„Svanurinn“ seld til N-Ameríku og Kína

Gríma Valsdóttir í Svaninum (Mynd: Vintage Pictures).

Svanurinn, í leikstjórn Ásu Helgu Hjörleifsdóttur, hefur verið seld til dreifingar í Norður-Ameríku, Kína og Litháen. Þýska sölufyrirtækið m-Appeal sér um að selja myndina.

Synergetic Distribution keypti réttinn til að dreifa myndinni í Norður-Ameriku og hyggst dreifa myndinni í kvikmyndahús þarlendis. Aðstandendur myndarinnar eru afar ánægðir, enda eru slíkir samningar ekki gefnir.

Hugoeast dreifir myndinni í Kína, og í Litháen sér European Film Forum Scanorama um dreifingu.

Ása Helga skrifaði einnig handrit myndarinnar en það byggir á samnefndri bók Guðbergs Bergssonar sem út kom 1991, er marg verðlaunuð og hefur verið þýdd á fjölda tungumála, nú síðast í fyrra var hún gefin út í Taiwan.

Svanurinn var frumsýnd í Toronto í september sem leið og hefur síðan verið á ferðinni milli kvikmyndahátíða. Til stendur að frumsýna myndina á Íslandi í byrjun janúar. Í aðalhlutverkum eru Gríma Valsdóttir, Þorvaldur Davíð Kristjánsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir.

Vintage Pictures framleiddi myndina, en aðalframleiðendur eru Birgitta Björnsdóttir og Hlín Jóhannesdóttir.

Kvikmyndin var styrkt af Kvikmyndasjóði Íslands, Filmförderung Hamburg  Schleswig – Holstein og Estonian Film Institute.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR