Viðhorf | Þegar „rafvirkjarnir“ tóku yfir og hentu leikhúsmönnunum út

Viðtalið við Benedikt Erlingsson í Kjarnanum er mjög fínt. Það má skoða hér. Langar þó að gera smá athugasemd við eitt atriði sem hann ræðir um á tuttugustu mínútu.

Benedikt er spurður um innkomu sína í kvikmyndabransann og segir þá m.a.:

„Ég upplifði pínulitla fordóma gagnvart leikhúsmönnum. Það var ákveðin tíska að dissa leikhúsmenn innan kvikmyndageirans og sjónvarpsgeirans. Það gerðist í sögu Sjónvarpsins frekar snemma að rafvirkjarnir tóku yfir og hentu leikhúsmönnunum út.“

Látum rafvirkjatalið liggja milli hluta. Skil vel að Benedikt skuli nota tækifærið og hnýta í þá tortryggni sem stundum bar á gagnvart leikhúsmönnum á upphafsárum reglulegrar kvikmyndagerðar í landinu. Held að þetta sé mikið til horfið núna, en málið þarf að skoða í sögulegu samhengi.

Á þessum upphafstíma (seinnihluti áttunda áratugsins) er hópur kvikmyndagerðarmanna að hasla sér völl og byggja upp nýja listgrein. Í Sjónvarpinu, þar sem fram fór megnið af því sem kallast kvikmyndagerð í landinu á ofanverðum sjöunda áratugnum og mestallan þann áttunda, hafði tíðkast að fela leikhúsmönnum að stýra svokölluðum sjónvarpsleikritum. Útkoman var oft svolítið drumbsleg – og kannski eðlilega þar sem leikhúsfólk var að læra á miðilinn en viðmiðanir voru gjarnan úr því umhverfi sem það þekkti, þ.e. leikhúsinu.

Sem er ekki endilega „gott sjónvarp“, svo vitnað sé í orð Benedikts sem hefur það hugtak í smá flimtingum í viðtalinu.

Kvikmyndagerðarmenn voru einfaldlega að skapa sér pláss, ekki var hægt að sætta sig við að leikhúsið spilaði þar eitthvað sóló eins og tilhneiging virtist til um tíma. Sagan sýnir þetta ágætlega. Fyrstu sjónvarpsmyndir Hrafns Gunnlaugssonar, Blóðrautt sólarlag og Vandarhögg eru til dæmis miklu áhugaverðari verk heldur en obbinn af gömlu sjónvarpsleikritunum. Sama má segja um fyrstu sjónvarpsmyndir Viðars Víkingssonar Draugasögu og Tilbury – sem og myndir Friðriks Þórs Flugþrá og Englakroppa, sem komu nokkru síðar. Þegar uppbygging er í gangi gengur auðvitað ýmislegt á, það má kalla það vaxtarverki. Allt var það frekar eðlilegt og mörg dæmi til í listasögunni um að nýtt fólk þarf að hafa hátt til að skapa sér pláss. Tíðkast þá stundum hin breiðari spjót umfram fínni blæbrigði í samskiptum. Sú stemmning er auðvitað enn áberandi í bransanum enda lítið um skoðanalaust fólk í honum.

Síðar koma úrvals leikhúsmenn, eins og til dæmis Benedikt, inní kvikmyndagerðina og eru þar sem fiskar í vatni. Það fer til dæmis ekki framhjá neinum sem horfir á Hross í oss að þarna er á ferð maður sem skilur vel að kvikmynd er að segja sögu í myndum.

Þetta er bæði gleðilegt og undirstrikar líka að styrkur kvikmyndalistarinnar felst meðal annars í fjölþættum uppruna og reynslu þeirra sem þar starfa, það sýnir saga kvikmyndanna glöggt. Svo má einnig að hafa í huga að Benedikt kemur inní ákveðna sögu og þróunarferli og er þar af leiðandi í stöðu til að taka afstöðu til þess sem á undan hefur gengið varðandi það sem hann vill leggja áherslu á og það sem hann vill forðast. Eitthvað sem leikhúsmenn á áttunda áratugnum höfðu ekki þegar þeir voru að prófa myndmiðilinn.

Það er þó einnig sjálfsagt að halda því til haga að margir leikarar á þessum upphafstíma reyndust hafa glögga tilfinningu fyrir hinum nýja miðli (sem sýnir fyrst og fremst að þeir voru (og eru) góðir leikarar). Má þar nefna Gísla Halldórsson, Kristbjörgu Kjeld, Sigurð Sigurjónsson, Gunnar Eyjólfsson, Róbert Arnfinnsson, Helga Skúlason, Jóhann Sigurðarson, Jón Sigurbjörnsson, Guðrúnu Ásmundsdóttur, Steindór Hjörleifsson, Lilju Þórisdóttur, og Eddu Björgvinsdóttur – svo dæmi séu nefnd frá sjöunda, áttunda og níunda áratugnum.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR