Fréttablaðið ræðir við Önnu Þóru Steinþórsdóttur og dóttur hennar Ernu Kanemu um heimildamyndina Söngur Kanemu.
Úr viðtalinu:
Erna Kanema Mashinkila var þriggja ára þegar hún heimsótti fyrst heimaland föður síns, Sambíu. Þegar hún var átta ára fór hún aftur og í þriðja sinn átján ára. Í öll skiptin tók móðir hennar, Anna Þóra Steinþórsdóttir heimildarmyndagerðarkona, myndavélina með og tók upp viðbrögð Ernu Kanemu við þessum framandi heimi sem var þó hennar, ekki síður en Ísland þar sem hún fæddist og ólst upp. Í gær var frumsýnd í Bíó Paradís heimildarmyndin Söngur Kanemu sem vann bæði áhorfenda- og dómnefndarverðlaunin á Skjaldborg – hátíð heimildarmynda í vor.
„Ég gerði fyrst 25 mínútna mynd um Ernu Kanemu þegar hún var þriggja ára og fór til Sambíu að hitta föðurfólkið sitt í fyrsta skipti,“ segir Anna Þóra.
„Myndin var sýnd á RÚV og í barnatímanum og sýndi viðbrögð hennar sem lítillar stelpu við þessum nýja menningarheimi. Síðan fórum við aftur þegar hún var átta ára. Þá var litla systir, Auður Makaya, komin til sögunnar og þar segir Erna Kanema meira frá því hvernig hún upplifir muninn á því að vera brún á Íslandi eða í Sambíu. Krakkarnir þar voru svolítið að velta fyrir sér hvort hún væri brún eða hvít og hún var líka að velta því fyrir sér sjálf á þessum aldri.“
Erna Kanema bætir við: „Sú mynd var notuð sem fræðslumynd þó hún hafi ekki verið ætluð sem slík og sýnd í samfélagsfræði í skólum. Líka í skólanum hjá mér svo ég horfði á krakkana horfa á mig sem var skrýtið og þegar ég hitti krakka úr öðrum skólum sögðust þau hafa verið að horfa á myndina um mig í samfélagsfræði, sem mér fannst líka mjög skrýtið.“
Þriðja ferðin til Sambíu
Og nú var þriðja myndin um upplifun Ernu Kanemu af uppruna sínum frumsýnd í Bíó Paradís í gær. „Erna hefur verið mikið að grúska í alls konar tónlist, ekki síst afrískri tónlist, og út frá því kviknaði sú hugmynd að gera þriðju útgáfuna af þessari sögu, núna þegar Erna Kanema er að sjá þetta á þröskuldi fullorðinsáranna,“ segir Anna Þóra. „Hinar myndirnar eru barnamyndir og miðast við það umhverfi sem hún er í á hverjum tíma en þessi er meira fullorðins og er bæði lengri og tekur á fjölbreyttari málum. Erna hafði líka meira að segja við gerð þessarar myndar, eðlilega, enda hefði þetta ekki verið hægt öðruvísi.“ Erna tekur undir það og bætir við: „Mér finnst mjög spes að fólk geti séð mig svona berskjaldaða í Bíó Paradís. Að hafa mömmu bak við myndavélina þýddi að ég var ekkert að setja mig í neinar stellingar og nú er ég að fatta að fólk getur bara kynnst mér nokkuð vel á þessum 73 mínútum.“
Sjá nánar hér: Fréttablaðið – Söngur Kanemu: Fylgdi dóttur sinni á framandi heimaslóðir