spot_img

Dagur Kári um HYGGE og þversögnina í velsældinni

Dagur Kári ræðir við Lestina á Rás 1 um mynd sína Hygge, sem nú er sýnd í Bíó Paradís.

Segir meðal annars á vef RÚV:

Hygge er dönsk endurgerð á ítölsku grínmyndinni Perfetti sconosciuti frá árinu 2016, sem hefur verið endurgerð hvað oftast af öllum kvikmyndum, eða 28 sinnum. Í byrjun árs 2023 kom út íslenska útgáfan, Villibráð, í leikstjórn Elsu Maríu Jakobsdóttur sem skrifaði handritið ásamt Tyrfingi Tyrfingssyni.

Í fyrra kom út danska myndin Hygge! í leikstjórn Dags Kára Péturssonar sem skrifar einnig handritið. Kvikmyndin hlaut tilnefningu til Dönsku kvikmyndaverðlaunanna fyrir besta aðlagaða handritið. Lóa Björk Björnsdóttir ræddi við Dag Kára í Lestinni á Rás 1.

„Fyrst þegar þessi hugmynd var kynnt fyrir mér þá fannst mér það mjög steikt, að fara að endurgera pínu slappa ítalska grínmynd. En svo fékk ég að sjá Villibráð, sem þá var í klippiferli, og mér fannst það alveg ótrúlega vel heppnuð mynd. Það opnaði augu mín fyrir því að maður getur tekið sér alls konar skáldaleyfi og verið með mjög frjálsar hendur.“

Í upprunalegu myndinni er það vinahópur sem kemur saman og ákveður að fara í samkvæmisleik sem virkar þannig að allir gestir matarboðsins þurfa að lesa upp öll sms-skilaboð sem berast á meðan leiknum stendur og svara öllum símtölum á hátalarastillingu.

Dagur Kári ákvað að breyta forsendunni og gerði vinahópinn að fjölskyldu, breytti kynhneigð fólks og uppruna. „Mig langaði bara að gera skemmtilega mynd. Það sem ég einblíni á eru alltaf karakterarnir og kringumstæðurnar, mjólka það eins og ég get.“

Í Villibráð er þetta þrátt fyrir allt hópur sem langar til að hittast. „En þarna bý ég til kringumstæður þar sem þetta er í rauninni fólk sem finnur sig knúið til að hittast en löngunin er kannski ekki alveg til staðar – sem breytir dýnamíkinni mjög mikið.“ Það sé ekki jafn auðvelt að skera á fjölskyldusambönd og vinatengsl, og fólk situr oft uppi með fjölskylduna í gegnum allt lífið.

Sjúklegt hvernig lífið er orðið að stíl

Dagur Kári segist aldrei velta boðskap neitt stórkostlega mikið fyrir sér en það sem honum þyki sláandi við Norðurlöndin er að fólk lifir allt of góðu lífi. „Þetta er komið út í einhvern sjúkleika, hvað fólk hefur það gott. Mér finnst svo augljóst að þetta er ekki í jafnvægi, þetta er komið úr böndunum í einhverri lífstílsdýrkun,“ segir hann.

„Mér fannst kannski spennandi að stilla því upp gagnvart því; sama hvað við eigum margar Teslur og hvað við drekkum fínt vín og eigum falleg hnífapör, þá erum við manneskjur með okkar bresti, veikleika og vandamál.“

Til að mynda sé ein persónan atferlishönnuður. „Höfum við þörf á því og hvað gerir hann? Þetta er til og þetta er fólk sem rukkar 50 þúsund kall á tímann. Gerviþarfir og gervilausnir,“ segir Dagur Kári.

Hann hafi óbeit á orðinu „lífstíll“ og þyki það í raun hræðilegt orð. „Að lífið sé einhver stíll. Þá er maður kominn eitthvað svo langt frá því sem skiptir máli. Mér finnst það kannski enn þá meiri Danmörk heldur en Íslands; lífið er svo mikill stíll. Það er svo mikil stílísering og hönnun á því hvernig maður lifir lífinu og presenterar sjálfan sig gagnvart umheiminum. Allt frá tísku yfir í barnavagna, bíla, hús, innanstokksmuni. Þetta er komið svo langt frá einhverju notagildi og grunnþörfum.“

Honum þykir þessi velsæld vera komin út í öfgar og á hraðri leið með að verða sjúkleg. „Bara í samanburði við hvað er í gangi annars staðar í heiminum. Þetta verður óþægilegt, finnst mér.“

Hygge meira kvíðavaldandi en eitthvað annað

Að sama skapi þykir Degi Kára hugtakið hygge kjarna danska þjóðarsál. „Mér sem innflytjanda í Danmörku hefur alltaf fundist þetta hygge rosalega stressandi. Af því að þetta er svo langt frá því að vera spontant eða eitthvað sem sprettur upp úr engu. Það er alltaf rosalegt skipulag í kringum þetta,“ segir Dagur Kári. Sem dæmi sé ekki hægt að ákveða að hittast í kaffi nema með viku fyrirvara og matarboð þurfi þrjár vikur. Það sé dónalegt að stinga upp á hittingi samdægurs. Á meðan Íslendingar séu mun hvatvísari.

„Það er kannski líka kvöðin við þennan lífstíl sem við lifum er að þegar maður hittist þá þarf allt að vera svo fínt og djúsí og mikið gæðastöff,“ segir Dagur Kári. „Í viku 26 er ég að fara að hitta þetta fólk og maður finnur bara kvíðann safnast upp. Svo loksins þegar dagurinn kemur þá kannski langar mann ekki að hitta þetta fólk – en það er búið að ákveða þetta fyrir fjórum vikum.“

Þetta leiki hann sér með í myndinni, þversögnina sem felst í því hvernig Danir vilji mála sig bæði inn á við og út á við sem þjóðina sem kunni að hafa það hygge. „En þetta er í rauninni ákveðinn terror og kvíðasöfnunarregnhlíf.“

Dagur Kári býr nú á Íslandi en hefur ekki starfað hér á landi í að verða tíu ár. „Ef maður er að vinna við eitthvað sem er skemmtilegt og skapandi þá er mér alveg sama hvar það er.“ Hann sé nýlokinn við tökur á danskri dramaþáttaröð sem fari í sýningar á næsta ári.

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR