Jón Atli Jónasson handritshöfundur er meðal fjölda kollega sem kynna nýjar þáttaraðir fyrir framleiðendum og dreifingaraðilum á Series Mania kaupstefnunni sem fram fer í Lille í Frakklandi 18.-25. mars. Verkefni Jóns Atla kallast Island of Youth.
Tvö verkefni sem Jón Atli Jónasson kemur að sem handritshöfundur hafa verið valin á fjármögnunar- og kynningarmessur í vor. Þetta eru annarsvegar finnska þáttaröðin Arctic Circle sem verður kynnt á MIPDrama Buyers’ Summit í Cannes þann 8. apríl og hinsvegar þáttaröðin Violator sem kynnt verður á fjármögnunarmessunni In Development sem fram fer 10.-11. apríl á sama stað.
Ingvar Þórðarson framleiðandi ræðir við vef Norræna sjóðsins um verkefnin framundan, Lof mér að falla, Lifun (Imagine Murder) og önnur sem eru í þróun. Hann segir markmið þeirra Júlíusar Kemp hjá Kvikmyndafélagi Íslands það sama og frá byrjun; að segja sterkar sögur, gjarnan byggðar á raunverulegum atburðum, uppgötva hæfileikafólk og rækta það.
Haukur Már Helgason á blogginu OK Eden skrifar um Austur Jóns Atla Jónassonar og segir hana meðal annars "mynd af helvíti, en það er mikilvægt að ruglast ekki á myndum og veruleika. Nei, þú ferð ekki til helvítis þó þú horfir á myndina. En þú klárar kannski ekki poppkornið þitt á meðan heldur."
Kjartan Már Ómarsson hjá Fréttablaðinu segir Austur Jóns Atla Jónassonar stefnulausa kvikmynd þar sem ofbeldi úr íslenskum veruleika sé teflt fram á hispurslausan máta.
Hjördís Stefánsdóttir skrifar um Austur Jóns Atla Jónassonar í Morgunblaðið og segir myndina vægast sagt ógeðslega og óhugnaðinn með öllu tilgangslausan en engu að síður rífi hann áhorfendur á hol.
Valur Gunnarsson fjallar um Austur Jóns Atla Jónassonar í DV og spyr hvort hún sé ofbeldisfyllsta mynd íslenskrar kvikmyndasögu. "Einhvern veginn finnst manni að svo hljóti að vera, þegar frumsýningargestir streyma út í hrönnum. Á hinn bóginn er ég ekki viss um að það sé neitt ofbeldi í myndinni yfirhöfuð."
Jón Atli Jónasson leikstjóri og handritshöfundur kvikmyndarinnar Austur er í viðtali við Morgunblaðið vegna útkomu myndarinnar sem frumsýnd verður í kvikmyndahúsum á föstudag.
Kvikmyndin Austur eftir Jón Atla Jónasson er væntanleg í kvikmyndahús þann 17. apríl næstkomandi. Þetta er fyrsta bíómynd Jóns Atla sem kunnur er fyrir handritsskrif.