Fyrirhuguð lækkun útvarpsgjalds verður þungt högg fyrir innlendan kvikmyndaiðnað

RÚV húsiðFyrirhuguð lækkun útvarpsgjalds um 1.400 krónur þýðir um 400 milljóna króna tekjumissi fyrir RÚV. Ljóst er að það mun fyrst og fremst bitna á dagskrárframboði og vegur sjónvarpshlutinn þar langþyngst. Mörg framleiðslufyrirtæki og einyrkjar í kvikmyndagerð byggja afkomu sína að verulegu leyti á viðskiptum við RÚV. Viðbúið er að þau muni dragast mikið saman.

Auk þess að horfa framan í 400 milljóna króna niðurskurð ofan á þann sem orðið hefur á undanförnum árum, þarf RÚV að loka gati uppá um 100 milljónir króna til viðbótar. Því nemur heildarniðurskurður um 500 milljónum króna samkvæmt heimildum Klapptrés.

Það hefur varla farið framhjá neinum í bransanum að RÚV hefur skorið hressilega niður og hagrætt mjög í rekstri sínum á undanförnum árum þó að tekist hafi að mörgu leyti að verja dagskrárframboðið. RÚV glímir þó enn við þungar skuldaklyfjar þrátt fyrir útleigu á hluta húsnæðis og sölu byggingaréttar á lóð félagsins. Ljóst er að frekari niðurskurður verður eingöngu á kostnað dagskrár, sem er um 70% af heildar rekstrarkostnaði (sjá nýjustu ársskýrslu RÚV hér) – eða um 4 milljarðar króna (sjónvarp og útvarp).

Árleg heildarviðskipti við bransann um og yfir hálfur milljarður króna

Klapptré hefur heimildir fyrir því að heildarviðskipti við kvikmynda- og sjónvarpsbransann hafa á undanförnum árum verið á bilinu 400-600 milljónir króna og er þróunin í átt til aukningar. Inní þeim tölum eru sjálfstæðir framleiðendur (smærri fyrirtæki og einyrkjar), framleiðslufyrirtæki, þjónustufyrirtæki á borð við tækjaleigur og síðast en ekki síst dagskrárgerðarmenn (flestir upptökustjórar RÚV eru t.d. lausráðnir). Stór hluti þessa hóps byggir tekjur sínar að verulegu leyti á viðskiptum við RÚV og stærri fyrirtækin byggja oft fjármögnun verkefna sinna á vilyrðum RÚV þó að framlag þess sé aðeins lítill hluti framleiðslukostnaðar (þ.e. forsenda fjármögnunar annarsstaðar frá byggir á vilyrði RÚV, líkt og með KMÍ).

Hvar eru hagsmunafélög bransans?

Við blasir að með lækkun útvarpsgjaldsins enn frekar en orðið er gæti tekjumissir fólks og fyrirtækja í bransanum orðið verulegur. Líklegt er því að lækkun útvarpsgjaldsins muni hafa áhrif langt út fyrir stofnunina.

Ætla mætti að hagsmunasamtök kvikmyndagerðarmanna létu sig þetta mál varða, enda snýr það að afkomu fjölmargra sem aðild eiga að þeim samtökum, hvort sem um er að ræða SÍK, FK eða SKL. Ekkert hefur þó heyrst frá þessum aðilum enn sem komið er.

Tíminn að renna út

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra unnið frumvarp þar sem hætt er við seinni lækkunina á útvarpsgjaldinu, en ekki fengið málið samþykkt í ríkisstjórn. Óljóst er um málalyktir nú þegar aðeins fáeinir dagar eru í að fjárlög næsta árs verði samþykkt en þar með tekur lækkunin gildi.

Allt er þetta hið einkennilegasta mál. Undir lok árs 2013 samþykkti Alþingi að tilhlutan Illuga að lækka útvarpsgjaldið í tveimur áföngum, 2015 og 2016. Gjaldið fór úr 19.400 krónum (sem RÚV fékk þó aldrei greitt að fullu) í 17.800 krónur í janúar 2015 og til stendur að það verði 16.400 krónur frá og með janúar 2016. Svo virðist sem Illuga hafi snúist hugur með seinni lækkunina fyrr á þessu ári og hefur þá væntanlega áttað sig á þeim óleik sem Ríkisútvarpinu er þar gerður. Hann virðist þó hvorki komast lönd né strönd með málið, allavega sem stendur.

Þess má svo geta að í hinni alræmdu RÚV-skýrslu sem ráðherrann fól Eyþóri Arnalds og fleirum að gera fyrr á árinu, er nefnt að innan við 60% af heildargjöldum RÚV fari í beinan kostnað við innlenda dagskrá (þetta er reyndar orðhengilsháttur til að gera sem minnst úr dagskrárkostnaðinum, heildar dagskrárkostnaðurinn er í kringum 70% eins og fram kemur annarsstaðar í skýrslunni sjálfri og í tölum RÚV. „Óbeinu“ krónurnar eru að sjálfsögðu jafn raunverulegur kostnaður.) Komi lækkunin til framkvæmda blasir hinsvegar við að dagskrárkostnaður verði lægra hlutfall af rekstrargjöldum RÚV en áður.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR