Í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að framlög til Kvikmyndamiðstöðvar verði samkvæmt Samkomulaginu 2016-19 og nemur því hækkunin um 7%. Í sama samkomulagi, sem undirritað var í lok október 2016, er einnig lýst yfir vilja til að hækka framlög umfram samkomulagið við fjárlagagerð 2018 og 2019, 125 milljónir króna hvort árið. Á þessum peningum bólar þó hvergi í frumvarpinu. Klapptré spurði Kristinn Þórðarson formann SÍK hvort félagið myndi þrýsta á um að þessi viðbótarframlög kæmu inn.
„Já að sjálfsögðu,“ segir Kristinn. „Vissulega þurfum við að fylgja þessu máli eftir úr því að það fékkst ekki í gegn að hafa þetta sem hluta af samkomulaginu heldur einungis sem viljayfirlýsingu – þó svo að báðir ráðherrar hafi skrifað undir hana.“
Kristinn segir SÍK muni herja á menntamálaráðherra og fjármálaráðherra varðandi þetta, en bendir um leið á að það sé alltaf verið að ýta á um meira fjármagn en áhuginn virðist lítill hjá ráðamönnum.
Hilmar Sigurðsson framleiðandi og fyrrum formaður SÍK er lítt hrifinn af frumvarpinu og segir á Fésbókarsíðu sinni:
„Stórkostlegt að sjá fjárlög sem efla framleiðslu leikins íslensks sjónvarpsefnis sem er hvað mest eftirspurn eftir þessi misserin hjá áhorfendum hér á landi og víða um heim og hvernig 250 m króna gulrótin sem forsvarsmenn kvikmyndafélaganna hlupu á eftir í fyrra hefur skilað sér að fullu inn í fjárlögin“ [⸮or not⸮] #alltiplatiennogaftur
Margréti Örnólfsdóttur handritshöfundi er einnig heitt í hamsi á Fésbók:
Mikið væri nú gaman ef hægt væri að fagna þessari „hækkun“ til kvikmyndagerðarinnar. En þetta er svipað og ef ég hækkaði vasapeninga barna minna úr 1.000 krónum á viku upp í 1.025 krónur, og fyndist ég voðalega rausnarleg. Leikið íslenskt sjónvarpsefni stendur á tímamótum sem gætu gjörbreytt landslaginu hérna, brjáluð eftirspurn bæði hér heima sem og í útlöndum, en við búum við fullkomið skilningsleysi á því að það þyrfti í það minnsta að tvöfalda upphæðina sem er eyrnamerkt leiknu efni í Kvikmyndasjóði ef vel ætti að vera. Hvernig er með þessi stjórnvöld? Horfa þau ekki á sjónvarpið? Vita þau ekki að leikið íslenskt efni er á boðstólum og eftirsótt um allan heim og fólk vill meira? Getur einhver spurt þetta fólk afhverju í ósköpunum það sér ekki hag í því að styðja við og styrkja og bara taka þátt í þessu spennandi ævintýri með okkur? Eigum við öll bara að snúa okkur að því að framleiða lambakjöt sem enginn áhugi er á?
Undir þetta taka ýmsir, þar á meðal Ragnar Bragason, sem segir:
Íslenska sauðkindin er einstök og sumir segja gáfaðri vegna frjálsræðis lausagöngunnar. Stór þáttur er auðvitað að kynbótunum hefur verið haldið innan stofnsins.
Til fróðleiks þá er textinn svona orðaður í Samkomulaginu:
„Fyrir liggur viljayfirlýsing dags. 26. október 2016, undirrituð af fjármála- og efnahagsráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra um að hækka framlög á fjárlögum til Kvikmyndasjóðs á næstu árum. Í yfirlýsingunni er lýst yfir vilja til að við fjárlagagerð fyrir árin 2018 og 2019 verði veittar 125 m.kr. til Kvikmyndasjóðs Íslands, alls 250 m.kr. umfram það sem gert er ráð fyrir í samkomulagi þessu.“