þarna leik á borði; ákveður að slá tvær flugur í einu höggi og leysa fjárhagsvandræði sín með því að leigja út hluta af húsi sínu til erlendra kvenna en fær um leið viðfangsefni greinaskrifanna heim til sín. Ef þú setur þetta í stærra samhengi þá er þetta svolítið eins og Íslendingar hafa gert; við höfum flutt inn útlendinga þegar okkur vantar vinnuafl.“
Elma Lísa: „Gísella er góð manneskja í grunninn en áttar sig ekki á eigin fordómum fyrr en hún mætir þeim og sagan fjallar um leið um það hvernig hún verður fangi í eigin húsi og síns fyrri lífsstíls. Þetta er saga um samskipti fólks og valdabaráttu þessara kvenna. Gísellu gengur gott til og vill kynnast þessum erlendu konum enda sjálf einmana og einangruð í lífinu, en þegar henni finnst sér ógnað birtist ákveðin grimmd.“
Ásthildur: „Það framkallar ákveðna grimmd í fólki þegar því finnst það vera að missa valdið. Konurnar sem hún leigir eru um leið svolítið á sama báti. Þegar Gísella sýnir þeim grimmdina þá gera þær það á móti.“
Elma Lísa: „Sem er kannski bara mannlegt, ef einhver er vondur við þig ertu vondur á móti. Gísella tekur á þessu með því að búa til fleiri og fleiri húsreglur og missir smám saman tökin og án þess að segja of mikið verður hún eins konar fangi í eigin húsi.“
Ásthildur: „Að mörgu leyti hefði þessi mynd getað verið um samskipti hvaða fólks sem er, ekki bara samskipti útlendinga og Íslendinga. En mér fannst svolítið gott hvernig Svíarnir lýstu myndinni. Þeir sögðu að í henni sæist meðal annars hversu stutt er á milli kærleiks og grimmdar.“
Það vekur athygli að mótleikkonur þínar Elma Lísa, Enid Mbabazi og Raffaella Brizuela Sigurðardóttir eru ekki atvinnuleikkonur – fannst ykkur það áhætta?
Ásthildur: „Fyrst ætluðum við að fá með okkur reyndar leikkonur til að leika erlendu konurnar og við prófuðum það. Það voru æðislega fínar leikkonur og það var ekki vandamálið. Það sem vantaði var þetta smálega sem gerði þetta ekta; svo sem hreim sem er alltaf svolítið erfitt að fara að búa til. En auðvitað man ég að fólk spurði okkur hvort við ætluðum að taka þá áhættu, en efast ekki um að það hafi verið rétt ákvörðun.“
Elma: „Það gerir söguna í heild mjög sannfærandi að hafa þær með okkur. Þar að auki var ofboðslega gefandi fyrir okkur og myndina að fara í gegnum það ferli að hitta erlendar konur sem eru búsettar hér. Það komu stundir þar sem ég táraðist þegar þær fóru, það var oft átakanlegt að heyra um aðstæður þeirra og fatta hvað Íslendingar hafa það gott.“
Nú var ykkar samstarf svolítið stærra og meira en samband bara leikara og leikstjóra er oft. Hverju breytti það?
Ásthildur: „Það breytir öllu að hafa leikarann með sér í að þróa handritið og persónuna. Í slíkri vinnu fyllist sagan af alls konar smáatriðum sem gefa persónunni fyllri mynd og að því sem hún er. Til dæmis stækkuðum við persónu Elmu Lísu talsvert með því að bæta barni við í söguna sem hún hafði átt og misst.
Elma Lísa: „Það fyllti mjög út í bakland hennar og gerði hana samúðarfyllri. Sjálf tengdi ég sterkt við það að bæta því við í söguna því ég eignaðist sjálf barn seint, stelpu sem er fimm ára í dag og mér fannst það, eins og öllum örugglega, breyta mér mjög mikið og dýpka mig á allan hátt. Annar mikilvægur þáttur í bíómyndinni þessu tengdur sem við bættum við er einnig samband Gísellu og lítillar dóttur annarrar konunnar og hvernig það snertir við Gísellu.“
Ásthildur: „Þar sem persónur Auðar Jónsdóttur eru svo marglaga og óræðar er það virkilega áskorun að skila því á skjáinn. Þar að auki er bókin Tryggðarpantur skrifuð sem táknsaga, allegoría og þegar höfundur hefur slíkt að leiðarljósi er ekki jafnauðvelt að fylla persónurnar smáatriðum því sagan verður alltaf að hafa þessa táknræna merkingu. Ég er mjög þakklát Auði fyrir það sem hún sagði við mig: „Gerðu bara hvað sem þú vilt við þessa sögu. Ég er amma myndarinnar.““
Sjá nánar hér: Vissi samstundis þetta væri sagan – mbl.is