Lestin um EFTIRLEIKI: Einstök blanda óhugnaðar og fyndni

Kolbeinn Rastrick fjallar um Eftirleiki eftir Ólaf Árheim í Lestinni á Rás 1 og segir hana minna á kóreska spennutrylla, persónurnar sogist inn í hringiðu ofbeldis þar sem mörkin á milli þess sem er rétt og rangt afmást.

Kolbeinn skrifar:

Eftirleikir er fyrsta kvikmynd Ólafs Árheims sem leikstýrði, klippti og framleiddi. Ferlið tók rúm átta ár frá því að hann hóf að skrifa handrit myndarinnar árið 2016. Tökur fóru fram í þremur hlutum, 2017, 2019 og 2021.

Eftirleikir er sótsvört kómedía og spennutryllir sem gerist á þremur tímalínum, árið 1992, 2008 og 2018. Árið 1992 fylgjumst við með Jóngeiri, leiknum af Jóa Jóhannssyni, sem er búinn að missa konu sína og dóttur í skilnaði, vegna þess að hann er fylliraftur og ónytjungur. Uppfullur af heift leitar hann uppi kennara sinn úr barnaskóla, Svein, leikinn af Eggerti Rafnssyni, sem að mati Jóngeirs er valdur að því að líf hans fór í vaskinn. Endurfundir þeirra eru langt í frá ánægjulegir og festast þeir í minni ungs sonar Sveins, Kára.

Árið 2008 er Kári litli orðinn fullorðinn og virðist búinn að einsetja sér að svipta sig lífi. Það er Andri Freyr Sigurpálsson sem leikur hinn fullorðna Kára. Þegar enn ein tilraunin mistekst ákveður hann að finna Jóngeir í fjöru. Jóngeir er nýbúinn að afplána fangelsisdóm og Kári ákveður að sitja fyrir honum. Fyrir utan fangelsið tekur dóttir Jóngeirs, Mæja leikin af Vivian Ólafsdóttur, á móti föður sínum. Kári missir kjarkinn og ákveður að bíða betri tíma.

Árið 2018 bankar Kári upp á hjá Mæju. Hann útskýrir fyrir henni að eitthvað sem gerðist á milli þeirra hafi komið verulegu ójafnvægi á kosmósið. Hann segist vera búinn að reikna þetta allt út og eina leiðin til þess að koma á jafnvægi aftur sé að hún drepi hann.

Áhorfendur fylgjast með þessum tímalínum til skiptis og smátt og smátt kemur í ljós hver tengslin eru á milli persónanna. Er því erfitt að lýsa söguþræðinum frekar án þess að spilla honum þar sem að tíminn líður ekki línulega innan myndarinnar.

Það sem Eftirleikir minnir hvað mest á eru kóreskir spennutryllar eins og I Saw the Devil, Sympathy for Mr. Vengeance og Thirst.

Persónurnar sogast inn í hringiðu ofbeldis þar sem mörkin á milli þess sem er rétt og rangt afmást.

Eins og gjarnan gerist í þessum kóresku tryllum fylgja ljúfir tónar klassískrar tónlistar ofbeldinu. Sama á við um Eftirleiki þar sem Kári er með það á heilanum að spila CD-diskinn sinn sem inniheldur klassísk verk. Þetta smáatriði er eitt af því sem gerir myndina mjög fyndna á sama tíma og hún er ógeðsleg og spennandi. Það er til dæmis eitt atriði þar sem Kári getur varla talað eða gengið en er að skipa manneskju sem hann heldur í gíslingu að spila diskinn sinn ellegar stingi hann hana. Þegar manneskjan, dauðhrædd, setur diskinn af stað kvartar Kári yfir að þetta sé vitlaust lag, hann vilji lag númer 12.

Þannig verður til mjög einstök blanda óhugnaðar og fyndni. Það fer ekki á milli mála að sum atriði ganga án efa fram af sumum áhorfendum, en svo eru önnur atriði sem koma áhorfendum til þess að hlæja upphátt.

Í Spurt og svarað eftir frumsýningu myndarinnar á RIFF í ár sagði Ólafur að stefna hennar og áherslur hafi breyst með tímanum, einfaldlega sökum þess hversu langan tíma það tók að gera hana . Hann þroskaðist og breyttist sem kvikmyndagerðarmaður og manneskja á þessum átta árum. Er það eflaust ástæða þess hversu mismunandi tímalínurnar eru. 1992-tímalínan er mun alvörugefnari og þyngri en létta og absúrd 2018-tímalínan.

Það eru þó augnablik þar sem myndin tekur sig aðeins of alvarlega. Þau augnablik eru hættulega nálægt því að falla í algenga klisju í íslenskum kvikmyndum. Það er þegar ofbeldi og mannvonska verða svo yfirgengileg að myndirnar missa algjörlega tenginguna við hið meinta raunsæi sem þær eru að reyna að fanga.

Þetta misræmi á milli tímalínanna er þó það sem gerir Eftirleiki mjög sterka sem kvikmyndaverk. Gálgahúmorinn og fáránleikinn koma í veg fyrir að myndin sökkvi í þunglyndisfen alvarleikans og alvarleikinn heldur myndinni jarðtengdri sem gerir fáránleikann enn fyndnari.

Eftirleikir er alls ekki fullkomin og eflaust ekki allra en hún er einstakt verk í íslensku kvikmyndaflórunni. Lítið, skrítið og skemmtilegt blóm, útatað blóði og viðbjóði.

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR