spot_img

Tekjur af menningarframlagi streymisveita gætu numið um 260 milljónum króna

Frumvarp um menningarframlag streymisveita, þar sem gert er ráð fyrir sérstökum skatti af tekjum þeirra á Íslandi, er í vinnslu í Menningarmálaráðuneytinu.

Lögin í mótun, líklega lögð fram á haustþingi

Frumvarpsdrög voru sett í samráðsgátt í vor og er unnið að frágangi. Búast má við frumvarpinu á haustþingi. Þar er gert ráð fyrir skattur á tekjur streymisveita á Íslandi verði 5% og renni til Kvikmyndasjóðs. Einnig er gert ráð fyrir þeim möguleika að innheimta skattsins geti verið í formi fjárframlags og/eða beinnar fjárfestingar:

Gert er ráð fyrir að áhrif frumvarpsins verði mest á streymisveitur sem fjárfesta lítið eða takmarkað í nýju íslensku efni. Til glöggvunar má nefna að innlendar streymisveitur eru nú þegar að fjárfesta í innlendu efni og því yrði kallað eftir upplýsingum um umfang þeirrar framleiðslu. Ef fjárfesting er 5% eða hærra hlutfall af áskriftartekjum á ársgrundvelli félli gjaldtakan niður.

Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu eru fjórar stórar alþjóðlegar streymisveitur með skráða starfsemi á Íslandi: Netflix, Disney+, Viaplay og Amazon Prime Video. Tekjur af erlendum streymis og sjónvarpsáskriftum námu 5,3 milljörðum kr. árið 2023. Miðað við þetta gæti framlagið verið um 265 milljónir króna miðað við 5% hlutfall áskriftartekna hér á landi.

Frá þeirri upphæð þyrfti svo að draga kostnað samfara gjaldtökunni, sem er áætlaður um 5–8 m.kr. m.v. hálft stöðugildi, segir ráðuneytið og ítrekar að lögin eru enn á samráðsstigi og ýmislegt gæti átt eftir að taka breytingum. Einnig er rétt að benda á að frumvarpið er tilkynningaskylt til ESA á grundvelli laga nr. 57/2000 og á grundvelli reglna um ríkisstyrki.

Fjárlagafrumvarp verður lagt fram 10. september þegar Alþingi kemur saman. Ekki er vitað á þessu stigi um framlög til Kvikmyndasjóðs, en sjóðurinn hefur sætt miklum niðurskurði á undanförnum árum. Í fjármálaáætlun 2025-2029 er gert ráð fyrir frekari niðurskurði. Orðrómur er á kreiki um að eitthvað verði bætt í sjóðinn, en hvað verður kemur í ljós á næstunni.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR