Frásagnir af dauða línulegrar dagskrár stórlega ýktar

útvarpshúsið_efstaleiti1Ingólfur Hannesson deildarstjóri hjá EBU (Evrópusambandi sjónvarpsstöðva) fjallar um áhorf á línulega dagskrá sjónvarps í Evrópu og segir samdrátt stórlega ýktan. Þá tekur hann RÚV sérstaklega fyrir og segir félagið hafa einstaklega sterka stöðu, einnig hjá yngri aldurshópum.

Hér er fyrsta grein Ingólfs sem fjallar um þróun neyslu á ljósvakamiðlum í Evrópu og stöðu RÚV gagnvart systurstöðvum í því samhengi. Ingólfur nefnir meðal annars eftirfarandi:

  • Samanlagður tími sem Evrópubúar nota í fjölmiðla eykst ár frá ári
  • Aukning í internetnotkun hefur lítil áhrif á vinsældir útvarps og sjónvarps
  • Áhorf er meginstefið, fremur en hlustun eða lestur
  • Meðaltími sem Evrópubúar nota í „áhorf“ er býsna stöðugur
  • Hefðbundið sjónvarpsáhorf er yfirgnæfandi hluti áhorfs
  • Efni sérsniðið fyrir internetdreifingu er einungis um 10% af heildaráhorfi
  • Enn er yfirgnæfandi áhorf á sjónvarpstæki (samanborið við farsíma, tölvur, fartölvur o.s.frv)
  • Annar hver Evrópubúi hlustar reglulega á útvarp

Í annarri grein sinni fjallar Ingólfur sérstaklega um RÚV og stöðu þess á íslenskum markaði. Ingólfur segir RÚV standa sig afburðavel, það tróni á toppnum í Evrópu með 58,5% markaðshlutdeild, ARD/ZDF í Þýskalandi komi næstar með 45,8%, BBC með 43,9% og NRK í Noregi með 37,6%.

Þetta er einstakt, markast vissulega af fákeppninni á Íslandi, litlu úrvali á sjónvarpsmarkaðnum og ekki síst af frammistöðu RÚV um langa hríð þrátt fyrir nánast stöðugan niðurskurð og erfiða rekstrarstöðu.  

Ingólfur bendir einnig á að RÚV Sjónvarp sé líka á toppnum í Evrópu hvað varðar ungt fólk á aldrinum 15-24 ára með 47,7% hlutdeild. Einungis sjö almannastöðvar í Evrópu séu með yfir 21% hlutdeild.

Ingólfur kemur víða víð í grein sinni, hér eru nokkrir punktar:

Innlent efni

Ef litið er á hvernig efni er boðið uppá er RÚV með lágt hlutfall af eigin efni íslensku og hátt af amerísku, í samanburði við aðrar PSM [Public Service Media/Almannastöðvar]. Hér er greinilega verk að vinna, en sökum smæðar og fjárhags er talsvert erfitt að sjá þetta breytast mikið. Hins vegar er RÚV með eitt hæsta hlutfallið af eigin (íslensku) efni sem keypt er af aðilum utanhúss. Þetta má túlka á ýmsa vegu, en sú spurning vaknar hvort að aukning íslensks efnis geti ekki einnig komið frá framleiðslu innanhúss. Þetta verður vafalítið í brennidepli þegar RÚV og menntamálaráðuneytið ganga frá nýjum þjónustusamningi.

Auglýsingar

Það er oft minnst á að auglýsingar eigi ekki heima í miðlum í almannaeigu (varpað fram sem álitamáli í Eyþórsskýrslunni, bls 7), en 36 Evrópuþjóðir hafa komist að þeirri niðurstöðu að blönduð fjármögnun sé besta leiðin (með auglýsingum og/eða kostun). Hjá einungis 7 þjóðum eru engar auglýsingar/kostun í PSM miðlum. Hlutfall auglýsingatekna er hátt hjá RÚV i þessum samanburði, um 1/3 tekna og einungis tvær þjóðir fyrir ofan Ísland á þeim lista, Malta og Pólland. Ekki er óalgengt að þetta hlutfall sé um og yfir 20%, t.d. í Belgíu, Austurríki, Írlandi og Ítalíu.

Kostnaður samfélagsins af rekstri almannastöðvar

Eitt þeirra atriða sem ýttu nýlega af stað umræðum á Íslandi varðandi fjármögnun RÚV er samanburður á greiðslu hvers Íslendings til reksturs RÚV eða tekjur ríkisfjölmiðla á íbúa (bls 10-11). Sú mynd sem dregin er upp í Eyþórsskýrslunni upp passar illa við þær upplýsingar sem mér eru aðgengilegar (fá stöðvunum sjálfum og óháðum aðilum).  Samkvæmt tölum frá 2013 er framlag hvers Íslendings 5,10 Evrur (€) til reksturs RÚV. Til samanburðar er þessi tala 10,35 í Sviss, 6,95 í Finnlandi, 7,41 í Danmörku, 3,84 í Belgíu, 3,77 á Irlandi, 4,03 í Frakklandi o.s.frv.  

Ef fjármögnun PSM er hins vegar skoðuð (2013) sem hlutfall af þjóðarframleiðslu (e. GDP) verður myndin nokkuð áhugaverð og mun skýrari. Þar er meðaltalið í Evrópu 0.19%. Ísland (RÚV) er þar í 9. sæti með 0,30% á eftir þjóðum eins og Bretlandi, Króatíu, Þýskalandi og Austurríki, en á undan t.d. öðrum Norðurlöndum. Þær þjóðir sem eru með lægsta hlutfallið eru t.d. Rúmenia, Spánn, Úkraína, Armenía, Albanía og Litháen, þ.e.a.s. þær þjóðir sem minnstu eyða í PSM sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Ályktun Eyþórsskýrslunnar af þeim gögnum sem sett eru fram er sú að „heildartekjur á íbúa (séu) hærri hjá RÚV en í flestum öðrum samanburðarlöndum“.  Þessi fullyrðing stenst tæplega skoðun.

Ályktunin hér er sú að við erum að fjármagna RÚV á svipuðu róli og aðrar vestrænar Evrópuþjóðir gera við sínar almannastöðvar. Í raun þarf að taka tillit til þess að það er hlutfallslega mun dýrara að reka lítið PSM en stórt. Frammistaða RÚV virðist hins vegar til mikillar fyrirmyndar, fjármunum vel varið og afraksturinn að Ísland, með sitt litla RÚV, er í sannkölluðum toppklassa, spilar í úrvalsdeild eins og við segjum í sportinu.

Sjá nánar hér: RÚV í toppklassa | Kjarninn

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR