Friðrik Þór Friðriksson settur rektor Kvikmyndaskóla Íslands – fagstjórakerfi tekið upp

Friðrik Þór Friðriksson hefur verið settur rektor Kvikmyndaskóla Íslands fram til áramóta. Hann tekur við starfinu af Hilmari Oddssyni sem nýlega lét af störfum.

Í tilkynningu frá skólanum segir:

Friðrik Þór er einn þekktasti kvikmyndagerðarmaður okkar Íslendinga og á að baki langan og farsælan feril bæði sem leikstjóri og framleiðandi. Hann hefur gert tilraunamyndir, heimildarmyndir og leiknar bíómyndir. Í öllum flokkum á hann myndir sem teljast verða klassík íslenskri kvikmyndasögu. Friðriki Þór hefur hlotnast mikill fjöldi verðlauna og viðurkenninga á ferlinum en hans þekktasta verk er án efa “Börn náttúrunnar” sem tilnefnd var til Óskarsverðlauna. Friðrik Þór hyggst leggja áherslu á að bæta kvikmyndagerð skólans enn frekar og að standa við bakið á nemendum í þeirra kvikmyndagerð.

Fagstjórakerfi tekið upp

Þá hefur skólinn einnig kynnt til sögunnar fagstjórakerfi í stað deildarforsetakerfisins sem verið hefur við lýði síðastliðin 10 ár. Með hinu nýja kerfi verður einn fagstjóri yfir hverri sérgrein innan deildar. Þannig verða 2 til 3 fagstjórar í hverri deild, sem hafa það hlutverk að samhæfa námskeið, umsjón með vali kennara og leiðbeinenda og tryggja að lokahæfniviðmið hverrar sérgreinar skili sér til nemenda.

Yfir fagstjórum er síðan námsstjóri sem ber ábyrgð á stundarskrárgerð og samhæfingu fagstjórnar, kennsluáætlana og hefur umsjón með innri vef. Í tilkynningu frá skólanum segir að fyrirmyndina að þessu kerfi megi finna í mörgum betri kvikmyndaskólum í Evrópu. Þetta muni ekki breyta því að áfram verður unnið með fjölbreytta flóru kennara í öllum faggreinum.

Búið er að ganga frá ráðningu í flestar stöður en stefnt að því að kynna hina fljótlega. Eftirtaldir hafa verið ráðnir fagstjórar:

  • Hilmar Oddsson, fráfarandi rektor verður fagstjóri “Leikstjórnar”
  • Hlín Jóhannesdóttir, fyrrum deildarstjóri 2014-2016 í Leikstjórn/Framleiðslu verður fagstjóri “Framleiðslu”
  • Kjartan Kjartansson verður fagstjóri “Hljóðs”
  • Jakob Halldórsson verður fagstjóri “Klippingar”
  • Kristján U. Kristjánsson verður fagstjóri “Myndbreytinga”
  • Ottó Geir Borg verður fagstjóri “Tegundir handrita”
  • Gunnar B. Gunnarsson verður fagstjóri “Handrita í fullri lengd”
  • Þórey Sigþórsdóttir verður fagstjóri “Leiks og raddar”

Sjá nánar hér: Kvikmyndaskóli Íslands » Friðrik Þór Friðriksson settur rektor Kvikmyndaskóla Íslands

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR