Alþjóðleg barnakvikmyndahátíð í Reykjavík verður haldin í Bíó Paradís í fimmta sinn 5.-15. apríl næstkomandi. Kvikmyndin Benji the Dove, sem er bandarísk endurgerð Benjamín dúfu (1995) verður frumsýnd á hátíðinni, en Erlingur Jack Guðmundsson er einn framleiðenda hennar. Einnig verður kvikmyndin Adam eftir Maríu Sólrúnu Sigurðardóttur sýnd á hátíðinni en hún var nýlega frumsýnd á Berlínarhátíðinni.
Opnunarmynd hátíðarinnar er Doktor Proktor og tímabaðkarið sem er byggð á vinsælli barnabók Jo Nesbø. Auk þess verður sýndur fjöldi stuttmynda, heimildamynd, sígildar barnamyndir auk þess sem boðið verður upp á skólasýningar og fjölda ókeypis viðburða.
Á hátíðinni verður einnig boðið upp á námskeið í sketsaskrifum fyrir 13-15 ára sem verður kennt af Dóru Jóhannsdóttur, leikkonu og leikstjóra þann 7. apríl frá kl. 13-15. Enn eru nokkur laus pláss á námskeiðin.
Helgina á eftir heldur Óli S.K. Þorvaldz leiklistarnámskeið fyrir börn á aldrinum 9-12 með áherslu á kvikmyndaleik.
Nánar má fræðast um hátíðina hér.